Þórunn Kjartansdóttir fæddist í Reykjavík 21. nóvember 1921. Hún lést á Landspítalnum 7. maí 2015.

Foreldrar hennar voru Áslaug Fjóla Sigurðardóttir, f. 14. júní 1901, d. 1979, og Kjartan Konráðsson, f. 16. september 1887, d. 1953 (skildu). Systur Þórunnar: Brynhildur, f. 1920, Birna, f. 1923, þær eru báðar látnar. Hálfsystkini sammæðra: Sólveig, f. 1938, og Ágúst, f. og d. 1934. Hálfsystkini samfeðra: Þórir, f. 1909, látinn, og Aðalheiður, f. 1917.

Hinn 14. maí 1942 giftist Þórunn Lárusi Blöndal Guðmundssyni bóksala, f. 11. mars 1914, d. 25. júní 2004. Foreldrar hans voru Ragnheiður Lárusdóttir Blöndal, f. 1876, d. 1957, og Guðmundur Guðmundsson, f. 1876, d. 1967.

Börn Þórunnar og Lárusar: 1) Steinn, f. 23. september 1942, eiginkona Hrafnhildur Sigurbergsdóttir, f. 27. maí 1942. Börn þeirra: a) Kjartan, kvæntur Magndísi Maríu Sigurðardóttur, þau eiga tvö börn, b) Sigurbergur, kvæntur Hönnu Maríu Jónsdóttur og eiga þau tvær dætur, c) Hrönn Sigríður, gift Jóni Vilberg Magnússyni og eiga þau þrjú börn. 2) Guðmundur, f. 20. júní 1945, eiginkona Birna Smith, f. 5. júní 1949, börn þeirra a) Þórunn Birna, b) Guðmundur Tjörvi, kvæntur Olgu Priadka, hann á einn son, c) Guðbjörg Hlín, í sambúð með Eiríki Orra Ólafssyni og eiga þau eina dóttur. 3) Kjartan, f. 20. júní 1945, eiginkona Ruth Anna Karlsdóttir, f. 30. desember 1950, börn þeirra a) Þór, í sambúð með Rannveigu Guðmundsdóttur og eiga þau tvö börn, b) Ragnheiður Sylvía, í sambúð með Guðna Rúnari Jónassyni. 4) Ragnheiður, f. 4. apríl 1949, eiginmaður Sigurður H. Dagsson, f. 27. september 1944, synir þeirra a) Lárus, kvæntur Hebu Brandsdóttur, þau eiga fjögur börn, b) Dagur, kvæntur Ingibjörgu Pálmadóttur, þau eiga þrjú börn, c) Bjarki, í sambúð með Kolbrúnu Franklín, þau eiga tvo syni. 5) Kristín, f. 15. apríl 1958, eiginmaður Guðjón Borgar Hilmarsson, f. 8. nóvember 1956, börn þeirra a) Hilmar, hann á eina dóttur, b) Lárus, c) Þórunn, gift Gunnari Ragnarssyni.

Þórunn var alin upp hjá móðurforeldrum sínum í Reykjavík. Þau voru Kristín Svanhildur Pétursdóttir Njarðvík, f. 1875, d. 1966, og Sigurður Þórðarson Njarðvík, f. 1870, d. 1953.

Fyrir búskap vann Þórunn lengst af í Sundhöll Reykjavíkur. Eftir að börnin fóru að fæðast var hún heimavinnadi húsmóðir. Þórunn var heilsuhraust þrátt fyrir háan aldur og fylgdist mjög vel með öllum barnabörnum (14) og barnabarnabörnum (21). Þau hjónin hófu búskap á Vífilsgötu, en fluttu í eigið húsnæði í Barmahlíð 30 árið 1945 og bjuggu þar til 1990 er þau fluttu á Aflagranda 40. Lárus og Þórunn reistu sér sumarhúsið Grund í Mosfellsveit 1949 og bjuggu þar síðan öll sumur og ræktuðu jörðina í frístundum sínum. Lárus varð bráðkvaddur í sínum uppáhaldsreit í sumarbústaðnum.

Úför Þórunnar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 15. maí 2015, og hefst athöfnin kl. 15.

