Björgun Fjórir skipverjar á Gottlieb óðu upp í fjöruna við Hópsnes.
Björgun Fjórir skipverjar á Gottlieb óðu upp í fjöruna við Hópsnes. — Ljósmynd/Haraldur Björn Björnsson
Benedikt Bóas benedikt@mbl.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

„Skipverjar ná ekkert að gera, koma engu í gang og það er trúlega óþægilegt að vita ekki hvar maður lendir,“ segir Bergur Þór Eggertsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Nesfisks, útgerðarfélags Gottlieb 2622 sem strandaði við Hópsnes á Reykjanesi á miðvikudag.

Vélarbilun varð um borð í bátnum og vindurinn, sem var töluverður, lét bátinn reka hratt að klettunum við Hópsnes.

„Þetta gerist mjög snöggt,“ segir Bergur en skipverjar urðu eðlilega skelkaðir og voru ekki í neinu ástandi til að veita viðtal um atburðinn.

Fjórir voru um borð og komust skipverjar allir í flotgalla. Eftir að báturinn steytti á skeri komust skipverjar af sjálfsdáðum frá borði og óðu upp í fjöru. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom skömmu síðar og ferjaði mennina til Grindavíkur.

Skipverjar á bátnum Gulltoppi brugðust við neyðarkalli frá Gottlieb og voru komnir að honum um 10 mínútum síðar. Þeir reyndu að koma taug í bátinn sem var heldur of stutt og grönn og slitnaði hún. Rak því bátinn hratt að klettunum.

Bergur segir að báturinn standi nú í klettunum en gerð verði tilraun í dag til að ná í hann á stórri beltagröfu.

„Það verður gerð tilraun ef leyfi fæst frá Umhverfisstofnun, þeir ráða hvort það megi fara með beltagröfu þangað niður eftir og taka bátinn. Þeir tóku sér frí á uppstigningardag og það gerum við líka.“