Kaj Erik Nielsen fæddist í Nakskov á Lálandi í Danmörku 9. október 1926. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 7. maí 2015.

Foreldrar hans voru Hans Peter Holger Nielsen, f. 2.2. 1898 í Næstved, Sjálandi, Danmörku, d. 1975, og Agnes Margrethe Nielsen, f. 31.1. 1900 í Nakskov, Lálandi, Danmörku, d. 1981. Kaj átt einn bróður, Knud Edmund Nielsen, f. 11.2. 1921, d. 30.4. 1986, og eina systur sem lést strax sem kornabarn.

Kaj giftist Edel Nielsen árið 1946. Þau skildu 1957. Börn: 1) Jan Tang Nielsen, f. 1947. Lést árið 2011. Lætur eftir sig einn son. 2) Maj Britt Tang Nielsen, f. 1950.

Kaj flutti til Íslands árið 1959 og kvæntist 23. desember sama ár Pálínu Sigþrúði Einarsdóttur Höjgaard, f. 29.1. 1936. Pálína var áður gift Þorsteini Gunnarssyni, f. 1.11. 1932, d. 24.5. 1958. Börn Pálínu og Þorsteins: 1) Sigurlaugur, f. 15.4. 1953. Maki Þorgerður Valdimarsdóttir, f. 5.1. 1956. Skilin. Börn: a) Gyða, f. 1972, og b) Þorsteinn, f. 1975. Seinni maki Ruth Þorsteinsson, f. 1.1. 1946. Barn þeirra: Kristína Pálína, f. 1980. 2) Unnur, f. 7.2. 1956. Maki Ásmundur Eiríksson, f. 6.9. 1950. Börn þeirra eru: a) Eiríkur, f. 1973, og b) Lena Dögg, f. 1984. Börn Kajs og Pálínu eru: 1) Halldór, f. 29.1. 1961. Maki Guðrún Finnbogadóttir, f. 7.3. 1961. Skilin. Börn: a) Finnbogi, f. 1980, og b) Þórey, 1982. Seinni maki Sjöfn Sigfúsdóttir, f. 26.3. 1960. Barn þeirra: Nökkvi Nielsen, f. 1998. Skilin. Er í sambúð með Önnu Jónu Þórðardóttur. 2) Elísa, f. 15.12. 1961. Maki Björn Ágúst Björnsson, f. 23.1. 1963. Börn: a) Halldór Atli, f. 1979, b) Hákon Davíð, f. 1982, c) Karen Ósk, f. 1989, d) Ágúst Kaj, f. 1991, og e) Jóel Dan, f. 1994. 3) Agnes Margrét, f. 23.10. 1964. Maki Vilhjálmur Jónsson, f. 30.12. 1963. Börn: a) Ólafur Örn, f. 1983, b) Jódís Dagný, f. 1991, og c) Sara Björk, f. 1999. 4) Nanna Herdís, f. 23.10. 1964. Maki Gunnar Snorri Gunnarsson, f. 28.5. 1964. Börn: a) Snorri, f. 1995, og b) Irma, f. 1998. 5) Ólöf Stefanía, f. 23.10. 1964. Maki Kristján Gunnarsson, f. 16.8. 1964. Börn: a) Anna Pálína, f. 1991, b) Rakel, f. 1991, d. 1991, og c) Gunnar Freyr, f. 1993. 6) Eiríkur, f. 7.8. 1968.

Kaj fæddist í Nakskov á Lálandi. Hann fluttist árið 1941 til Kaupmannahafnar og fór á samning í bakaraiðn hjá hjá bakarameistaranum Hegner í Hellerup. Hann lauk sveinsprófi við bakaraiðn árið 1945 í Kaupmannahöfn. Var sjóliði hjá konunglega danska sjóhernum 1946-1947. Fluttist árið 1959 til Íslands. Starfaði hjá Sauðárkróksbakaríi 1959 og hjá Bakaríi Vestmannaeyja síðar sama ár. Fluttist í Kópavog árið 1963 og hóf störf í Bernhöftsbakaríi og vann þar til ársins 1970 er hann hóf störf hjá Bakaríinu Austurveri og vann þar uns hann lét af störfum árið 1994.

Kaj verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 15. maí 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi minn. Í hjarta mínu geymi ég sterkari tilfinningar til þín en ég næ nokkurn tímann að setja á blað og í huga mínum geymi ég svo fallegar og dýrmætar minningar um þig. Þú varst einstakur maður, blíður, fallegur góður og mikill húmoristi. Ég kveð þig með sárum söknuði í hjarta. Þú áttir engan þinn líka og ég mun aldrei gleyma öllum þeim óteljandi dýrmætu stundum sem við áttum saman.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku pabbi, takk fyrir samveruna.

Þín dóttir

Ólöf (Óla).