Í dag kveðjum við kæra tengdamóður okkar. Lífshlaup Þórunnar var bæði fallegt og farsælt. Jákvæðni var eitt af hennar aðalsmerkjum og húmorinn aldrei langt undan. Hún hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og sagði sína meiningu umbúðalaust. Þórunn var mikill fagurkeri, allt fallegt gladdi hana, hvort sem það voru blóm, náttúran, falleg hönnun, eða bara kóngafólkið, að ógleymdum flottum fötum sem hún hafði unun af að kaupa sér allt fram á síðasta dag. Hún var alltaf glæsileg og smekklega til fara, hvort sem var á laugardagsmorgni eða í einhverju samkvæminu.

Þórunn og Lárus tengdafaðir okkar voru órjúfanleg heild, samheldin og ástfangin ævina á enda, hann var alltaf skotinn í sinni. Sumarbústaðurinn í Mosfellssveit átti stóran þátt í lífi þeirra. Samverustundirnar uppi í sumó geyma dýrmætar minningar, sem ylja afkomendum þeirra um ókomin ár. Matarboðin og kaffiboðin, alltaf veisluborð fyrir allan hópinn.

Eftir að heilsunni tók að hraka síðustu árin, þá bar hún sig ótrúlega vel, kvartaði aldrei. „Ég hef það fínt, ekkert að mér“, voru setningar til þess að svara óþarfa spurningum að hennar mati.

Börnum okkar og barnabörnum var hún afar kær og góð fyrirmynd og gaf þeim gott veganesti. Fyrir það erum við tengdabörnin þakklát. Hún var stolt af hópnum sínum. Takk fyrir allt sem þú varst okkur, blessuð sé minning þín.

Þín tengdabörn:

Hrafnhildur, Sigurður,

Birna, Anna, Guðjón.

„Ég er samt einhvern veginn ekki búinn að átta mig á að hún sé raunverulega farin. Mér fannst hún bara svo ósigrandi“, sagði Bjarki bróðir við mig, þegar við vorum að spjalla um ömmu, um helgina. Einmitt, rétt, hugsaði ég. Mér leið alveg eins. Hún ætti að vera ósigrandi. Amma var einstök kona. Það er kannski klisja að segja það í minningargrein um ömmu sína, en þessi kona var í alvörunni algerlega einstök.

Ég hef sagt það margoft í gegnum tíðina hvað amma Tóta og afi Lárus eru miklar fyrirmyndir fyrir mig og mína nánustu. Ég hef margoft bent börnunum mínum á hversu mikilvægt það er að hafa rétt viðhorf til lífsins. Ég hef alltaf tekið langömmu þeirra sem dæmi. Svona á að gera þetta, eins og amma Tóta gerir þetta. „Já, það er rétt hjá þér, pabbi, hún langamma er alltaf svo hress,“ sagði dóttir mín við mig um daginn.

Lífshlaup ömmu og afa og þeirra lífsviðhorf var svo einstakt. Þau voru afar samrýmd og frábært að hafa haft tækifæri til að kynnast þeim svona vel. Og hún amma, klettur fjölskyldunnar, var alltaf brosandi. Ég dáist að henni og hef alltaf gert. Hún hafði einhverja ólýsanlega góða áru í kringum sig, sem smitaðist til þeirra sem í nánd hennar voru. Hlýja, kærleikur, góðmennska og léttleiki. Algerlega stórkostlegir mannkostir. Þau afi voru náttúrlega einstök hjón. En þegar afi dó, þá sýndi amma hversu mikill karakter hún er. Hún hélt áfram ótrauð í léttleikanum, jafnvel þó að hún hafi alltaf saknað afa. Nú eru þau sameinuð á ný, afi Lárus og amma Tóta. Þar verður mikið hlegið. Grjónó í hádeginu og hugsanlega hvítt seinnipartinn. Þvílíkir snillingar.

Það verður skrýtið að geta ekki kíkt inn á Aflagranda í kaffi hjá ömmu. Það verður skrýtið að hitta hana ekki framar og geta ekki fengið að hlæja með henni. Mjög skrýtið. Mikið mun ég sakna þín, amma mín.

Það eru forréttindi að geta kallað Þórunni Kjartansdóttur ömmu sína. Dýrkuð og dáð af barnabörnum og barnabarnabörnum. Amma mun alltaf eiga stað í hjarta mínu og okkar bræðra og okkar fjölskyldna, og hún verður alltaf með okkur. Hún er ekki farin neitt, enda ósigrandi.

