Ógilding Hæstiréttur taldi rökstuðning fyrir umráðatökunni ekki nægjanlegan.
Ógilding Hæstiréttur taldi rökstuðning fyrir umráðatökunni ekki nægjanlegan.
Ingvar Smári Birgisson isb@mbl.

Ingvar Smári Birgisson

isb@mbl.is

Landsnet laut í lægra haldi í Hæstarétti þegar úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta þess efnis að Landsnet fengi umráð yfir eignarnumdu landi, sem reisa á Suðurnesjalínu 2 á, áður en mat á eignarnámsbótum fer fram, var felldur úr gildi. Þýðir þetta að Landsnet fær ekki umráð yfir eignarnumda landinu fyrr en bætar hafa verið greiddar út.

Ásgerður Ragnarsdóttir, lögmaður jarðeigenda, segir umráð landsins á ný í höndum landeigenda. „Þetta er ákveðin vörn fyrir jarðeigendur sem vilja ekki að framkvæmdir hefjist fyrr en stóru málin hafa verið afgreidd, aðallega gildi eignarnáms og leyfisveiting Orkustofnunar. Núna hafa landeigendur endurheimt umráðin þannig að það er ekki hægt að hefja framkvæmdir. Þótt þetta sé afmarkaður þáttur, þá sýnir þetta hversu alvarlega Hæstiréttur lítur á eignaskerðingar og hversu ríkar kröfur eru gerðar til að sýna fram á nauðsyn.“

Veldur engum sérstökum röskunum á framkvæmdum

Þórður Bogason, lögmaður Landsnets, segir dóminn ekki valda neinum sérstökum röskunum á framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2. „Hæstiréttur felldi úr gildi heimild til umráðatöku áður en mati um eignarnámsbætur er lokið en það hefur ekki reynt á þessa heimild áður. Og nú liggur fyrir að það sér fyrir endann á mati á eignarnámsbótum þannig að þessi dómur Hæstaréttar veldur engum sérstökum röskunum á áætlunum á framkvæmdum, enda er hér um að ræða mjög afmarkaðan hluta af málsmeðferð. Það má segja að þetta hafi verið varúðarráðstöfun sem ekki reyndi á í raun,“ segir Þórður.

Loftlína eða jarðstrengur

Aðalágreiningur landeigenda við Landsnet hefur staðið um hvort leggja eigi línuna í jörð eða ekki. Verði línan lögð í jörð felur hún í sér minna tjón gagnvart landeigendum, en fyrir liggur að dýrara er að leggja jarðstrengi en loftlínur. Í byrjun júní hefst aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem landeigendur reyna að fá eignarnámið fellt úr gildi, en í þeim málum verður m.a. lagt mat á hvort skoða hefði átt að leggja línuna í jörð. Þá verður einnig flutt mál í júní til að fá leyfi Orkustofnunar fellt úr gildi.

Umráðatöku hafnað

Venjulega þegar staðið er að eignarnámi fær eignarnemi hið eignarnumda þegar eignarnámsþoli hefur fengið greiddar bætur. Frá því er undantekning í 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms sem heimilar umráðatöku hins eignarnumda áður en bætur eru greiddar ef mikil nauðsyn er að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og eignarnemi hefði verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Hæstiréttur taldi rökstuðning Landsnets ekki standast lagaskilyrði og var því umráðatökunni hafnað.