Ingvar Smári Birgisson isb@mbl.is „Í rauninni þýðir þetta að þeir sem eru í starfi í dag geta verið eins lengi og hentar Fiskistofu að þeir séu í starfi.

Ingvar Smári Birgisson

isb@mbl.is

„Í rauninni þýðir þetta að þeir sem eru í starfi í dag geta verið eins lengi og hentar Fiskistofu að þeir séu í starfi. Þegar þeir hætta verður síðan ráðið í stöðuna á Akureyri,“ segir Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu, um tilkynningu sjávarútvegsráðherra til starfsmanna Fiskistofu þess efnis að þeir þurfi ekki að flytja til Akureyrar til að halda starfi.

Tilkynningin var send 13. maí til starfsmanna Fiskistofu í kjölfar þess að Umboðsmaður Alþingis mæltist til þess að ráðherra „geri starfsmönnum Fiskistofu grein fyrir stöðu málsins nú og hvers þeir megi vænta um framhaldið“.

Flutningurinn tekur 15-20 ár

Eyþór segir að höfuðstöðvarnar verði þá klofnar á tveimur stöðum, Reykjavík og Akureyri. Taka mun langan tíma að færa starfsemina að öllu leyti norður. „Eðlileg starfsmannavelta á Fiskistofu hefur verið 6-10% á ári. Ef við horfum á stóran hluta þessara starfa sem falla þarna undir erum við að tala um 15-20 ár þangað til ferlinu lýkur,“ segir Eyþór.

Eyþór var eini starfsmaður Fiskistofu sem hafði gefið út að hann myndi flytja til Akureyrar og mun hann fylgja þeim plönum eftir. „Það er hluti af þeim möguleika að geta opnað höfuðstöðvar á Akureyri. Þetta snýst að stórum hluta um að höfuðstöðvarnar verði á Akureyri og liður í því er að forstjórinn sé þar. Því er eðlilegt að ég fari norður nokkuð fljótlega eftir að ákveðið hefur verið að flytja höfuðstöðvarnar. Það vantar samt ennþá formlega ákvörðun um flutning Fiskistofu.

Ekki liggur fyrir að fleiri starfsmenn flytji strax til Akureyrar með Eyþóri. „Ég mun halda áfram að hvetja fólk til að skoða þann möguleika. Ég hef ekki gert mikið af því hingað til, þar sem ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um að færa Fiskistofu til Akureyrar.“

Þá segir Eyþór að lokum að tilkynningin eyði allri óvissu um starfsöryggi starfsfólks Fiskistofu. Fólk hafi það í hendi sér að það geti haldið sínu starfi og verði ekki sett í þá stöðu að þurfa að flytja til Akureyrar eða missa vinnuna.