Lárus Blöndal Sigurðsson.

Það eru ákveðin tímamót sem verða þegar einhver nákominn manni fer yfir móðuna miklu. Í þessu tilviki þá er það manneskja sem hefur fylgt mér í gegnum lífið, hönd í hönd hefur hún leitt mig áfram á sinn ákveðna en fallega máta og kennt mér svo margt á leiðinni.

Amma var alltaf svo hláturmild og stutt í grínið og alltaf gaman að hafa hana í kringum sig. Í mínum augum var hún hin fullkomna amma, hún bauð mann velkominn, tók vel á móti öllum sem áttu leið hjá, bakaði listagóðar kökur og alltaf með bros á vör. En amma var hluti af órjúfanlegri heild sem voru hún og afi. Saman gerðu þau heim fyrir okkur barnabörnin sem var töfrum líkastur. Það var sama hvort við vorum uppi í sumó í ævintýraleit, í bókabúðinni, Barmahlíðinni eða á Aflagrandanum, alltaf var nóg við að vera og umhyggjan einlæg.

Eitt skiptið, sem svo oft áður, fékk ég að vera hjá þeim á meðan foreldrar mínir fóru til útlanda og labbaði amma alltaf með mér yfir í Ísaksskóla úr Barmahlíðinni. Það var haust og er mér svo minnisstætt hvað hún hélt fallega í höndina á mér og sagði mér frá hinu og þessu úr sínu lífi á leiðinni. Það eru einmitt þessar stundir sem að gefa lífinu gildi, grjónagrautur á laugardögum, spilastundir, einlægi hláturinn aðallri vitleysunni í okkur krökkunum og allt þar á milli.

Afi sagði oft við mig að hann væri nú alltaf svolítið skotinn í mér þar sem ég væri nú svo lík henni ömmu minni með þetta svarta hár og blikandi brúnu augun, og ég hef alltaf trúað því að við séum bara með aðeins blárra blóð en hinir í fjölskyldunni.

Þrátt fyrir sorg og trega þegar ástvinir falla frá þá get ég ekki annað en verið óendanlega þakklát fyrir allar minningarnar sem ég geymi í hjarta mínu og get deilt með mínum afkomendum í framtíðinni. Takk fyrir viskuna og allar stundirnar sem við áttum saman, elsku besta amma.

Þín

Ragnheiður Sylvía.

Það verður fátæklegra að bregða sér í Vesturbæinn nú þegar Tóta frænka er horfin, farin í ferðina sem við öll förum í, en hún lést í liðinni viku, háöldruð orðin.

Þó að árunum fjölgaði jafnt og þétt hjá móðursystur minni var alltaf jafngott að heimsækja hana, drekka kaffibolla með henni og hlusta á hana segja sögur frá liðinni tíð, gjarnan með smákökum eða jafnvel sandkökusneið, en sandkakan hennar Tótu var víðfræg hjá ættingjum og vinum. Svo bjó hún til heimsins bestu kindakæfu sem títt rataði inn á heimili mitt „i den“ enda frænka mín gjöful kona og örlát og vildi að aðrir nytu þess góða sem hún gat í té látið.

Þær voru miklir mátar, móðir mín og Tóta, og ég tel að ekki sé ofsögum sagt að Þórunn hafi heimsótt mömmu á hverjum einasta degi, sérstaklega eftir að mamma veiktist og gat lítið farið úr húsi, slík var væntumþykjan og tillitsemin, til systur sinnar, hvort hana vantaði eitthvað og hvort hún gæti gert eitthvað fyrir hana. Fyrir þetta er ég frænku minni ákaflega þakklátur.

Þórunn fór fljótt í fóstur til afa síns og ömmu, þeirra Kristínar Svanhildar Pétursdóttur Njarðvík og Sigurðar Þórðarsonar Njarðvík sem bjuggu að Grund í Laugardal í Reykjavík, í næsta nágrenni gömlu þvottalauganna. Þar ólst hún upp, og ekki var slæmt að hafa slíkan leikvöll sem Laugardalurinn var.

