Feðgarnir Guðmundur kynnti diskinn um helgina og Snæbjörn ætlar að kynna bókina á fimmtudag.
Feðgarnir Guðmundur kynnti diskinn um helgina og Snæbjörn ætlar að kynna bókina á fimmtudag. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Feðgarnir Guðmundur Guðmundsson matvælafræðingur og Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur hafa bæst í hóp útgefenda, Guðmundur með plötu í tilefni 60 ára afmælis síns og Snæbjörn með bók sem hann segir að sé ekki tilkomin vegna nefndra tímamóta heldur af brýnni þörf.

Tónlist hefur verið ríkur þáttur í lífi Guðmundar og helsta áhugamálið. „Foreldrar mínir voru með tónlistardellu en ég fór í nám að eigin frumkvæði,“ segir tónlistarmaðurinn. Hann byrjaði snemma að læra á gítar, fyrst hjá Eyþóri Þorlákssyni og síðan hjá Gunnari H. Jónssyni, og spilaði síðar með hljómsveitinni Spöðum en hætti því fyrir margt löngu. „Nú spila ég mest fyrir sjálfan mig og svæfi sjálfan mig með gítarleik enda gítarinn lágvært hljóðfæri,“ segir hann kíminn.

Guðmundur hóf að semja tónlist fyrir margt löngu og hefur undirbúið útgáfuna undanfarin tvö ár. „Þetta hefur gerjast lengi hjá mér og mér fannst ég verða að koma þessu efni frá mér áður en ég legðist í kör,“ segir hann um lögin 18 á disknum, sem hann gefur út á eigin kostnað. „Það er enginn markhópur og engin viðskiptaáætlun en diskurinn er hugsaður fyrir alla áhugasama um þessa tónlist,“ segir hann.

Löng fæðing

Snæbjörn segir að hugmyndin að bókinni hafi gerjast í mörg ár. „Ég var þrjú ár að skrifa hana og það er algjör tilviljun að hún kemur út á sama tíma og platan hjá pabba,“ segir höfundurinn. Hann segir að efnið sé að mestu unnið upp úr greinum sem hafi birst hér og þar á um 100 ára tímabili. „Hugmyndin hjá mér var að koma saman bók þar sem fólk gæti lesið stuttar lýsingar um ákveðna staði. Uppbyggingin er eins og í vegahandbók en efnið er jarðfræði.“

Snæbjörn áréttar að bókin sé hugsuð sem handbók fyrir almenning og því séu lýsingar ekki allt of djúpar. „Efnið á að vera aðgengilegt og ég tek fyrir 100 staði um allt land,“ segir hann. Hann bætir við að eldri jarðfræðibækur fjalli fyrst og fremst um jarðfræði en hann leggi ekki síst áherslu á svæði eins og Vestfirði og Austfirði, sem hafi ekki fengið mikla jarðfræðiumfjöllun í bókum. „Ég ætlaði að vera búinn að koma bókinni út fyrr, en þetta var miklu meiri vinna en ég hafði ímyndað mér. En það er ánægjulegt að sjá afraksturinn og mér finnst hann áhugaverður vegna þess að þessar upplýsingar hafa ekki verið almennilega aðgengilegar fyrir almenning fyrr.“

Vísnalög og lýsingar

Diskurinn Fjólur með Guðmundi Guðmundssyni hefur að geyma margvíslegt efni. Aðalgeir Arason líffræðingur á stærstan hlut í textunum og Hafþór Ólafsson, söngvari úr Súkkat, syngur öll lögin en ýmsir aðrir koma að tónlistarflutningnum. „Þetta eru vísnalög með íslenskum textum og ekki seinna vænna að koma þeim út,“ segir Guðmundur.

Bókin Vegvísir um jarðfræði Íslands eftir Snæbjörn Guðmundsson kemur til landsins í dag og verður Forlagið með útgáfuteiti í Eymundsson á fimmtudag. Um er að ræða ríflega þrjú hundruð blaðsíðna myndskreytta bók með jarðfræðilýsingum fyrir almenning.