Með haförn Gunnar við rannsóknir síðasta sumar.
Með haförn Gunnar við rannsóknir síðasta sumar.
Gunnar Þór Hallgrímsson var að koma úr fjögurra daga ferð með nemendum í fuglafræði við Háskóla Íslands. Hann er dósent í dýrafræði og vinnur að fuglarannsóknum.

Gunnar Þór Hallgrímsson var að koma úr fjögurra daga ferð með nemendum í fuglafræði við Háskóla Íslands. Hann er dósent í dýrafræði og vinnur að fuglarannsóknum. „Við vorum á sunnan- og vestanverðu landinu, mest á Reykjanesskaganum og nú tekur við hjá mér sýnataka þar sem við leitum að fuglaflensu í farfuglum það sem eftir lifir maí. Þetta gerum við alltaf á vorin og haustin þegar farfuglarnir eru á ferðinni. Það fer allt á fullt hjá okkur fuglafræðingum á vorin.

Ég hef haft áhuga á fuglum frá blautu barnsbeini og það er komið frá föður mínum sem er ennþá mjög aktífur fuglaskoðari.“

Hver er uppáhaldsfuglinn? „Ég held ég segi sendlingur, en ég hef rannsakað hann töluvert. Sendlingur er mjög vanmetinn, er lítill og gráleitur og fólk tekur ekki eftir honum en hann lifir við mjög slæmar vetraraðstæður. Hann er eini fuglinn sem er útbreiddur um allt land á veturna, lifir við brimsamar og grýttar fjörur landsins og er sá eini sem þolir vetursetu á Grænlandi. Hann er ótrúlega seigur.

Fyrir utan fugla og útiveru þá er metall mikið áhugamál hjá mér. Ég spila á gítar og var í hljómsveitum áður fyrr og reyni að sækja tónleika.“

Hvað á að gera í tilefni dagsins? „Það verður þægilegur kvöldverður með konunni og eftir hann ætlum við að fara og hlýða á tónverk eftir frænda minn sem var að útskrifast úr Listaháskólanum.“

Kona Gunnars er Íris Erla Thorarensen, flugmaður hjá Icelandair, dóttir hennar og stjúpdóttir Gunnars er Kamilla Diljá. Foreldrar Gunnars eru Hallgrímur Gunnarsson og Kristbjörg Sigurðardóttir.