Þórunn giftist Lárusi Blöndal Guðmundssyni bóksala 1942. Þau voru ákaflega samhent hjón, eignuðust fimm mannvænleg börn, sem öll hafa orðið góðir þjóðfélagsþegnar og afkomendurnir eru orðnir fjölmargir. Um 1950 reistu þau sér sumarhús, rétt þar sem dælustöð Hitaveitu Reykjavíkur stendur nú, og bjuggu þar öll sumur sem bæði lifðu. Í byrjun var þar raunar ekkert nema urð og grjót, bæði upp í mót og niður í mót, en það var fljótt að breytast í höndum þeirra hjóna, enda bæði tvö miklir ræktendur trjáa og blóma. Staðurinn fékk nafnið Grund, og er í dag mikill sælureitur.

Barnstrúin mín segir mér að það hafi orðið miklir fagnaðarfundir þar efra er þær hittust, og kannski horfa þær saman enn og aftur á Leiðarljós, hver veit.

Þær hvíla báðar í Fossvogskirkjugarði, við hlið manna sinna, örstutt er á milli leiða.

Haf heila þökk fyrir vináttu þína, frænka mín.

Fjölskyldu Tótu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Jakob V. Hafstein.

Á kveðjustund rifjast upp góðar minningar frá ungdómsárunum þegar heimili þeirra heiðurshjóna Þórunnar Kjartansdóttur og Lárusar Blöndal, bóksala, í Barmahlíðinni var um tíma sem mitt annað heimili. Á þeim árum var gjarnan mikið líf og fjör á heimilinu, sem oftar en ekki átti upphaf sitt í því hve vinir mínir, tvíburabræðurnir Guðmundur og Kjartan, voru líflegir og atorkumiklir. Svo mjög á stundum að frú Þórunn bað Mávahlíðinginn að fara heim á meðan hún kæmi á ró. Hún hafði sitt lag á því.

Margra ánægjulegra samverustunda er að minnast, eins og heimsókna í sælureit þeirra í Mosfellssveitinni þar sem mér fannst ríkja dönsk sveitastemning og þau ræktuðu fallegustu dalíur sem hér fundust auk annarra fagurra blóma. Einnig er góður tími tengdur bókasölunni í fersku minni. Og ekki gleymast ljúffengu súkkulaðikökurnar og annað góðgæti sem Þórunn töfraði fram án þess að því er virtist að hafa mikið fyrir því. Fyrir það allt og hinar góðu stundir er nú sérstaklega þakkað.

Með Þórunni Kjartansdóttur er gengin glæsileg og lífsglöð kona, mikil móðir og húsmóðir, sem sameinast nú Lárusi á nýjum vegum. Blessuð sé minning þeirra.

Börnum þeirra og fjölskyldum sendum við Kristín innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Gústafsson.

Ég vil minnast Tótu minnar.

Ég hef þekkt hana frá því ég fæddist.

Svo var ég svo heppin að hún og elsku Lárus frændi minn eignuðust meðal annars tvíbura jafngamla mér. Þeir hafa alla tíð verið mér mikils virði. Ég minnist sérstaklega sumranna í Mosfellssveitinni þar sem við áttum okkar bústaði. Þeir bræðurnir flögguðu alltaf á sunnudögum og þá var oft keppni á milli þeirra að vera fyrri til. Smávægilegir hlutir sem gátu fengið mann til að brosa.

Sumrin í Mosó voru yndisleg.

Ég kveð Tótu mína með eftirsjá og þakklæti.

Innilegar samúðarkveðjur til stórfjölskyldu hennar.

Helga Guðmundsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Ég vann stærsta vinninginn í happdrætti lífsins þegar ég eignaðist foreldra mína. Þau bjuggu í Barmahlíð 30. Þar réðu ríkjum Tóta og mamma, í sátt og samlyndi. Á neðri hæðinni var alltaf mikið um að vera. Börnin sem þar bjuggu og sem ég leit á sem systkini mín, voru fjörug og skemmtileg.
Ótal minningar koma upp í hugann; fallega heimilið, yndislegi sumarbústaðurinn, með örygginu, öllum trjánum og blómunum og lífsgleðinni.
Yfir öllu vakti Tóta á sinn rólega og góða hátt.
Blessuð sé minning Tótu.
Sigurborg E. Billich.