[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Bjarki Már Gunnarsson, landsliðsmaður í handbolta, verður áfram í herbúðum þýska 2. deildar liðsins EHV Aue.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Bjarki Már Gunnarsson, landsliðsmaður í handbolta, verður áfram í herbúðum þýska 2. deildar liðsins EHV Aue. Bjarki er að ljúka sínu öðru tímabili með liðinu og hefur undirritað nýjan tveggja ára samning við félagið.

„Þetta er frágengið. Okkur líður vel hérna og ég er ánægður með að halda áfram í atvinnumennskunni. Ég er ekki tilbúinn að koma heim alveg strax. Ég vil reyna að ná eins miklu og hægt er út úr ferlinum,“ sagði Bjarki þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær en hann er smám saman orðinn afar mikilvægur hlekkur í vörn íslenska landsliðsins. Hlutverk hans þar mun varla minnka þegar nú hillir undir að Sverre Jakobsson láti staðar numið með landsliðinu.

Aue er í austurhluta Þýskalands, nánast við landamærin við Tékkland. Handboltaliðið er hálfgerð Íslendinganýlenda ef svo má segja. Rúnar Sigtryggsson þjálfar liðið. Sonur Rúnars og bróðir eru í leikmannahópnum, Sigtryggur og Árni Þór. Þá leikur markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson einnig með liðinu sem og Hörður Fannar Sigþórsson. Útlit er fyrir að margir Íslendinganna verði áfram hjá félaginu og Rúnar á eitt ár eftir af samningi sínum sem þjálfari. Bjarka líkar vel að vinna með Rúnari sem sjálfur stóð lengi vaktina í vörn landsliðsins.

„Rúnar er metnaðarfullur þjálfari og ég er ánægður með hann. Gott er að vita af metnaðarfullum þjálfara þegar maður framlengir samning. Hann krefst mikils af mönnum og hefur ástríðu fyrir boltanum,“ sagði Bjarki ennfremur en segir erfitt að meta hvort hann hafi tekið miklum framförum í Þýskalandi. Aðrir eigi auðveldara með að dæma um það.

Bjarki sagði eitthvað hafa verið um þreifingar og fyrirspurnir frá öðrum félögum en ekkert alvarlegt hafi orðið úr því. „Það er ekkert að því að líta aðeins í kringum sig en það fór aldrei á annað stig,“ sagði Bjarki Már ennfremur við Morgunblaðið.