Afmælisbarn Guðmundur Indriðason heldur upp á 100 ára afmælið sitt í dag með fjölskyldu sinni. Hann hefur komið víða við á langri æfi.
Afmælisbarn Guðmundur Indriðason heldur upp á 100 ára afmælið sitt í dag með fjölskyldu sinni. Hann hefur komið víða við á langri æfi. — sfdsdf
Guðmundur Indriðason fagnar 100 ára afmæli sínu í dag. Hann er jákvæður í samtali við Morgunblaðið og kveðst vera við góða heilsu þrátt fyrir háan aldur. Guðmundur fæddist í Ásatúni í Hrunamannahreppi en hann var áttunda barnið af ellefu systkinum.

Guðmundur Indriðason fagnar 100 ára afmæli sínu í dag. Hann er jákvæður í samtali við Morgunblaðið og kveðst vera við góða heilsu þrátt fyrir háan aldur.

Guðmundur fæddist í Ásatúni í Hrunamannahreppi en hann var áttunda barnið af ellefu systkinum. Guðmundur ólst upp við fátækt, hann missti föður sinn ungur svo móðir hans var eina fyrirvinna heimilisins þó eldri börnin hafi verið dugleg að aðstoða heima við.

Á árinu 1950 giftist hann Jónínu Sigríði Jónsdóttur. Fyrst bjuggu hjónin á Laugarvatni, síðan í Lindabrekku í Biskupstungum þar sem þau bjuggu lengst af en nú á dvalarheimilinu Lundi á Hellu. Hjónin eiga fjögur börn, Indriða, Jón Pétur, Katrínu Gróu og Grím.

Í tíu ár starfaði Guðmundur á Laugarvatni við bústörf og jarðvinnslu. Hann var einn af fyrstu jarðýtumönnunum hérlendis. Um haustið 1951 stofnaði hann nýbýlið Lindabrekku í Laugarási. Guðmundur lærði smíðar í kringum árið 1973. Hann vann við smíðar í mörg ár, meðal annars við allar byggingar í Skálholti, kirkjuna, biskupshúsið, prestshúsið, sumarbúðirnar og skólann. Þegar Guðmundur náði 95 ára aldri bauð hann sveitungum sínum í afmæli og fékk þá afhent heiðursmerki Skálholts, en hann var sæmdur merkinu árið 1964. Guðmundur var einnig garðyrkjubóndi en árið 1976 byggði hann gróðurhús sem hann vann svo í fram að 80 ára aldri.

Aðstandendur Guðmundar lýsa honum sem jákvæðum, hressum og hógværum manni. Helstu áhugamál Guðmundar hafa verið hestar og ferðalög en Guðmundur reið til að mynda yfir Sprengisand með bróður sínum, Jóni Helga Indriðasyni, og ferðaðist mikið um landið. Hann er sagður mjög félagslyndur og sagnfróður. brynjadogg@mbl.is