Skúli S. Ólafsson fæddist í Reykjavík 1968. Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1996.
Skúli S. Ólafsson fæddist í Reykjavík 1968. Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1996. Hann hefur stundað framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla og Gautaborgarháskóla og birt nokkrar fræðigreinar um íslensku kirkjuna á lærdómsöld. Skúli er prestur í Neskirkju. Hann er kvæntur Sigríði Björk Guðjónsdóttur og eiga þau þrjú börn, Ebbu Margréti (f. 1991), Ólaf Þorstein (f. 1999) og Guðjón Inga (f. 2011).

Skúli Sigurður Ólafsson hefur varið doktorsritgerð sína frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Altarisganga á Íslandi 1570-1720: Fyrirkomulag og áhrif.

Inntak ritgerðarinnar er könnun á hlutverki og þýðingu altarissakramentisins á tímabilinu frá 1570-1720. Færð eru rök fyrir því að stöðugleiki hafi einkennt það skeið. Þá var regluverk kirkjunnar komið í fastar skorður eftir siðaskipti og þau umbrot sem urðu á 18. öld ekki enn farin að hafa merkjanleg áhrif.

Sú tilgáta liggur til grundvallar að á þessum árum hafi altarisganga auk meðfylgjandi leynilegrar og opinberrar aflausnar haft þrenns konar tilgang. Hún var helsta verkfæri yfirvalda til að halda uppi aga í samfélaginu, en um leið hluti af eftirliti alþýðu manna með prestum, próföstum og biskupum. Þá var sálarheill leikra sem lærðra háð því að vel tækist til við úthlutun sakramentisins og að engir stæðu utan þess. Loks skilgreindi altarisgangan félagslega stöðu fólks. Hver þessara þriggja þátta er til umfjöllunar í hverjum kafla verksins. Fyrst er þó fjallað um guðfræðilegar og sögulegar rætur altarisgöngunnar á tímabilinu. Gerð er grein fyrir því hvernig embætti kirkjunnar störfuðu með hliðsjón af því hvernig kirkjuaganum var beitt. Rætt er um athafnirnar og þá í ljósi hins trúarlega hlutverks. Loks er kafli helgaður félagslegum áhrifum altarisgöngunnar og því hvernig hún mótaði einstaklinga og samfélag.

Íslenskar aðstæður eru í miðju rannsóknarinnar en gripið er til samanburðar við norræn lönd og önnur lönd í Evrópu eftir því sem þurfa þykir. Einkum er stuðst við prestastefnudóma úr báðum biskupsdæmum, sem reyndust geyma ríkulegar heimildir um hegðan fólks og viðhorf til altarisgöngunnar. Annars vegar er rætt um guðfræðilegar og lagalegar forsendur altarisgöngunnar, með sérstakri áherslu á breytingar við siðaskipti um miðja 16. öld. Hins vegar eru einstök dómsmál tekin til nákvæmrar greiningar.