Hörður Zóphaníasson, fyrrverandi skólastjóri Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, andaðist á Sólvangi 13. maí 2015 á 85. aldursári. Hann fæddist á Akureyri 25. apríl 1931. Foreldrar hans voru Sigrún J.

Hörður Zóphaníasson, fyrrverandi skólastjóri Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, andaðist á Sólvangi 13. maí 2015 á 85. aldursári.

Hann fæddist á Akureyri 25. apríl 1931. Foreldrar hans voru Sigrún J. Trjámannsdóttir húsfreyja og Zóphanías Benediktsson skósmiður. Stjúpfaðir Harðar var Tryggvi Stefánsson, skósmiður á Akureyri og síðar bóndi á Þrastarhóli.

Hörður lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1954 og stundaði nám við Danmarks Lærerhøjskole í Kaupmannahöfn 1968-69. Hann var kennari á Hjalteyri 1954-58, skólastjóri Barna- og unglingaskólans í Ólafsvík 1958-60, kennari við Flensborgarskólann 1960-70 (yfirkennari 1963-70) og skólastjóri Víðistaðaskóla frá stofnun 1970 til 1992. Hann stofnaði fyrsta foreldrafélagið við skóla í Hafnarfirði.

Hörður var bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði 1966-74 og 1978-86. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, sat m.a. í stjórn SUJ (varaformaður), miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðuflokksins og var formaður kjördæmisráðs Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi. Hörður sat m.a. í stjórn Ungmennafélags Möðruvallasóknar, UMSE, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, öldrunarmiðstöðvarinnar Hafnar (formaður), Kaupfélags Hafnfirðinga (formaður), KRON, SÍS, yfirkjörstjórnar BSRB (formaður), Sjúkrasamlags Hafnarfjarðar, Barnaverndarfélags Hafnarfjarðar (formaður) og Félags kennara á eftirlaunum.

Hörður var virkur í skátahreyfingunni alla ævi, fyrst í Skátafélagi Akureyrar, stjórnaði síðan skátafélögum í Kennaraskólanum, á Hjalteyri og í Ólafsvík og var í mörg ár félagsforingi Hraunbúa í Hafnarfirði. Hann var lengi í forystu St. Georgsgilda á Íslandi, m.a. landsgildismeistari, og heiðursfélagi Hraunbúa og St. Georgsgildisins í Hafnarfirði.

Eftir Hörð liggja tvær ljóðabækur, Vísnagaman og vinamál (1996) og Hugsað í hendingum (2011). Skátakórinn, Lítið eitt, Rúdolf, Randver o.fl. hafa flutt texta hans á hljómplötum. Hörður samdi námsefni fyrir grunnskóla: reikningsbækur (með öðrum, 1972-76, 1993) og Hafnarfjörður – bærinn minn I-III (með kennsluleiðbeiningum, 1993-97). Meðal annarra ritverka hans eru Árdagar, saga SUJ í 35 ár (1966), Verkamannafélagið Hlíf 100 ára (ásamt Ólafi Þ. Kristjánssyni, 2007), Dýrmæt ár: fjörutíu ára saga Félags eldri borgara í Hafnarfirði (2008) og Sveinar kátir syngið! – 100 ára saga Þrasta (2012). Hörður var einnig í ritstjórn ýmissa blaða og tímarita og samdi og þýddi fjölmargar greinar.

Hörður kvæntist Ásthildi Ólafsdóttur (f. 1933) hinn 26. desember 1953 og eignuðust þau sjö börn.