Mikið fjaðrafok varð í kringum 100. víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta. Í örstuttu máli varð mikil fjölmiðlaumræða um endasprettinn hjá körlunum þar sem Arnar Pétursson kom rétt á undan Ingvari Hjartarsyni í mark.
Mikið fjaðrafok varð í kringum 100. víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta. Í örstuttu máli varð mikil fjölmiðlaumræða um endasprettinn hjá körlunum þar sem Arnar Pétursson kom rétt á undan Ingvari Hjartarsyni í mark. Myndskeið á netinu sýndi glögglega að þeir fóru ekki sömu leið í gegnum síðustu beygjuna.

Úrslitin stóðu en ÍR sendi frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að merkingum hefði verið ábótavant. Þar af leiðandi hefði ábyrgðin legið hjá mótshöldurum en ekki hlauparanum sjálfum, Arnari í þessu tilviki.

Ástæðuna fyrir þeim deilum sem urðu vegna þessa er meðal annars að finna í skorti á skýrari reglum er varða götuhlaup. Í frjálsíþróttamóti er hlaupari dæmdur úr leik af mótshöldurum fyrir að stíga á línu eins og íslenskt afreksfólk hefur lent í. Skíðamaður er úr leik ef hann missir úr hlið og kylfingur fær frávísun úr móti ef hann skrifar undir rangt skor. Engu máli skiptir þó um óviljaverk sé að ræða. Reglurnar í hinum hefðbundnu frjálsíþróttamótum eru mun skýrari en í götuhlaupum. Mér skilst að ekki liggi til dæmis fyrir hvort hlaupari megi hlaupa yfir hringtorg ef honum sýnist svo, en á það hafi ekki reynt.

Þessi staða er bagaleg ekki síst vegna þess að hlaupum hefur vaxið fiskur um hrygg og götuhlaup eru orðin fjölmennir íþróttaviðburðir. Umgjörðin þarf því að vera í lagi. Mistök vegna merkingar og lagningar brautarinnar verða ekki tekin aftur en hins vegar er hægt að taka regluumhverfið fyrir og laga það. Unnið er að innleiðingu á reglum um framkvæmd götuhlaupa hjá Frjálsíþróttasambandi Evrópu. Er það vel.