Björn Bergmann Sigurðarson
Björn Bergmann Sigurðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víðir Sigurðsson vs@mbl.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Þetta var engin smá dramatík, alvöru bikarúrslitaleikur og frábær stemning á vellinum,“ sagði Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í knattspyrnu, við Morgunblaðið eftir að hann og Björn Bergmann Sigurðarson urðu danskir bikarmeistarar í gær.

Þeir unnu þá Eggert Gunnþór Jónsson og félaga í Vestsjælland, 3:2, í framlengdum úrslitaleik á Parken í Kaupmannahöfn, og Björn skoraði annað markið sem kom FCK í 2:1 snemma í seinni hálfleik.

„Þetta var geysilega vel gert hjá Birni sem fékk stungu innfyrir vörnina og lyfti boltanum laglega yfir markmanninn. En við vorum klaufar með því að fá okkur tvö mörk í leiknum úr uppstilltum atriðum,“ sagði Rúrik en Vestsjælland knúði fram framlengingu með því að jafna metin í 2:2 þremur mínútum fyrir leikslok.

En hetja FCK var 19 ára Færeyingur, Brandur Olsen, sem kom inná sem varamaður og skoraði sigurmarkið í framlengingunni. „Þetta er strákur sem hefur sáralítið spilað með okkur og átti frábæra innkomu. Nú hlýtur að vera þjóðhátíð í Færeyjum!“ sagði Rúrik sem fékk lítinn tíma til að fagna bikarnum að leik loknum.

„Nei, nú er það bara hvíld og uppbygging fyrir stórleikinn gegn Midtjylland á sunnudaginn. Ef við vinnum eigum við enn smá von um að ná meistaratitlinum úr höndunum á þeim, þó það yrði áfram ekki í okkar höndum. En það er virkilega gott að vera allavega búnir að vinna þennan bikar,“ sagði Rúrik en níu stig skilja liðin að þegar fimm umferðir eru eftir af dönsku úrvalsdeildinni.