— Morgunblaðið/Eggert
Sterkasta Íslandsmót skáksögunnar hófst í gær í Háuloftum í Hörpu. Þremur skákum lauk með sigri en öðrum með jafntefli.

Sterkasta Íslandsmót skáksögunnar hófst í gær í Háuloftum í Hörpu. Þremur skákum lauk með sigri en öðrum með jafntefli. Keppnin í ár er einstaklega spennandi að sögn Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands, en óvæntustu úrslit gærdagsins voru jafntefli milli Sigurðar Daða Sigfússonar og Hannesar Hlífars Stefánssonar sem hefur tækifæri til að slá eigið met vinni hann þrettánda Íslandsmeistaratitilinn. Sex stórmeistarar taka þátt í mótinu, þeirra á meðal eru Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason sem hafa ekki verið meðal keppenda síðan á síðustu öld. Nota þeir mótið til þess að æfa sig fyrir Evrópumót landsliða sem haldið verður hér á landi í nóvember.

Gunnar Björnsson segir þátttöku Jóhanns og Jóns gera mótið enn skemmtilegra og meira spennandi. Þar fyrir utan hafi aðstaðan sjaldan verið eins glæsileg fyrir keppendur og áhorfendur og í ár. 12 keppendur eigast við um Íslandsmeistaratitilinn í ár og verður því farið í 11 umferðir á jafnmörgum dögum. 24. maí verður svo krýndur Íslandsmeistari í skák.