[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Malín Brand malin@mbl.is Fyrir tæpum hundrað árum, árið 1917, lögðu nokkrir menn á ráðin um það að kaupa flugvél og nota hana hér á landi til ýmissa verka. Eflaust hefur einhverjum þótt mennirnir galnir að láta sér detta annað eins í hug.

Sviðsljós

Malín Brand

malin@mbl.is

Fyrir tæpum hundrað árum, árið 1917, lögðu nokkrir menn á ráðin um það að kaupa flugvél og nota hana hér á landi til ýmissa verka. Eflaust hefur einhverjum þótt mennirnir galnir að láta sér detta annað eins í hug. Hér voru varla komnir vegir!

Úr varð eins konar ævintýri og er sagan af komu fyrstu flugvélarinnar hingað til lands æði mögnuð. Vélin var af gerðinni Avro 504K og hófst framleiðsla Avro 504 (sem til var í nokkrum útfærslum á borð við K) árið 1913. Hún var töluvert notuð í fyrri heimsstyrjöldinni og þótti henta ljómandi vel til flugkennslu.

Til heiðurs hugsjóninni

Það er vel við hæfi að segja hér sögu þessarar fyrstu flugvélar Íslendinga því á morgun er stofnfundur Hins íslenska Avro-félags. Að baki félaginu eru nokkrir af flugköppum nútímans og eru þeir hugsjónamönnum fortíðarinnar afar þakklátir. Það er meðal annars ástæða þess að þeir ætla að kaupa Avro 504 og sjá til þess að hún fljúgi á hundrað ára afmælisdegi flugsins á Íslandi, hinn 3. september 2019.

Einn þeirra sem hafa unnið undirbúningsvinnu í tengslum við stofnun félagsins er flugstjórinn Sigurjón Valsson. Hann er mikill áhugamaður um flugsöguna og þekkir vel til sögu fyrstu flugvélarinnar.

Flugfélag Íslands númer eitt

Það sem í seinni tíð hefur verið nefnt Flugfélag Íslands númer eitt var býsna merkilegt fyrirtæki fyrir margra hluta sakir, að sögn Sigurjóns. „Þetta var eitt af fyrstu borgaralegu flugfélögunum í Evrópu. Menn voru farnir að skrifa hér í blöðin strax árið 1917, á meðan fyrri heimsstyrjöldin var enn í fullum gangi úti í hinum stóra heimi, og vísuðu til þess að flugvélar gætu hentað mjög vel til póstflutninga á Íslandi og annarra slíkra hluta,“ segir Sigurjón og bendir á að af þessu megi ráða að menn hafi fylgst vel með þeim tækniframförum sem orðið höfðu í stríðinu.

„Þorkell Þorkelsson, sem síðar varð veðurstofustjóri, var einn þeirra fyrstu sem bentu á með skrifum sínum að það ætti að fá flugvélar hingað til lands. Þetta hefur sýnt gríðarlega mikla framsýni hjá honum að láta sér detta þetta í hug.“ Árið 1918 birtust greinar um flug og flugvélar öðru hverju í blöðum og var fjallað um möguleikana til nota þeirra hér á landi. „Í byrjun árs 1919 var haldinn formlegur stofnfundur Flugfélags Íslands og var farið að safna hlutafé til kaupa á flugvélum. Menn voru mjög stórhuga þarna til að byrja með því þarna átti að kaupa tvær flugvélar og senda menn til náms erlendis, bæði flugmenn og flugvirkja. Starfsheitið flugvirki var ekki til á þessum tíma og íslenskan var nokkurn tíma að finna orð yfir þann sem sem sinnir slíku starfi en talað var um að menn lærðu fluglist,“ segir Sigurjón.

Vél í risastórum kassa

Fluglistamenn og flugmenn gegndu sannarlega lykilhlutverki í innleiðingu flugs á Íslandi en áður en Íslendingar höfðu menntað sig í flugkúnstum var fyrsta vélin keypt og það var sumarið 1919. „Vélin kom í raun gegnum Det Danske Luftfartselskab því það hafði verið að kaupa flugvélar í Bretlandi og þessi vél, Avro 504K, hafði verið ætluð til nota í Danmörku en var í staðinn send hingað,“ segir Sigurjón.

