Strákur fór ég í sveit í Litlu-Sandvík í Flóa. Þar leið mér vel og ég tók út mikinn þroska. Aldís og Lýður voru einstök og það veganesti, sem þau gáfu mér, hefur enst mér til þessa dags og mun endast mér á leiðarenda.

Strákur fór ég í sveit í Litlu-Sandvík í Flóa. Þar leið mér vel og ég tók út mikinn þroska. Aldís og Lýður voru einstök og það veganesti, sem þau gáfu mér, hefur enst mér til þessa dags og mun endast mér á leiðarenda.

Faðir minn gaf mér Illgresi eftir Örn Arnarson þegar ég fór í sveitina, svo að sú bók hefur orðið mér kærust bóka. Enn þann dag í dag kann ég hrafl úr henni. Mér þykir alltaf vænt um kvæðið Sesam, sem vinur föður míns Halldór Vigfússon kenndi mér:

Glatað hafði eg vörðu og vegi,

villur fór í manndrápsbyl,

kom ég þar sem gullið góða

geyma Sesams klettaþil.

Laust ég bergið berum hnúa.

Bergið laukst í hálfa gátt.

Sá ég ljóðagullið góða

glitra í skuggans myrku nátt.

Fyllti hugann gleði og geigur,

ganga vildi í bergið inn,

en leit um öxl, og í því bili

aftur luktist hamarinn.

Síðan hef ég ár frá ári

afl við Sesams múra þreytt,

blóðgum hnúum klettinn knúið –

kletturinn bifast ekki neitt.

Kvæðið Hænsni þótti mér tær snilld:

Nokkur heiðurshænsni

í hænsnakofanum búa

og haninn er þeirra höfuð

og hænurnar á hann trúa.

Þau lifðu í eining andans

og eftir hænsnavenjum

uns hænan ein tók upp á

svo undarlegum kenjum.

Að hoppa upp á hauginn

er hennar fasti vani,

reigja sig og rembast

og reyna að vera hani.

Haninn bölvar í hljóði.

En hvað er um það að tala

þótt hænuréttindahæna

heimti að fá að gala?

Margar af vísum Arnar Arnarsonar urðu fleygar og á hvers manns vörum:

Drottinn hló í dýrðarkró.

Dauðinn sló og marði

eina mjóa arfakló

í hans rófugarði.

----

Predikaði presturinn

píslir vítisglóða.

Amen, sagði andskotinn.

Aðra setti hljóða.

--

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is