„Hej, Stjene, hvad er det for noget?“ spurði Kaj. Eins og algengt var með Dani af hans kynslóð sem fluttu til Íslands var íslenskan ekki hans sterka hlið. Hann hélt sig því við dönskuna, stundum þó með íslenskuslettum. Hér á árum áður vildu allir æfa sig á dönskunni þannig að ekki var auðvelt að komast inn í íslenska tungu þótt vilji hafi verið til þess.

Kaj ólst upp við strangan föðuraga á heimili sínu í Nakskov og aðeins 15 ára er hann farinn að heiman. Kaj flytur til Íslands árið 1959 á erfiðum tímamótum í hans lífi í kjölfar skilnaðar. Að hans sögn ætlaði hann sér ekkert sérstaklega að flytja til Íslands. Vildi bara fara nógu langt í burtu frá þeim stað í tilverunni sem hann var staddur á á þeim tíma. Ísland var nógu langt í burtu.

Kaj fékk vinnu sem bakari á Sauðárkróki. Þar kynntist hann eiginkonu sinni, Pálínu Höjgaard, árið 1959 en þá var hún aðeins 23 ára gömul, ekkja með tvö börn sem hafði nýlega flutt frá Vestmannaeyjum. Hörkudugleg kona sem hafði kynnst ýmsum þrautum lífsins á unga aldri. Mestan hluta ævinnar vann Kaj sem bakari hjá bakaríinu Austurveri. Reyndar var öll fjölskyldan meira og minna á kafi í störfum tengdum bakaríum á þeim tíma er ég kynntist eiginkonu minni árið 1983. Ekki skortur á brauði á því heimili, þótt annars væri upplifun á skorti og ýmsum erfiðleikum afar sterk í gegnum árin hjá þessari stóru fjölskyldu.

Hjá mér stendur upp úr hvað Kaj var hlýr og notalegur karakter. Hann var óendanlega stoltur af sinni stóru fjölskyldu en einnig afar háður henni, kannski meira en ella sökum tungumálsins. Kaj hafði mikinn áhuga á garðyrkju en einnig laxveiði á eyðijörðinni Dalhúsum á Bakkafirði sem þau hjónin áttu hlut í. Þangað var keyrt með alla fjölskylduna á hverju einasta ári og stundum tvær til þrjár ferðir á ári þótt langt væri að fara á rykugum og holóttum malarvegum með sex börn í aftursætinu auk farangurs.

Alltaf var stutt í grallarann hjá Kaj og hinn skemmtilega danska „humør“. Hann einfaldlega kunni ekki að vera gamall maður. Við tengdasynirnir áttum oft góðar stundir með honum og fengum hann oft til að segja okkur sögur frá því í gamla daga er hann var unglingur í Kaupmannahöfn sem var undir hernámi Þjóðverja. Þetta voru ekki hetju- eða montsögur heldur fyndnar sögur þar sem hann gerði óspart grín að sjálfum sér og félögum fyrir ýmis prakkarastrik og hegðun sem á þeim árum þótti ekki til fyrirmyndar. Það mátti um hann segja að hann tók sjálfan sig ekki of alvarlega. Það er kostur sem oft er vanmetinn.

Í gegnum tíðina hefur Kaj þurft að glíma við mikil veikindi og verið ótrúlega oft við dauðans dyr. Í þessari glímu hefur reynt mikið á hans frábæru eiginkonu og tengdamóður mína, hana Pálínu, sem alltaf hefur verið hans stoð og stytta. Eins og kötturinn með sín níu líf hefur Kaj í gegnum árin alltaf náð sér aftur á strik. Ég hélt það sama gerðist núna en því miður náði maðurinn með ljáinn yfirhöndinni. Kaj lést hinn 7. maí sl. eftir erfið veikindi. En um góðan mann lifa góðar minningar. Kaj, takk fyrir samfylgdina. „Vi ses.“

mbl.is/minningar

Kristján Gunnarsson.

Elsku afi, ég er svo heppin að hafa átt þig sem afa. Þú varst með gullhjarta og þín verður sárt saknað. Þú ert hetjan mín. Ég elska að heyra skemmtilegu og fyndnu sögurnar af þér. Þú varst sko algjör grallari. Ég man eitt skipti sem þú komst á Laugarvatn með okkur og við stóðum öll við tjörnina að spjalla og þú lést flösku berast með læknum og við skildum ekkert hvaðan hún kom. Þá leit ég á þig og þú varst skellihlæjandi.

Nú ertu kominn á góðan stað, elsku afi, þar sem þér mun líða vel. Ég er svo glöð að hafa náð að kveðja þig uppi á spítala. Mér þykir mjög vænt um þig og mun aldrei gleyma þér.

Sara Björk Vilhjálmsdóttir.

