Sveinn Hallgrímsson
Sveinn Hallgrímsson
Eftir Svein Hallgrímsson: "Hvers vegna má sveitarstjórn Reykhólasveitar ekki ráða vegstæði í sveitarfélaginu, en Reykjavíkurborg leggur niður flugvöll sem þjónar öllu landinu?"

Umræða um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og skipulagsvald sveitarfélaga tók kipp þegar nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins fluttu tillögu um að færa skipulagsvaldið yfir flugvallarsvæðinu til Alþingis. Ég er hér einkum að hugsa til tveggja tilvika sem verið hafa mikið í fréttum undanfarin ár.

Teigsskógsmálið

Vegasamband í Reykhólasveit er ömurlegt. Málið snertir lífæð Vestfjarða, vegasamband til vesturs og suðurhluta Vestfjarða. Auk þess er um að ræða samgöngur innan sveitarfélagsins, t.d. akstur skólabarna.

Hér er um að ræða grunnþjónustu í Reykhólasveit fyrir utan tengingu við umheiminn. Í fjölda ára hafa framkvæmdir við veg um sk. Teigsskóg tafist vegna „fordóma“ í stofnunum ríkisins og áhugaleysi viðkomandi ráðherra. Ég nota hér orðið fordóma vegna þess að skógurinn sem um ræðir er ekki merkilegt fyrirbæri sem skógur, hefur ekkert verndargildi, samanber ályktun skógræktarmanna á Vestfjörðum. Hvernig stendur á því að skipulagsvaldið í þessu máli er ekki hjá sveitarfélaginu? Það er ekki einu sinni hjá Alþingi. Það er hjá stofnun í Reykjavík! Hver færði skipulagsvaldið frá sveitarfélaginu til stofnunar í Reykjavík? Og hvers vegna?

Grímsstaðir á Fjöllum

Frægt var þegar kínverski athafnamaðurinn Núbó vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Núbó ætlaði að hefja þar framkvæmdir og koma á ýmiskonar starfsemi, ma. í ferðaþjónustu.

Núbó var meinað að kaupa Grímsstaði og hefja þar framkvæmdir, vegna þess að hann átti ekki heimilisfestu á Evrópska efnahagssvæðinu. Sveitarfélög á Norður- og Austurlandi sameinuðust um að gera eigendum Grímsstaða tilboð í jörðina. Mér skilst að samkomulag hafi náðst um kaupin. Ætlunin var að leigja athafnamanninum Núbó jörðina svo hann gæti hafið framkvæmdir við sköpun starfa á svæðinu. Hvað gerðist? Í stað þess að innanríkisráðherrann fyrrverandi (Ögmundur Jónasson) liðkaði til fyrir sveitarfélögunum á Norður- og Austurlandi var frumkvæði sveitarfélaganna stöðvað! Vinna við verkefnið kostaði sveitarfélögin fyrirhöfn og fjármagn. Skipulagsvaldið var tekið af sveitarfélögunum!

Þetta eru tvö nýleg dæmi um að stofnanir í Reykjavík hrifsi skipulagsvaldið úr höndum sveitarfélaga. Eigum við að hafa leikreglurnar svona áfram?

Skipulag miðhálendisins

Hér mætti svo nefna þriðja dæmið, miðhálendið og sk. þjóðlendur. Ég man að þegar lögin um þjóðlendur voru samþykkt höfðu þingmenn Framsóknarflokksins haft miklar efasemdir um ágæti frumvarpsins. Þeir hafi að lokun samþykkt að styðja lögin gegn því að skipulagsvaldið yrði áfram hjá sveitarfélögunum. Mér skilst að nú sé að hluta til búið að færa skipulagsvaldið til Reykjavíkur. Sé þetta rétt eru þetta svik við fólk utan Reykjavíkursvæðisins. Enn eitt dæmið um að skipulagsvaldið sé tekið af sveitarfélögunum.

Hvernig væri að innanríkisráðherrann drifi í að koma á vegasambandi í Reykhólasveit? Er það ekki réttlætismál fyrir íbúa Reykhólasveitar og íbúa sunnanverðra Vestfjarða?

Höfundur er eftirlaunaþegi.