Bryndís Margrét Friðþjófsdóttir fæddist á Patreksfirði 26. mars 1946. Hún lést á líknardeild Kópavogs 7. júní 2015.
Bryndís var dóttir hjónanna Friðþjófs Ó. Jóhannessonar frá Vatneyri við Patreksfjörð, f. 28. desember 1905, d. 25. desember 1971, og Jóhönnu Ceseliu Margret Jóhannesson frá Flensborg í Þýskalandi, f. 19. mars 1908, d. 23. nóvember 1994. Systkini hennar eru Unnur, f. 1930, Kristinn f. 1933, d. 1996, og Kolbrún, f. 1936, d. 2006.
Bryndís giftist Sigurði Bjarnasyni, f. 28. nóvember 1946, 28. desember 1965. Hann er sonur Maríu Jónínu Sigurðardóttur, f. 27. ágúst 1925, og Pete Scholten, f. 6. júní 1923, d. 15. maí 2012. Bryndís og Sigurður skildu árið 1983.
Bryndís og Sigurður eignuðust Maríu Jóhönnu Sigurðardóttur, f. 3. desember 1965, hún er gift Lárusi Guðmundssyni, f. 1. apríl 1960, þau giftu sig 9. júlí 2005. María eignaðist dótturina Elísabetu Hönnu Maríudóttur, f. 27. júlí 1992, og saman eiga þau María og Lárus soninn Óskar Garðar Lárusson, f. 10. ágúst 2006. Fyrir á Lárus þrjú börn. Uppeldissonur Bryndísar er Sigurður Pétur Sigurðsson, f. 30. oktober 1971. Hann á tvö börn, Gísla Regin og Matthildi Eddu.
Bryndís hóf nám við heimavistarskólann að Reykholti í Borgarfirði haustið 1961. 16 ára gömul var hún send til Helgolands sem er lítil eyja í Þýskalandi til að vinna á hóteli . Síðar sama ár fer hún til Flensborgar að vinna á farfuglaheimili og er þar í rúmt ár. Eftir að heim kemur vinnur hún við ýmis störf, meðal annars hjá Símanum á Patreksfirði, á skrifstofum Skeljungs í Reykjavík og á endurskoðunarskrifstofu Eyjólfs K. Sigurjónssonar.
Hún kláraði Snyrtiskóla Margrétar Hjálmtýsdóttur árið 1976 og stofnar sína fyrstu verslun ásamt snyrtistofu árið 1977.
Um tíma rak hún þrjár verslanir, snyrtivöruverslanirnar Nönu ehf. í Fellagarði og einnig í Hólagarði, sem er enn í fullum rekstri, og gjafavöruverslunina Nönu í Fellagörðum.
Hún var brautryðjandi og frumkvöðull og bjó til sína eigin náttúrulegu kremlínu. Hún flutti inn jurtir og olíur frá Þýskalandi og Sviss og blandaði allt samkvæmt ævafornum uppskriftum.
Útför Bryndísar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 16. júní 2015, og hefst athöfnin kl. 15.
Elskuleg æskuvinkona mín hefur kvatt þessa jarðvist. Er ég flutti á Patreksfjörð fimm ára gömul kynntist ég Bryndísi mjög fljótt og bestu vinkonur vorum við orðnar er við byrjuðum í skóla sjö ára gamlar. Eins og við er að búast í litlu þorpi var nándin það mikil að börn fóru á heimili félaga sinna eins og þeirra eigin heimili og það gerðum við Bryndís. Okkur datt margt skemmtilegt í hug svo sem eins og að stofna bókasafn og merktum bækurnar með upphafsstöfum okkar, fórum í búðar- og búaleiki en eitt var það sem okkur þótti ekki mjög spennandi, það voru skíðaferðir því okkur var alltaf svo kalt. En árin liðu, barnaleikirnir hurfu og unglingsárin tóku við. Þá tók við að gista, meira var það nú að ég gisti hjá henni og þá var spjallað fram á nótt og deilt um hvor væri betri, Elvis Presley eða Cliff Richard. Bryndís mín var mikill aðdáandi Presleys, var með stóra mynd af honum í herberginu sínu, ég tel að þessi aðdáun á lögum hans hafi haldist fram á þennan dag. Við þurftum að yfirgefa fjörðinn okkar fagra til að fara í framhaldsnám, þá skildi leiðir, hún fór í Reykholt en ég á Laugarvatn. Það var einmitt fyrir stuttu að við vorum að rifja upp hvers vegna við fórum ekki í sama skóla, en við gátum ekki fundið það út. Nokkurt hlé varð á okkar sambandi, ég fór suður í nám, hún fór til Þýskalands. En um tvítugt er hún bjó á Arnarstapa fór ég nokkrum sinnum til hennar, þá kynnti hún mig fyrir ungum manni sem er eiginmaður minn í dag og gaman var að vera þarna með Hönnu Mæju lítilli stelpu. Á seinni árum hefur ekki verið mikið samband nema þá símleiðis vegna fjarlægðar okkar á milli en vinarstrengurinn var alltaf sterkur. Það sem einkenndi Bryndísi mína var: Glæsileiki, hjartahlýja, gleði, góð og kær vinátta sem ekki brast. Og að hún skyldi kveðja þetta líf á sjómannadegi sem var í hávegum hafður í okkar heimabyggð og okkar árgangur hittist oft á þessum degi finnst mér vera táknrænt.
