[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kjon@mbl.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Hann er 37 ára gamall, öðru hverju sýnir hann „samhug sinn með alþýðunni“ með því að fara dulbúinn um landið og vinna dag í senn sem pítsusendill, þjónn, byggingaverkamaður eða starfsmaður á heimili fyrir aldraða. Einkunnarorð framtaksins eru „Í dularklæðum um landið“ og ferðalögin eru tekin upp á laun. Gabor Vona er leiðtogi ungverska stjórnmálaflokksins Jobbik og segir að þetta séu alls ekki einhverjar atkvæðaveiðar eða lýðskrum.

Flokkurinn var með aðeins rúmlega 2% fylgi 2006. En Jobbik mælist nú að sögn Der Spiegel næststærsti flokkur Ungverjalands, með nær 30% stuðning í könnunum. Í fyrra fékk hann rúm 20% atkvæða í þingkosningum og á þessu ári vann hann aukakosningar í Tapolca. Frambjóðandi hans fékk 35,3% atkvæða í apríl og því ívið meira fylgi en fulltrúi stjórnarflokksins Fidesz.

Vona segir að Jobbik stefni að því að ná völdum í næstu kosningum árið 2018. Meirihluti Ungverja undir 35 ára aldri segir Jobbik nú vera „kúl flokk kerfisandstæðinga“ og eina valkostinn gegn steinrunninni valdaklíku.

Fasistar og rasistar, segja margir Ungverjar, en eiga stimplarnir rétt á sér? Margt bendir til þess. Jobbik-þingmaður hvatti til þess 2012 að gerður yrði listi yfir fólk af gyðingaættum „sérstaklega á þingi og í ríkisstjórn, sem stofnar öryggi þjóðarinnar í tvísýnu“. Og Vona varaði fyrir tveim árum við fjárfestingum gyðinga í Ungverjalandi. „Ísraelska landvinningaliðið, þessir fjárfestar, ættu að leita að öðru landi fyrir sig því að Ungverjaland er ekki til sölu,“ sagði hann.

Frammámenn Jobbik tala þó ekki lengur um „sígaunaglæpi“ og boða ekki opinberlega gyðingahatur en láta nægja að fordæma með miklum látum Ísrael. Það gera reyndar fleiri Evrópumenn sem þvertaka líka fyrir að undirrótin sé gyðingahatur.

Orban á sömu miðum

Sósíalistar misstu völdin í Ungverjalandi 2010 og þá tóku hægrimenn í Fidesz við. Viktor Orban forsætisráðherra hefur reynt að snúa á Jobbik með því að taka upp sum stefnumál hans, berst t.d. af hörku gegn því að fleiri hælisleitendur fái landvist og vill taka aftur upp dauðarefsingu. Einnig hefur hann óspart gagnrýnt Evrópusambandið og vingast við Pútín Rússlandsforseta.

Oft er Jobbik sagður vera hægriflokkur, þá er hann óvenjulegur að því leyti að hann hafnar eindregið kapítalisma! Vona hafnar merkimiðunum hægri og vinstri, segir flokkinn bara vera „kristinn íhaldsflokk róttækra ættjarðarvina sem heiðra ungversk gildi“, hann vilji gæta þjóðarhagsmuna og berjast gegn hnattvæðingu. Og ESB, sem vilji nýta sér ódýrt vinnuafl í landinu. Einnig vilji Jobbik tryggja betur öryggi borgaranna og sinna hagsmunum fjölmennra þjóðarbrota Ungverja í grannlöndunum.

Jobbik sinnir grasrótarstarfi af miklum dugnaði og klókindum en frambjóðendur annarra stórra flokka láta oft duga að heimsækja kjördæmin í mýflugumynd rétt fyrir kosningar. En jafnvægislist Vona felst í því að sækja inn á miðjuna með því að milda yfirbragð Jobbik en ganga þó ekki svo langt að gamli harði kjarninn verði vonsvikinn og hætti að styðja hann.

Vinirnir Hitler og Horthy

Einn af þingmönnum Jobbik hrækti í mars á minnismerki við Dóná um 500 þúsund ungverska gyðinga sem drepnir voru í Helförinni. Hann sagðist gjarnan vilja „ljúka verkinu“. Gabor Vona lét manninn að vísu biðjast afsökunar – en hóf síðan að skilgreina svonefnda „sígaunaglæpi“, tók samt fram að hann væri enginn rasisti.

Margir liðsmenn Jobbik dá ákaft fasistaleiðtogann Miklos Horthy, leiðtoga Ungverja á árunum milli stríða. Hann skartaði gömlum aðmírálstitli frá tímum keisaraveldisins Austurríkis-Ungverjalands er hrundi 1918. Horthy var einn af fyrstu hugmyndafræðingum fasista og var bandamaður Hitlers í heimsstyrjöldinni síðari.