Í vinnustofunni Ásdís er alsæl í Eyjum þar sem hún saumar af hjartans list.
Í vinnustofunni Ásdís er alsæl í Eyjum þar sem hún saumar af hjartans list. — Morgunblaðið/Sigfús Gunnar Guðmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásdís Loftsdóttir, fatahönnuður, fluttist á æskuslóðir sínar eftir fjörutíu ára fjarveru.

Ásdís Loftsdóttir, fatahönnuður, fluttist á æskuslóðir sínar eftir fjörutíu ára fjarveru. Hún unir hag sínum vel í Vestmannaeyjum þar sem hún segist hafa fengið ferska sýn á það sem hana raunverulega langar til að gera; fatahönnun er áfram stærsti þátturinn í þeirri mynd en verslunarrekstur draumurinn.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Netadræsa á hrauni á jafnmikla möguleika á að hljóta náð fyrir augum Ásdísar Loftsdóttur fatahönnuðar og lóa á hóli eða fífill í túni – bara svo handahófskennd dæmi séu tekin. Alls konar fyrirbæri sem hún tekur myndir af verða henni kveikja hugmynda að mynstrum á fisléttum silkislæðum, fatnaði, púðum, dúkum og fleiru sem hún hannar undir merkinu Black Sand.

Ekkert skrýtið að myndavélin sé með í för þegar hún fer í gönguferðir, hvort sem leiðin liggur um gamla hraunið eða suður fyrir Helgafell í Vestmannaeyjum. „Andagiftin kemur til mín hvaðanæva,“ segir Ásdís, alsæl með að geta úr húsinu sínu horft yfir að Eldfelli, Heimakletti og Helgafelli.

Hún er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en fluttist „heim“ eins og hún segir eftir að hafa búið í 40 ár á höfuðborgarsvæðinu. „Ég var þó ekki að leita í faðm fjölskyldunnar, hér býr enginn mér náinn lengur. Hins vegar er ég hér í faðmi náttúrunnar. Ég og hundurinn. Hér hef ég fengið ferska sýn á það sem ég vil gera,“ segir Ásdís.

Með Yoko Ono

Hún og hundurinn, sem raunar er tík og heitir Yoko Ono, fluttust til Eyja eftir að Ásdís missti verslun sem hún var með við Laugaveginn í hruninu auk þess sem fjölskyldan missti húsið sitt. Eiginmaðurinn, sem er byggingameistari, fór til Noregs að smíða og dæturnar þrjár í nám og ævintýraleit til útlanda. „Allir fóru nema ég og Yoko Ono svo ég ákvað bara að við færum líka og hef ekki séð eftir því.“

Þetta var í árslok 2011. Nú er eiginmaðurinn að vísu kominn frá Noregi, en þau eru í fjarbúð þar sem hann er að smíða úti um allt land. „Hann skreppur hingað með Herjólfi þegar hann fær því viðkomið. Ef ég ætlaði að vera með honum alla daga þyrfti ég mest að sitja út í bíl og bíða. Þess í stað sit ég ein og sauma...,“ segir hún brosandi.

Ásdís útskrifaðist með BA í fatahönnun og markaðssetningu frá The American College for Applied Arts árið 1986, en lærði bæði í London og Los Angeles. Öfugt við marga fatahönnuði lærði hún ung að sauma og prjóna og kann vel til verka, enda saumar hún sjálf allt sem hún hannar og prjónar ullar- og lopapeysurnar sem hún selur undir merkinu Diza.

„Við sem vorum í Kvennaskólanum fengum mjög góða kennslu í handavinnu, en ég hef líka farið á ýmis námskeið í sauma- og prjónaskap. Oft þarf ég að halda vel á spöðunum til að geta afgreitt pantanir á netverslun minni, woolshop.is, og annað eftirspurn í versluninni Jöklu við Laugaveg, sem ég á hlut í ásamt fjórtán listamönnum og hönnuðum. Að öðru leyti er ég með einstaka hönnun hér og þar í umboðssölu.“

Ljósmyndirnar sem Ásdís tekur og leggja grunn að mynstrunum, t.d. á silkislæðunum fyrrnefndu, sendir hún til Bandaríkjanna og Kína eftir að hafa snurfusað þær í ákveðnu forriti. Þar eru mynstrin prentuð með sérstakri tækni á slæðurnar eða efnin sem Ásdís saumar síðan upp úr. Að öðru leyti fullvinnur hún afurðir sínar sjálf, til dæmis býr hún sjálf til mynstrin á Diza ullar- og lopapeysurnar.

Tími til að spjalla

Fljótlega eftir að Ásdís kom sér fyrir í Eyjum opnaði hún verslun og rak hana í tvö ár en þá var húsnæðið selt. Hún hefur þó mikinn hug á verslunarrekstri síðar meir, enda segist hún vera með kaupmannsblóð í æðum.

„Ætli ég hafi það ekki frá pabba mínum sem rak verslun hérna í Eyjum í mörg ár. Samskiptin yfir búðarborðið hafa alltaf heillað mig, sérstaklega í svona litlu samfélagi þar sem fólk gefur sér tíma til að spjalla. Eins og nú háttar til einbeiti ég mér að framleiðslunni og netversluninni. Viðskiptavinirnir hringja einfaldlega á undan sér ef þeir vilja koma og skoða úrvalið hjá mér.“

Úrvalið gefur einnig að líta á sýningunni Handverk og hönnun, sem opnuð var í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær og stendur til 18. maí. Þar sýna hátt á fimmta tug hönnuða og handverksmanna alls konar hönnun; flíkur, skó, töskur, skart, keramik og heimilisvörur af ýmsu tagi.

Heimili og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur. 14.-18. maí. Opið frá kl. 10-18. Aðgangur ókeypis www.handverkoghonnun.is