Elsku Hanna Mæja, Elísabet, Óskar og aðrir ættingjar, megi Guð styrkja ykkur í sorginni.
Kæra vinkona,
við Guðmundur þökkum þér samfylgdina.
Ásgerður Ágústsdóttir.
Jón úr Vör gaf út ljóðabókina sína Þorpið árið 1946:
„Enginn slítur þau bönd
sem hann er bundinn heimahögum sínum.
En þorpið fer með þér alla leið“.
Þorp Jóns var einnig okkar þorp. Við ólumst upp á Patreksfirði í byrjun eftirstríðsáranna þegar þorpið okkar skiptist í Vatneyri og Geirseyri. Útgerð Ólafs Jóhannessonar á Vatneyri sá mörgum fyrir lifibrauði og húsin sem ættboginn bjó í voru reisuleg. Vatneyrarbúðin, þaðan sem Dalli Hansen keyrði út vörur, var ekki síður reisuleg. En þar í búðinni ríkti einnig mikil mennska, sem tvær litlar Ingimundardætur fengu að reyna fyrir jólin 1956. Skilin á milli eyranna voru oft skörp. Það gátu því oft orðið pústrar í biðröð fyrir utan skólastofuna. Þegar dyrnar opnuðust var röðin samt oftast orðin bein. Við tókum í höndina á kennaranum og hneigðum okkur áður en við fórum í sætin.
Margir úr þorpinu okkar fóru í Héraðsskólann að Núpi en við vorum nokkrar stúlkurnar sem hleyptum heimdraganum lengra og fórum í Héraðsskólann í Reykholti. Þar tók við dásamlegur tími undir styrkri stjórn, ekki síður en í biðröðinni forðum. Það er engan veginn sjálfsagt að fimmtán og sextán ára unglingar sem búa á heimavist bindist vináttuböndum sem styrkjast eftir því sem árin líða. Auðvitað slóst Amor einnig með í för með okkur, enda fólk að uppgötva heiminn og Presley. Samheldni hópsins varð strax sérstök, og á því verður engin breyting.
Við eigum saman Vináttulund þar sem aðallega vaxa bjarkir og reynitré. Björkin hennar Gúggýjar var teinrétt og tígulleg, gjöful og góð, eðliskostir sem fylgdu vinkonu okkar allt lífið, sem svo ótalmargir nutu góðs af. Hún var snyrtifræðingur að mennt og búðin hennar Nana sem hún stóð ótrauð í þrjátíu og átta árin varð félagsmiðstöð fyrir alla frá Patró og úr Reykholti. Þangað komu allir til að fá fréttir og ráðleggingar, ávallt boðnir velkomnir með brosi og hlýju, því Gúggý kunni þá list að hlusta og sjá með hjartanu. Nú ríkir þar sorg og það sama má segja um Vináttulundinn.
„Að lifa er að elska, og sá sem einhver elskar getur aldrei dáið,“ segir í ljóði Gunnars Dal. Vinkona okkar vissi það, hún hafði rætur í jörð, var eins og tré sem vex upp til ljóssins og aldinin voru stjörnur eins og Gunnar segir svo fallega í öðru ljóði. Stjörnurnar hennar Gúggýjar, dóttirin og börnin hennar, umvöfðu hana ást og umhyggju svo einstakt var. Við kveðjum kæra vinkonu og biðjum henni blessunar á leið til nýrra heima. Hennar verður sárt saknað. Hönnu Maju og fjölskyldunni allri sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Guð blessi minningu Bryndísar M. Friðþjófsdóttur.
F.h. Reykholtsvina,
Sigþrúður Ingimundardóttir (Þrúða).
Athvarf hlýtt við áttum hjá þér
ástrík skildir bros og tár.
Í samleik björt, sem sólskinsdagur
samfylgd þín um horfin ár.
Fyrir allt sem okkur varstu
ástarþakkir færum þér.
Gæði og tryggð er gafstu
í verki góðri konu vitni ber.
Aðalsmerkið: elska og fórna
yfir þínum sporum skín.
Hlý og björt í hugum okkar
hjartkær lifir minning þín.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)
Aldís, Hrafnhildur
og fjölskyldur.
Þetta var alvöru! Við fengum að setja á okkur naglalakk að eigin vali og skoða augnskuggana í öllum regnbogans litum og stundum fengum við ilmvatnsafganga, það var toppurinn á tilverunni. Núna síðast heimsótti ég og verslaði við Bryndísi í febrúar, hún tók svo þéttingsfast utan um mig þegar við kvöddumst og sagði, þú ert alltaf ein af mínum skvísum. Mér þótti svo vænt um þessi orð. Ég bið algóðan guð að vaka yfir Bryndísi og englana að vaka yfir börnum hennar og ættingjum. Takk fyrir allt, elsku Bryndís mín.
Kærleikur og kveðja.
Linda K. Urbancic.
Vor og blöð í blóma,
bærast strá í hlýju.
Fjöllin enduróma,
allt er bjart að nýju.
En dauðinn engu eirir,
einn og hver skal falla.
Hlustar ei né heyrir,
hróp um veröld alla.
Fallin er að foldu,
fegurst allra rósa.
Falin móðurmoldu,
mætust heimsins ljósa.
Kvödd með klökku sinni,
kærleik vafin björtum.
Þökk fyrir þessi kynni,
frá þúsund vina hjörtum.
Vilhelmína Þór.