Elsku afi Kaj, þín verður sárt saknað. Okkur barnabörnin langar að minnast þín í nokkrum orðum því þú varst alltaf svo yndislegur og góður.

Það helsta sem stendur upp úr er hvað þú varst mikill grallari og húmorinn var alltaf til staðar. Undanfarna daga höfum við verið að rifja upp sögur frá því þegar við vorum yngri t.d. eitt skiptið þegar við fórum með þér í útilegu og þú fórst að veiða með hinum körlunum í fjölskyldunni. Amma var búin að skipa þér í pollabuxur og gúmmístígvél og banna þér að bleyta þig. Þegar þú komst til baka úr veiðiferðinni sturtaðir þú vatninu úr gúmmístígvélunum fyrir framan ömmu og okkur og hlóst mikið. Þetta fannst okkur krökkunum líka mjög fyndið. Þarna var amma að reyna að passa upp á þig eins og oft áður en þú eins og prakkari sem kemst fram hjá því.

Þú varst líka algjör sælkeri og hafðir gaman af því að elda og baka. Það var svo gaman að koma í heimsókn þegar þú varst búinn að bralla eitthvað í eldhúsinu. Við erum búin að heyra ótrúlega margar skemmtilegar sögur af þér frá því þú varst ungur og minnumst þín einnig fyrir hlýju og galsaskap árin sem við umgengumst þig. Við gleymum þér aldrei og munum alltaf hugsa hlýlega til þín.

Þín barnabörn,

Anna, Jódís,

Gunnar og Snorri.

Ég vil fara nokkrum orðum um nýlátinn tengdaföður minn, Kaj Erik. Auk þess hef ég sett inn á heimasíðu Morgunblaðsins allítarlega grein sem ekki birtist í prentútgáfu.

Kaj hefur alla tíð verið mér mikils virði og þá ekki bara fyrir þá staðreynd að vera faðir elskulegrar eiginkonu minnar hennar Lísu, heldur ekki síst vegna þess hve fljótt við náðum saman. Allt það líf sem Kaj hafði lagt að baki þegar við fyrst kynntumst, fyrir hartnær 34 árum, hefur ætíð heillað mig og oft náðum við tveir að fá næði til að sitja og spjalla. Hann að rifja upp þann hluta ævi sinnar sem tilheyrði Danmörku og ég að ná sem skýrastri mynd með spurningum. Þannig var það nú bara að hann var aldrei talandi um sjálfan sig, það þurfti að spyrja. Glaðværð og tilfinningasemi voru honum í blóð borin og oftast útilokað að ná að eiga við hann tal án þess að minnsta kosti ein hláturgusa kæmi frá honum.

Eitt var það lífið að halda stórt heimili með henni Pálu sinni. Samheldni þeirra aðdáunarverð, en að upplifa áhuga hans á eldhússtörfum og garðyrkju, það var hrein nýlunda fyrir mér.

Ein önnur hlið lífs hans var að vera í Dalhúsum, Bakkafirði, hugsandi og talandi um lax og þannig að kúpla sig frá hversdagsleikanum. Tvisvar fékk ég að njóta þess að fara einn með ástkærum tengdaforeldrum mínum austur í Dalhús í vinnuviku. Hvílík forréttindi.

Í einni af skemmtiferðum okkar Lísu með Eiríki, Kaj og Pálu, fengum við Eiríkur að upplifa saman eina af þessum stóru stundum. Ég, Eiríkur og Kaj ókum niður að Brautarhyl til veiða, Kaj þá rúinn heilsu. Þar sem við Eiríkur erum að draga á okkur vöðlur, vesti og allt sem til þarf, þræddi Eiríkur vænan maðk á fyrir pabba sinn, sem Kaj svo læddist með út í hyl. Í því sem við erum að velja okkur flugur kallar Kaj: „Hann er á!“ Hvílík gleði og ánægja að fá að verða vitni að hans hinsta laxi.

Ég, Lísa mín, börnin mín fimm, tengdabörn, auk fjögurra barnabarna, þökkum samfylgdina og það að fá að njóta ótal samverustunda.

Hvíl í friði.

mbl.is/minningar

Björn Ágúst Björnsson.

HINSTA KVEÐJA
Elsku afi, ég á eftir að sakna þín mikið. Þú varst alltaf glaður, góður og mikill húmoristi. Alltaf leistu á björtu hliðarnar og komst í gegnum öll veikindin um ævina. Það var alltaf gaman að fara með þér og ömmu í Dalhús. Þú varst heimsins besti afi. Takk fyrir allar góðu minningarnar sem þú skilur eftir. Ég ætla að geyma þær vel. Þú varst og munt ávallt verða hetjan mín.
Er sárasta sorg okkur mætir
og söknuður huga vorn grætir
þá líður sem leiftur úr skýjum
ljósgeisli af minningum hlýjum.
(H.J.H.)

Irma Gunnarsdóttir.