Guðjón Guðmundsson
Guðjón Guðmundsson
Eftir Guðjón Guðmundsson: "4-5 þúsund manns hafa afkomu sína af þessum iðnaði."

Undanfarnar vikur hafa birst harðorðar greinar í fjölmiðlum gegn fyrirhugaðri sólarkísilsverksmiðju á Grundartanga. Og eins og svo oft áður eru stóru orðin ekki spöruð, t.d. sagði þjóðkunnur poppsöngvari í grein í Fréttablaðinu 1. maí að þorpið á Grundartanga væri í raun jólaþorp frá helvíti!

Það er eins og það séu trúarbrögð hjá ákveðnum aðilum að hamast gegn virkjunum og stóriðju. Þegar járnblendiverksmiðjan var reist fór flokkur manna og reisti níðstöng á Grundartanga. Ekki gekk minna á þegar álverið var reist á Grundartanga, þá risu upp ýmsir heimsendaspámenn sem fullyrtu m.a. að þarna yrði allt á kafi í óþrifnaði og vatnið sem við Akurnesingar sækjum í Akrafjall yrði ónothæft vegna mengunar. Allt hefur þetta reynst tóm vitleysa og Norðurál er til fyrirmyndar í umhverfismálum.

Sá háværi minnihluti sem mest er á móti stóriðjunni talar gjarnan með fyrirlitningu um störf í þessum verksmiðjum. Samt er það nú þannig að þessi störf eru mjög eftirsótt, t.d. sóttu 1.100 manns um vinnu í Norðuráli þegar fyrirtækið hóf starfsemi sína og allar götur síðan hefur verið mikil ásókn í störf í verksmiðjunni og starfsmannavelta lítil. Þegar nýlega var auglýst eftir sumarafleysingafólki bárust 600 umsóknir. Af hverju skyldu nú þessi störf vera svona eftirsótt. Jú, launin eru betri en almennt gerist og stóriðjan greiðir hæstu meðallaun á Vesturlandi að fiskveiðum undanskildum. Þá er mikið lagt upp úr aðbúnaði starfsmanna og öryggismálin eru tekin föstum tökum.

Verksmiðjurnar á Grundartanga hafa frá því þær hófu starfsemi sína átt ríkan þátt í að treysta atvinnu og búsetu í nágrannabyggðum sínum. Á Akranesi vinna a.m.k. 5-600 manns á Grundartanga og tugir ef ekki hundruð manna við margháttaða þjónustu við stóriðjuna. Bæði þegar járnblendiverksmiðjan og álverið hófu starfsemi fjölgaði íbúum bæjarins um mörg hundruð og hefur fjölgað jafnt og þétt síðan. Starfsemin á Grundartanga er einn af burðarásum atvinnulífs bæjarins.

Íslensku álverin kaupa vörur og þjónustu fyrir 25 milljarða á ári af yfir 700 innlendum fyrirtækjum. Útflutningsverðmæti áls var 226 milljarðar á síðasta ári. Hjá álverunum þremur starfa yfir 2.000 manns og að meðtöldum þeim sem þjónusta fyrirtækin eru það 4-5 þúsund manns sem hafa afkomu sína af þessum iðnaði.

Eitt af því sem andstæðingar stóriðjunnar hafa haldið fram jafnt og þétt í áratugi er að verið sé að selja raforku til þessara fyrirtækja á útsöluverði. Þessi kenning var afsönnuð rækilega á nýlegum ársfundi Landsvirkjunar þar sem fram kom að fyrirtækið skilaði 19 milljörðum í hagnað í fyrra, greiddar hafa verið niður skuldir um 82 milljarða á síðustu 5 árum og fjárfest á sama tíma fyrir 68 milljarða. Það var einnig boðað að eftir 2-3 ár mundi Landsvirkjun greiða arð upp á 10-20 milljarða á ári. Þar sem heimilin í landinu greiða mun lægra raforkuverð en gerist í nágrannalöndunum má ljóst vera að það er salan til stóriðjunnar sem ber uppi þessa frábæru afkomu. Kenningar stóriðjuandstæðinga eru því alrangar og kemur það fáum á óvart.

Við Íslendingar eigum að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar innan skynsamlegra marka. Á því byggist lífsafkoma okkar. Við þurfum að virkja meira og fá orku til atvinnuskapandi starfsemi. Það er því fagnaðarefni að meirihluti Alþingis er að breyta rammaáætlun þannig að þetta megi verða. Gleymum því ekki að við erum að framleiða hreinustu orku í heimi.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.