Sem betur fer njótum við mörg þeirrar gæfu að eiga foreldri...

Í fjarska sé ég tvær ungar konur ganga eftir gangstéttinni. Hlátrasköllin glymja í hverfinu, gleðin er greinilega við völd. Önnur tekur sem snöggvast utan um hina, það er blik í augunum.

Á milli kvennanna valhoppar lítill, kátur snáði. Hann lítur kankvís upp, lætur örfá orð falla og skellir því næst upp úr. Fljótlega laumar hann lítilli hendi í lófa móður sinnar. Og hinnar móður sinnar. Þau eru fjölskylda.

Síðustu vikur hefur fjölmörgum orðum verið grýtt af öllu afli á samfélagsmiðlum og í dimmum skúmaskotum bloggheimsins. Það er skemmst frá því að segja að sum þeirra eru ekki falleg, eiginlega eru þau bara misljót. Þau sem láta orðin falla skýla sér sum á bak við tölvuna, önnur eru óhrædd við að segja það sem þeim dettur í hug hverju sinni.

Ef sum þeirra sem hömruðu á lyklaborðið fengju að ráða væri myndin hér að ofan ekki til á þessari jörð. Ekki einu sinni í fjarlægum sólkerfum. Drengurinn myndi aldrei hoppa og skoppa á milli mæðra sinna, konurnar myndu ekki ganga saman í gegnum lífið.

Þessi fjölskylda myndi ekki njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Þrjú, saman.

Staðreyndin er sú að enn í dag finnst sumum fjarri lagi að tveir karlmenn eða tvær konur geti elskað hvor annan eða hvor aðra og átt í ástarsambandi. Vogi þau sér að eiga barn eða börn saman er voðinn vís. Þetta sama fólk hefur gríðarlegar áhyggjur af því að vesalings börnunum sé boðið upp á þessar skelfilegu aðstæður og fær magasár um aldur fram af áhyggjum og stöðugu lyklaborðshamri á bloggsíðum frameftir nóttu.

Víða í heiminum eru börn sem njóta ekki ástar og kærleika, börn sem búa við mikinn harmleik, börn sem eiga ekki foreldra eða eru skelfilega vanrækt.

Sem betur fer njótum við mörg þeirrar gæfu að eiga foreldri; eitt, tvö, þrjú eða jafnvel fleiri, og aðra sem vilja okkur vel.

Orð þeirra sem vilja draga úr ást og gleði, þeirra sem segja að eitt fjölskylduform sé betra en annað og þeirra sem finnst að drengurinn hér að ofan ætti ekki að fá að valhoppa glaður á milli foreldra sinna eru mér hulin ráðgáta.

Af hverju ættum við að hafa eitthvað á móti því að þau sem vilja elska fái að gera það, saman?

Öll höfum við þörf fyrir ást, umhyggju og góðan skammt af gleði. Fögnum því frekar að fólk vilji ganga saman í gegnum lífið, elska hvort annað og njóta lífsins, saman.

Lára Halla Sigurðardóttir larahalla@mbl.is