Skoraði Harpa Þorsteinsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar gegn nýliðum KR á Samsungvellinum í Garðabæ í gær og reynir hér að fara framhjá Oktavíu Jóhannsdóttur í vörn KR.
Skoraði Harpa Þorsteinsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar gegn nýliðum KR á Samsungvellinum í Garðabæ í gær og reynir hér að fara framhjá Oktavíu Jóhannsdóttur í vörn KR. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Hjörvar Ólafsson Einar Sigtryggsson Víðir Sigurðsson Íslandsmót kvenna í knattspyrnu hófst í gær með heilli umferð þar sem fjórir leikir fóru fram á höfuðborgarsvæðinu og sá fimmti í Boganum á Akureyri.

Fótbolti

Hjörvar Ólafsson

Einar Sigtryggsson

Víðir Sigurðsson

Íslandsmót kvenna í knattspyrnu hófst í gær með heilli umferð þar sem fjórir leikir fóru fram á höfuðborgarsvæðinu og sá fimmti í Boganum á Akureyri. Breiðablik og Stjarnan, sem spáð er tveimur efstu sætunum, unnu sína leiki gegn nýliðum Þróttar og KR en þurftu að hafa mismikið fyrir þeim sigrum.

Fylkir vann Selfoss í Árbænum í viðureign tveggja liða sem talið er að geti gert það gott í sumar. Lokatölur í leiknum urðu 2:0 fyrir Fylki. Það voru Hulda Hrund Arnarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem skoruðu mörk Fylkis í leiknum.

Jörundur Áki Sveinsson og Þóra Björg Helgadóttir stýrðu Fylki í fyrsta skipti á Íslandsmóti í gær. Upplegg þjálfarateymis Fylkis gekk fullkomlega upp í leiknum í gær. Fylkisliðið var þétt til baka og beitti síðan hættulegum skyndisóknum þegar færi gafst. Selma Sól Magnúsdóttir var eins og kóngur í ríki sínu á miðju Fylkis og Hulda Hrund Arnarsdóttir og Ruth Þórðar voru skeinuhættar í sóknarleik Fylkis.

Þá skiptir miklu máli fyrir Fylki að fá reynsluboltann Ólínu Guðbjörgu Viðarsdóttir inn í varnarleik liðsins, en hún átti afar góðan leik í bakverðinum.

Selfoss var meira með boltann í leiknum í gær, en náði hins vegar ekki að skapa sér nógu mörg hættuleg færi í leiknum. Snöggir sóknarmenn Selfoss náðu ekki að komast aftur fyrir þétta vörn Fylkis og margar sóknir Selfoss fjöruðu út þegar komið var á efsta þriðjung vallarins. Selfoss hefði þó hæglega getað náð stigi í leiknum í gær, en liðið fékk nokkur færi til þess að jafna metin í stöðunni 1:0.

Selfyssingar eru líklega svekktir með að fá ekkert út úr leiknum í gær, en liðið er þó til alls líklegt í sumar. Selfoss þarf hins vegar að skerpa örlítið betur á sóknarleik liðsins sem hefði mátt vera beittari. Þá hefði markvörður liðsins, Chante Sandiford, getað gert betur í fyrra marki Fylkis í gær, en hún átti annars ágætis leik í marki Selfoss.

Bæði Fylki og Selfoss er spáð góðu gengi í sumar af sparkspekingum landsins og stóðu liðin algerlega undir væntingum í leiknum í gær sem var fínasta skemmtun.

Rautt spjald á Akureyri sem þjálfarar ÍBV misstu af

Þór/KA og ÍBV mættust í hörkuleik á Akureyri sem endaði með 1:1 jafntefli.

Þór/KA var sterkara liðið í fyrri hálfleik og fór leikurinn að mestu fram á vallarhelmingi ÍBV. Eyjaliðið átti inn á milli góðar sóknir sem hefðu getað skilað marki. Sama var upp á teningnum í síðari hálfleiknum og fljótlega skoraði Sarah Miller sitt fyrsta mark fyrir Þór/KA. Skömmu síðar misstu Akureyringar Ágústu Kristinsdóttur af velli með rautt spjald.

Við það þurfti að endurskipuleggja varnarleikinn og fljótlega jafnaði Shaneka Gordon leikinn. Þjálfarateymi ÍBV virtist ekki hafa tekið eftir brottreksti Ágústu og var því ekki blásið til sóknar. Engar taktískar breytingar voru gerðar og má segja að þar hafi Eyjamenn klúðrað sínum tækifærum. Taflið snerist að vísu við, ÍBV sótti meira en Þór/KA átti rispur upp völlinn þess á milli. Í lokin var sæst á jafna skiptingu stiga og verður það að teljast sanngjarnt.

Nokkrir nýir leikmenn voru að spila sinn fyrsta leik í deildinni. Í liði Þórs/KA var Sarah Miller baneitruð á vængjunum og Klara Lindberg mjög dugleg í fremstu línu. Besti maður liðsins var þó Lillý Rut Hlynsdóttir sem spilaði sem miðvörður. Þar er ógurlegt efni á ferðinni og á hún ekki langt að sækja hæfileikana. Oft er minnst á föður hennar í því sambandi en móðirin, Inga Huld Pálsdóttir, var á svipuðu kaliberi.

Í liði ÍBV var Cloe Lacasse að spila fyrsta leik sinn og var hún allt í öllu á miðjunni. Kristín Erna Sigurlásdóttir og Shaneka Gordon voru svo alltaf líklegar til að valda usla en þær einmitt sáu um að jafna leikinn.

Stjarnan í vandræðum með KR

Íslandsmeistarar Stjörnunnar lentu í miklu basli með nýliða KR á Samsungvellinum í Garðabæ en náðu að knýja fram sigur, 1:0.

Eftir markalausan fyrri hálfleik var mikið líf í tuskunum framan af þeim síðari. Sigríður María Sigurðardóttir fékk sannkallað dauðafæri til að koma KR yfir þegar hún lék á Söndru Sigurðardóttur markvörð en skaut í stöng fyrir opnu marki.

Stjarnan svaraði með tveimur dauðafærum og skoraði svo sigurmarkið á 62. mínútu. Það gerði Harpa Þorsteinsdóttir, markadrottning tveggja síðustu Íslandsmóta, eftir laglega sókn og sendingu frá Rúnu Sif Stefánsdóttur.

Stórsigur Breiðabliks

Breiðablik vann stórsigur á nýliðum Þróttar á Kópavogsvellinum, 5:0, en þrjú markanna komu þó ekki fyrr en á lokamínútum leiksins.

Telma Hjaltalín Þrastardóttir skoraði tvö fyrstu mörkin og undir lokin skoraði Fanndís Friðriksdóttir tvö mörk og Rakel Hönnudóttir eitt. Annað marka Fanndísar kom með glæsilegu skoti utan vítateigs.

Elín með tvö fyrir Val

Elín Metta Jensen skoraði tvö fyrstu mörk Vals í 3:0 sigri á Aftureldingu á Vodafonevellinum að Hlíðarenda. Vesna Elísa Smiljkovic, landsliðsfyrirliði Serbíu sem er auk þess komin með íslenskt ríkisfang, innsiglaði sigurinn í sínum fyrsta deildaleik með Val en hún hefur leikið með ÍBV síðustu árin.

*Á mbl.is/sport eru viðtöl við leikmenn og þjálfara úr leikjum Fylkis við Selfoss og Þórs/KA við ÍBV.