Varnarmál Utanríkisráðherrar aðildarríkja NATO, þar á meðal Gunnar Bragi Sveinsson, funduðu meðal annars um hernaðarumsvif Rússa.
Varnarmál Utanríkisráðherrar aðildarríkja NATO, þar á meðal Gunnar Bragi Sveinsson, funduðu meðal annars um hernaðarumsvif Rússa. — NATO
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Málefni Úkraínu, Afganistan og breytt öryggisumhverfi var til umfjöllunar á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins, NATO, sem lauk í gær.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Málefni Úkraínu, Afganistan og breytt öryggisumhverfi var til umfjöllunar á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins, NATO, sem lauk í gær. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti fundinn sem var haldinn í Antalya í Tyrklandi og tilkynnti hann þátttöku Íslands í stuðningssjóði við starfsmenntun her- og lögreglukvenna í Jórdaníu í samræmi við áherslur Íslands: að efla þátttöku kvenna í öryggis- og friðarmálum.

Ítrekuðu stuðning við Úkraínu

Á fundinum ítrekuðu bandalagsríkin stuðning sinn við úkraínsku þjóðina og hvöttu deiluaðila til að standa vörð um samkomulagið.

„Það er helsta haldreipi okkar og það þurfa allir að leggjast á eitt við að tryggja að því verði fylgt eftir,“ sagði Gunnar Bragi en fundað var um breytingar á öryggisumhverfi í Evrópu vegna uppgangs öfgamanna í Mið-Austurlöndum og N-Afríku, og hernaðarumsvif Rússa.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, staðfesti á fundinum að hann hefði fengið veður af því að Eystrasaltsríkin þrjú; Eistland, Lettland og Litháen, ætluðu að óska formlega eftir herstuðningi frá NATO í næstu viku. Stuðningurinn yrði til mótvægis við aukin hernaðarumsvif Rússa nærri Eystrasaltssvæðinu og hefur ráðuneyti varnarmála í Lettlandi staðfest að óskað verði eftir herstuðningi frá NATO eftir helgi.

Stoltenberg sagði of snemmt að tjá sig efnislega um beiðni ríkjanna þar sem bréfið hefði ekki enn borist bandalaginu, heldur verður farið vel yfir efni þess og því svarað þegar það berst. Stoltenberg lagði þó áherslu á að þegar væri búið að styrkja varnir Eystrasaltsríkjanna í lofti og á sjó. Ekki eru allar NATO-þjóðirnar sammála um hvernig eigi að bregðast við beiðni ríkjanna vegna samningsins sem var gerður á milli bandalagsins og Rússlands árið 1997.

Vilja mörg landanna heldur styrkja færanlegan stuðingsher NATO en herinn yrði nýttur í baráttu við krísur í bæði suðri og austri. Stoltenberg sagði slíkan her styrkja varnir Eystrasaltsríkjanna.