Vínbúðin Líklega myndi ríkið græða á því að leggja niður ÁTVR.
Vínbúðin Líklega myndi ríkið græða á því að leggja niður ÁTVR. — Morgunblaðið/Júlíus
Starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) skilar ekki eiginlegum hagnaði á föstu verðlagi árið 2014. Þá eru líkur á því að afnám einkasölu ríkisins á áfengi myndi ekki leiða af sér tap heldur hagnað fyrir ríkissjóð.

Starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) skilar ekki eiginlegum hagnaði á föstu verðlagi árið 2014. Þá eru líkur á því að afnám einkasölu ríkisins á áfengi myndi ekki leiða af sér tap heldur hagnað fyrir ríkissjóð. Þetta kemur fram í skýrslu sem greiningarfyrirtækið CleverData tók saman fyrir Vinbudin.com um rekstur ÁTVR. Tilgangur skýrslunnar er að gefa skýrari mynd af rekstri ÁTVR út frá kostnaðargreiningu og yfirliti opinberra upplýsinga.

„Ljóst er af þessari skýrslu að hið opinbera niðurgreiðir í raun sölu áfengis. Mér finnst ekki að það eigi að vera hlutverk ríkisins. Það er ljóst að ÁTVR skilar að öllum líkindum engum hagnaði til ríkissjóðs, líkt og haldið hefur verið fram ranglega lengi,“ segir Rafn Steingrímsson, talsmaður Vinbudin.com.

Þá kemur fram í skýrslunni að tóbakssala ÁTVR niðurgreiðir áfengissöluna. Mikill rekstrarhagnaður er af tóbakssölu enda er tóbaki einungis dreift í heildsölu. Ástæður fyrir því að ÁTVR skilar ekki hagnaði eru hugsanlega þær að vínbúðum á landsbyggðinni hefur fjölgað verulega frá 1999 en um er að ræða 300% aukningu frá 1986. Þetta felur í sér aukinn rekstarkostnað sem sala áfengis og tóbaks stendur ekki undir. Þá hefur ársverkum fjölgað samfara fjölgun vínbúða og hafa rekstrartekjur á hvert ársverk dregist saman.

Hagnaður ekki til staðar

„Ef menn vilja ÁTVR þá mega þeir fá það, en ákvörðunin verður að vera á réttum forsendum. Það verður að vera vegna þess að þeir vilja ÁTVR, ekki vegna hagnaðar, því hann er ekki til staðar,“ segir Svandís Nína Jónsdóttir hjá CleverData. isb@mbl.is