Þegar farfuglarnir hafa komið sér fyrir hefst nýr kafli í sögu þjóðarinnar ár hvert og sumar síðurnar, sem skrifaðar voru í líðandi viku, lofa svo sannarlega góðu um framhaldið.

Þegar farfuglarnir hafa komið sér fyrir hefst nýr kafli í sögu þjóðarinnar ár hvert og sumar síðurnar, sem skrifaðar voru í líðandi viku, lofa svo sannarlega góðu um framhaldið.

Víkverji man þegar þáverandi menntaskólapiltarnir Ólafur Stefánsson og Dagur Sigurðsson slógu fyrst í gegn með handboltaliði Vals. Óli mætti svellkaldur úr fríi á Kanarí, ef Víkverji man rétt, og afslappaður tryggði hann liði sínu sigur á örlagastundu. Þá var hann ekki með hugann við spennuna heldur raulaði með sjálfum sér eitthvert lag og virtist vera úti á þekju.

Þetta kom upp í hugann, þegar Lovísa Thomson, 15 ára grunnskólanemi, tryggði Gróttu fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins með marki tveimur sekúndum fyrir leikslok í fyrrakvöld. „Ég var ekkert að pæla í hvað ég var að gera,“ sagði hún við Morgunblaðið. „Ég lét bara vaða.“ Og svo braut hún páskaegg sem hún hafði geymt frá páskum í byrjun nýliðins mánaðar og fékk sér langþráð súkkulaði.

Á sama tíma léku stórliðin Bayern München og Barcelona seinni leik sinn í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta, Bayern vann en Barca leikur til úrslita við Juventus vegna betri samanlagðra úrslita í báðum leikjunum. Áður hafði Stjarnan haldið áfram á sigurbraut í fótboltanum hér heima og halda sérfræðingarnir vart vatni yfir árangri liðsins.

Eftir sigur á nýliðum í fyrstu umferð var Stjarnan kölluð Chelsea Íslands og sagt að árangur þjálfarans væri eins og hjá José Mourinho. Ekki leiðum að líkjast enda stjóri Englandsmeistara Chelsea almennt talinn einn sá besti í heiminum. Miðað við orð íslenskra sérfræðinga hljóta augu forsvarsmanna stórliða í Evrópu að beinast að Páli Mourinho og lærisveinum hans í Garðabænum.