Ætla má að það hafi verið heljarinnar umstang að koma þessum kaupum í kring og að sögn Sigurjóns er ekki nokkur vafi á að gríðarlegt átak hafi þurft til að láta allt ganga upp. „Í það minnsta kom vélin hingað í einum risastórum kassa og var sett saman í Vatnsmýri. Með vélinni kom danskur flugmaður að nafni Cecil Faber ásamt flugvirkja. Úr kassanum var smíðað eins konar flugskýli, sem þá var nefnt flugskáli, og stóð kassinn ekki langt frá þeim stað þar sem hús Íslenskrar erfðagreiningar er í dag.“

Fyrsti flugdagurinn var hinn þriðja september 1919 og er talið að vélin hafi farið í loftið fyrir norðan nyrstu skýlin í Fluggörðum.

Með hvatningarmiða til Eyja

Alls voru flognar 146 einstakar ferðir frá 3. september til 25. september árið 1919 og þótti Íslendingum mikið til vélarinnar koma. Þeir sem flugu yfir Reykjavík fengu nokkurs konar viðurkenningarskjal að flugi loknu sem óyggjandi sönnun þess að menn hefðu í raun og veru gerst svo frægir að sjá höfuðborgina úr lofti.

„Fyrstu loftmyndirnar af Reykjavík voru einmitt teknar úr þessari vél árið 1919,“ segir Sigurjón.

Flestar voru ferðirnar stuttar og aðallega í kringum Reykjavík en þó var farið í langflug alla leið til Vestmanneyja. Þar átti að lenda og afhenda Eyjamönnum hvatningarmiða um að kaupa hlutabréf í Flugfélaginu. „Ófært var til lendingar í Eyjum og var miðunum að lokum kastað úr flugvélinni og flestir lentu þeir í höfninni. Vegna þess hve eldsneytisbirgðir flugvélarinnar dugðu illa, þurfti að millilenda á Kaldaðarnesi báðar leiðir. Þetta var 18. september 1919 og greint var frá því í Morgunblaðinu 20. september.“

Því miður varð fyrsta dauðsfallið tengt flugi snemma í flugsögunni en það var í Vatnsmýrinni sumarið 1920. „Þegar flugvélin var að fara í loftið safnaðist iðulega fjöldi fólks í kring enda var þetta algjör nýjung. Í einu flugtakinu hlupu tvö börn, systkini, fyrir vélina. Þau ætluðu að hlaupa yfir túnið og fara í áhorfendahópinn hinum megin og lentu í skrúfu vélarinnar. Stúlkan dó og strákurinn stórslasaðist. Flugmaðurinn, Frank Fredrickson, reyndi að stýra vélinni frá börnunum um leið og hann sá hvað var að gerast og endaði úti við girðingu þar sem hann braut loftskrúfuna og svo framvegis. Sennilega er eini hluti þessarar vélar sem varðveittur er hér á landi skrúfublað sem brotnaði í þessu atviki,“ segir Sigurjón um þetta dapurlega slys.

Stutt saga en merkileg

Vélin góða var tekin úr kassanum á ný sumarið 1920. Íslenskættaður flugmaður kom fram á sjónarsviðið en hann hafði alið manninn í Vesturheimi og aflað sér menntunar í hernum ytra. Hét sá Frank Fredrickson og var hann ráðinn til Flugfélagsins og flaug hann vélinni hér heima fyrstur Íslendinga. „Það var svo ekki fyrr en 1930 með Flugfélagi Íslands númer tvö sem Siggi flug fór að fljúga, borinn og barnfæddur á Íslandi,“ segir Sigurjón.

Síðsumars 1920 var vélinni pakkað í kassann á ný en var aldrei tekin úr honum aftur því vorið 1921 var Flugfélag Íslands númer eitt orðið gjaldþrota. „Í raun var enginn fjárhagslegur grundvöllur fyrir rekstri á slíkri flugvél. Hún var því send til Danmerkur þar sem hún endaði í þjónustu danska flughersins. Þar fékk hún skrásetningarnúmerið 3 hjá Hærens Flyveskole. Hún var tekin í notkun hjá þeim þann 3. júlí 1922 en tekin úr notkun og rifin í janúar 1931.“

Ævintýrið hjá Flugfélagi Íslands númer eitt var stutt en virkilega merkilegt og þar var lagður grunnurinn að flugsögu Íslands. Þeir sem áhuga hafa á sögunni eru hjartanlega velkomnir á stofnfund Hins íslenska Avro-félags á morgun, laugardaginn 16. maí. Fyrri fundurinn verður í skólastofu Geirfugls í Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli og hefst hann stundvíslega klukkan 10. Framhaldsstofnfundur verður haldinn sama dag í Flugsafninu á Akureyri og hefst hann klukkan 14. Þeir sem að félaginu koma eru hinir ýmsu flugáhugamenn og er stofnunin undir merkjum Íslenska flugsögufélagsins og Flugsafns Íslands.