[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður fæddist á Húsavík 15.5. 1965 og ólst þar upp. Hún lauk stúdentsprófi frá MA 1985, lauk skipstjórnarréttindum á 30 tonna skip, stundaði fjarnám við KHÍ 1994-96 og 1998-99 og lauk MBA-prófi frá HÍ 2007.

Sigríður fæddist á Húsavík 15.5. 1965 og ólst þar upp. Hún lauk stúdentsprófi frá MA 1985, lauk skipstjórnarréttindum á 30 tonna skip, stundaði fjarnám við KHÍ 1994-96 og 1998-99 og lauk MBA-prófi frá HÍ 2007.

Sigríður var sjómaður með námi, var starfsmaður Hafrannsóknastofnunar 1985-86 og starfaði í gestamóttöku Hótels Sögu 1985-90.

Sigríður var kennari við Grunnskóla Siglufjarðar 1990-99, formaður Kennarafélags Siglufjarðar 1991-96, starfaði við umboðs- og verslunarfyrirtæki sitt og var fréttaritari Morgunblaðsins 1992-99 og kynningarfulltrúi OLÍS 1999-2001.

Sigríður sat í bæjarstjórn Siglufjarðar 1998-2000, var alþingismaður Norðurlandskjördæmis vestra fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2001-2003 og sat í landbúnaðarnefnd Alþingis, menntamálanefnd og samgöngunefnd.

Sigríður hefur starfað hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands frá 2003 og er framkvæmdastjóri hennar. Hún hefur átt sæti í fjölda stjórna og nefnda, var t.d. stjórnarformaður Átaks til atvinnusköpunar í fjögur ár, sat í stjórn Skotvís, situr í stjórn Golfklúbbs Þorlákshafnar og er skipuð af ríkisstjórninni sem formaður verkefnisstjórnar Verknaust.

Veiðimaður í húð og hár

Sigríður er lífsglaður Þingeyingur, ánægð með sig og sína, fer sínar eigin leiðir og er alltaf á fullu: „Ég er í blaki með Fylki, stunda skíði, golf, skotveiðar, sjóstangveiði, göngur – finnst gaman að tilraunum í eldhúsinu og að bjóða gestum í mat. Þó er skemmtilegast að matreiða eitthvað sem við hjónin höfum sjálf veitt.

Ég elska ferðalög og við hjónin eigum tvo griðastaði þar sem gott er að hlaða batteríin: Á Siglufirði höfum við gert upp Efsta-Kamb, gamalt hús í hjarta bæjarins, og hinn staðurinn er paradísareyjan Flatey á Skjálfanda þar sem fjölskyldan hefur gert upp bæinn Grund þar sem faðir minn ólst upp.

Umfram allt vil ég njóta lífsins til fulls. Lífið er of stutt fyrir lélegt rauðvín.“

Fjölskylda

Eiginmaður Sigríðar er Daníel Gunnarsson, f. 7.6. 1955, lyfjafræðingur og markaðstengill hjá Vistor. Foreldrar hans: Anna Daníelsdóttir, f. 1.8. 1931, d. 3.6. 1999, húsfreyja, og Gunnar Júlíusson, f. 30.3. 1928, d. 17.1. 2008, vélstjóri á Akranesi.

Fyrri maður Sigríðar er Hermann Einarsson, f. 10.3. 1963, sölumaður. Foreldrar hans: Einar Hermannsson og Margrét Jónasdóttir.

Dætur Sigríðar og Hermanns eru Marta Björg Hermannsdóttir, f. 4.9. 1988, sölu- og markaðsfulltrúi hjá Kilroy en sambýlismaður hennar er Almar Barja verkefnastjóri hjá HR, og Halldóra Hermannsdóttir, f. 22.1. 1996, nemi í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Stjúpbörn Sigríðar eru Anna Daníelsdóttir, f. 1980, læknir í Danmörku en maður hennar er Are Brand hönnuður; Helgi Valur Daníelsson, f. 1981, atvinnumaður í knattspyrnu í Danmörku en kona hans er Emma Jane Danielsson; Tinna Daníelsdóttir, f. 1986, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum en maður hennar er Andrés Andrésson verkfræðingur; Gunnar Egill Daníelsson, f. 1987, skrifstofumaður hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands, en sambýliskona hans er Margrét Erla Guðnadóttir flugfreyja.

Barnabörnin eru sjö stelpur á aldrinum tveggja til sjö ára: Lilja Rós, Nína Sól og Vala Nótt Helgadætur, María Björk og Alva Sóley Aredætur, og Anna Bryndís og Ásta Kristín Andrésardætur

Systir Sigríðar er Jóhanna Ingvarsdóttir, f. 26.6. 1961, blaðamaður.

Foreldrar Sigríðar: Ingvar Hólmgeirsson, f. 15.6. 1936, fyrrv. útgerðarmaður og skipstjóri á Húsavík og stjórnarmaður LÍÚ og Síldarútvegsnefndar til margra ára, og k.h., Björg Gunnarsdóttir, f. 11.1. 1939, d. 13.7. 1999, verkakona og húsfreyja.

Sambýliskona Ingvars er Særún Sigurgeirsdóttir, f. 14.5. 1947, fyrrv. starfsmaður Skattstofunnar á Reykjanesi og Blindrafélagsins.