Netflix Will og Riley í ægifagurri íslenskri náttúrunni.
Netflix Will og Riley í ægifagurri íslenskri náttúrunni.
Það dylst engum að náttúra Íslands er stórbrotin og er orðin efniviður margra leikstjóra og kvikmyndagerðarmanna sem leita út um allan heim að áhugaverðum tökustöðum.

Það dylst engum að náttúra Íslands er stórbrotin og er orðin efniviður margra leikstjóra og kvikmyndagerðarmanna sem leita út um allan heim að áhugaverðum tökustöðum. Í nýrri þáttaröð Netflix, Sense8, fær Ísland sannarlega að njóta sín og gaman að sjá hve margir fallegir staðir eru notaðir bæði í landslagi og byggingum. Fyrsti þátturinn grípur mann með hraðri atburðarás en langt í frá línulegri frásögn. Það er stokkið á sekúndubroti milli heimsálfa og milli persóna. Áhorfandinn verður að vera vel vakandi til að halda þræði þegar í einni svipan er skipt á milli litríkra Indverja í glaðlegum Bollywood-dansi yfir í hörkulegt kóreskt bardagaatriði þar sem markmiðið er að ganga frá andstæðingnum.

Ísland á sinn fulltrúa í þættinum í Riley, ungri konu sem fer úr sollinum í London á íslenskar heimaslóðir. Tónlistarmaðurinn og nú leikarinn KK tekur sig vel út í hlutverki föður Riley og sömuleiðis Lilja Þórisdóttir í hlutverki dularfullu konunnar Yrsu. Þá bregður Þorsteini Bachmann fyrir ásamt fleiri íslenskum leikurum. Ég horfði á alla 12 þættina og væri alveg til í að Netflix gerði framhald af Sense8.

Margrét Kr. Sigurðardóttir

Höf.: Margrét Kr. Sigurðardóttir