Tónskáldið „Mér fannst vera kominn tími til að vitja aftur árdaga framúrstefnunnar. Í dag finnst hvorki flytjendum né áheyrendum þetta vera nein vitleysa,“ segir Borgar um fyrsta tímabil höfundarverks Atla Heimis.
Tónskáldið „Mér fannst vera kominn tími til að vitja aftur árdaga framúrstefnunnar. Í dag finnst hvorki flytjendum né áheyrendum þetta vera nein vitleysa,“ segir Borgar um fyrsta tímabil höfundarverks Atla Heimis. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Í dag hefst í Listaháskóla Íslands og menningarhúsinu Mengi við Óðinsgötu tónleika- og fyrirlestraröð um höfundarverk Atla Heimis Sveinssonar tónskálds.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Í dag hefst í Listaháskóla Íslands og menningarhúsinu Mengi við Óðinsgötu tónleika- og fyrirlestraröð um höfundarverk Atla Heimis Sveinssonar tónskálds. Í Mengi hefjast klukkan 21 þeir fyrstu í röð tíu tónleika þar sem flutt verður tónlist frá fyrsta tímabili höfundarverks hans. Sama dag og tónleikarnir eru haldnir verður ætíð haldinn fyrirlestur og í dag klukkan 13 ríður Þráinn Hjálmarsson á vaðið með fyrirlestri í Sölvhóli, húsnæði LHÍ, og fjallar um framúrstefnuna í höfundarverki tónskáldsins.

Á efnisskrá tónleikanna í kvöld er frumflutningur á verkinu Trio für Bläser frá 1960, og þá verða flutt Djúp er sorgin // Tief ist die Trauer frá 2002, fyrir einleiksflautu, Fönsun IV frá 1968, fyrir einleiksfagott, Dona nobis pacem frá 1983, fyrir einleiksklarinett og lesara, og Hljóðaljóð . Flytjendur kvöldsins eru Melkorka Ólafsdóttir á þverflautu, Arngunnur Árnadóttir á klarinett, Michael Kaulartz á fagott og Örn Magnússon lesari.

Samhliða upphafi raðarinnar er hleypt af stokkunum hópfjármögnun hjá Karolina fund til styrktar verkefninu og gefst áhugasömum kostur á að eignast grafíkverk með verkum Atla Heimis.

Hafa ekki verið gerð góð skil

Borgar Magnason, bassaleikari og tónskáld, er forsvarsmaður verkefnisins sem unnið er í samvinnu við Mengi og Listasháskólann, auk Hollvinasamtaka Atla Heimis.

„Þetta verða mánaðarlegir tónleikar,“ segir Borgar. „Ég hef verið að safna saman höfundarverki Atla Heimis og hef leitað leiða við að kynna það. Rauði þráðurinn gegnum þessa tónleikaröð er æskuverk Atla, verk gerð á um 15 til 17 ára tímabili þar sem hann var upptendraður af nýjum hugmyndum og skrifaði ótrúlega fín verk. Megnið af þeim var ekki flutt og þau sem heyrðust voru iðulega leikin af hljóðfæraleikurum sem höfðu enga reynslu af óhefðbundinni nótnaskrift og fyrir áheyrendur sem vildu heyra klassíska tónlist. Fyrir vikið féllu verkin oft í grýttan jarðveg.

Núna þegar ég hef verið að safna þeim saman, þá sé ég að þetta eru tugir mjög fínna verka sem aldrei hafa verið gerð almennileg skil.“

Borgar segir að á öllum tónleikunum verði eitt lykilverk frá fyrsta tímabili Atla Heimis, einskonar burðarbiti, þá yfirleitt kammerverk, og önnur verk flutt með, oft einleiksverk. „Í fyrirlestrunum, sem verða stundum í LHÍ en í önnur skipti í Mengi, verður gjarnan fjallað um þessa árdaga framúrstefnunnar á Íslandi, hugmyndir settar í samhengi og vaktar til lífsins, frekar en að nálgunin sé fræðileg,“ segir hann.

„Lykilverkið á fyrstu tónleikunum er blásaratríó sem Atli samdi 22 ára gamall og er í fyrsta hluta framúrstefnuverka hans, og það verður frumflutt. Þá verður til að mynda flutt Fönsun IV fyrir fagott, mikið virtúósaverk, og Hljóðaljóð , ljóð eftir Atla, sem blásararnir Melkorka og Arngunnur gera skil. Þær eru líka báðar ljóðskáld og voru áhugasamar um að fá að gera þeim skil á sinn hátt. Leiðbeiningar Atla með þessum ljóðum eru heimspekilegar og fjalla um hljóð og ljóð og flytjendur og íhugun og flytjendur fá frjálsar hendur um flutninginn.“

Borgar segir að á sumum tónleikunum verði þau verk sem frumflutt eru leikin tvisvar; í kvöld hefjast tónleikarnir því á tríóinu sem er um átta mínútna langt, og verður það leikið aftur í lok tónleikanna. „Þetta var gert í tónleikaröð sem ég tók þátt í í Belgíu fyrir mörgum árum og það kom mjög vel út,“ segir hann.

Merkileg menningarsaga

„Þeim merkilega menningararfi sem við eigum í tónlist er ekki sinnt sem skyldi og því er hætt við að hann glatist,“ segir Borgar þegar spurt er hvers vegna hann hafi ráðist í þetta verkefni. „Mér fannst vera kominn tími til að vitja aftur árdaga framúrstefnunnar, núna þegar aðstæður og skilningur í samfélaginu er gjörbreytt frá því sem var. Í dag finnst hvorki flytjendum né áheyrendum þetta vera nein vitleysa. Þetta höfundarverk Atla, frá því um 1960 þegar hann kom heim frá námi og þar til um 1978, er ofboðslega umfangsmikið og spennandi en því hafa ekki verið gerð nægilega góð skil. Tónlist er ekki neitt fyrr en búið er að flytja hana og því fannst mér mikilvægt að fá nú vandaðan flutning á verkunum. Þetta er mjög merkilegur hluti okkar menningarsögu.“

Til að fjármagna verkefnið var sjónum beint að myndlistinni í óhefðbundinni nótnaskrift Atla Heimis. Ingibjörg Birgisdóttir og Orri Jónsson prenta takmarkað upplag af handunnum silkiþrykksverkum sem byrjað verður að selja á Karolina fund í dag.