— Morgunblaðið/Kristinn
15. maí 1897 Talvél var sýnd í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík. Þetta var fyrsta hljómflutningstækið sem kom til landsins, en það var í eigu Sigfúsar Eymundssonar. Tækið „spilar og syngur ýmis lög,“ sagði í auglýsingu. 15.

15. maí 1897

Talvél var sýnd í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík. Þetta var fyrsta hljómflutningstækið sem kom til landsins, en það var í eigu Sigfúsar Eymundssonar. Tækið „spilar og syngur ýmis lög,“ sagði í auglýsingu.

15. maí 1941

Alþingi samþykkti að fresta þingkosningum um allt að fjögur ár vegna hins óvenjulega ástands sem ríkti í landinu, sem þá var hernumið. Kosið var þó strax á næsta ári.

15. maí 1952

Fiskveiðilögsagan var færð úr þremur sjómílum í fjórar. Jafnframt var grunnlína dregin „frá ystu annesjum, eyjum eða skerjum og þvert fyrir mynni flóa og fjarða,“ eins og það var orðað í reglugerð. „Fagnaðardagur,“ sagði í ritstjórnargrein Morgunblaðsins. „Stórt spor stigið í baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir rétti sínum.“ Næsta útfærsla var sex árum síðar.

15. maí 1967

Fyrsta íslenska sjónvarpsleikritið, Jón gamli eftir Matthías Johannessen, var frumsýnt. Valur Gíslason lék aðalhlutverkið.

15. maí 1987

Mathias Rust, ungur þýskur flugmaður, kom til landsins til að æfa sig fyrir flug til Moskvu sem hann hlaut heimsfrægð fyrir.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson