[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Góður árangur íslenska knattspyrnulandsliðsins í undankeppni EM hefur leitt til þess að margir eru farnir að huga að miðakaupum á lokamótið sem fram fer í Frakklandi á næsta ári.

Fréttaskýring

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Góður árangur íslenska knattspyrnulandsliðsins í undankeppni EM hefur leitt til þess að margir eru farnir að huga að miðakaupum á lokamótið sem fram fer í Frakklandi á næsta ári. Í heild eru 2,5 milljónir miða í boði og þar af fara 1,8 milljónir miða í sölu á almennum markaði. Hinum verður úthlutað til styrktaraðila, forráðamanna sambandanna, starfsmanna sem vinna að keppninni og til góðgerðarmála.

Skráning opin í happdrættið

Fyrirkomulag miðasölunnar er tvenns konar. Þann 10. júní sl. var opnaður gluggi fyrir knattspyrnuáhugamenn til þess að skrá sig fyrir miðakaupum á keppnina. Milljón miðar eru í boði og ef eftirspurn er umfram framboðið, sem verður að teljast afar líklegt, fer fram happdrætti þar sem miðahafar eru valdir af handahófi. Skráningu fyrir þessum miðum lýkur 10. júlí. Miðakaupendur geta eingöngu valið sér leikstað í ákveðinni borg og leikdaga en ekki valið um að fara á leik hjá ákveðnu liði. Er það skiljanlegt í ljósi þess að undankeppninni er ekki lokið. Því er ekki búið að draga í riðla og þar af leiðandi hvorki búið að ákveða leikdaga né leikstaði þjóðanna.

Þeim sem sækja um verður tilkynnt fyrir 15. ágúst næstkomandi hvort þeir komist að. Hver getur einungis fengið fjóra miða að hámarki á hvern leik.

Leikið er í tíu borgum um gervallt Frakkland og því getur verið langt á milli leikstaða. Ákveði einhver að kaupa ekki miðann getur hann skilað honum aftur og fengið endurgreitt. Verður þeim miðum sem sendir verða til baka úthlutað aftur með sama hætti.

Hinn hluti miðasölunnar hefst 15. desember og þá verða 800 þúsund miðar settir í sölu sem ætlaðir eru stuðningsmönnum þeirra þjóða sem tryggt hafa sér þátttökurétt í lokakeppninni.

Nokkuð um fyrirspurnir

Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, segir að UEFA sjái alfarið um miðasöluna að sinni en hins vegar muni KSÍ hafa einhverja milligöngu í desember ef Ísland kemst í lokakeppnina. „Það hefur komið svolítið af fyrirspurnum. Flestir eru enn að hugsa málið þar sem það mun ekki liggja fyrir fyrr en í haust hvort liðið kemst í lokakeppnina. Ég geri ráð fyrir því að yfir okkur muni rigna fyrirspurnum í desember ef liðinu gengur áfram vel,“ segir Ómar. Hann segir ekki ljóst hversu háu hlutfalli þeirra 800 þúsund miða sem verða í boði í desember verði úthlutað til hverrar þjóðar.

Ódýrustu miðarnir á 25 evrur

Miðaverði á leikina er skipt í fjóra flokka og fer það hækkandi eftir því sem lengra líður á lokakeppnina. Ódýrustu miðarnir í riðlakeppninni fara á 25 evrur, eða sem nemur rúmum 3.700 krónum, en þeir dýrustu eru á 145 evrur, eða sem nemur rúmum 21.600 krónum. Verð á miðunum fer svo stighækkandi þar til kemur að úrslitaleiknum sjálfum, þar sem ódýrustu miðarnir verða á 85 evrur, eða sem nemur tæpum 12.700 krónum, en þeir dýrustu verða seldir á 895 evrur, eða rúmar 133.700 krónur. Þó má búast við því að miðar sem fara á svartan markað verði seldir á margfalt dýrara verði.

Getur selt miðann aftur

Um 400 þúsund fleiri miðar eru til sölu nú en árið 2012 þegar keppnin var haldin í Póllandi og Úkraínu. Helgast það af því að þátttökuþjóðir eru 24 nú í stað 16 áður. Að venju fer af stað umræða um það hvernig kom megi í veg fyrir svartamarkaðsbrask með miða og vilja sumir meina að þeir miðar sem þegar séu farnir í sölu séu mun líklegri til þess að enda á svörtum markaði en þeir miðar sem selja á stuðningsmönnum þjóðanna. Á móti hefur UEFA bent á það að mótið sé ekki eingöngu fyrir stuðningsmenn þjóðanna heldur alla knattspyrnuáhugamenn. Til að mæta gagnrýni hefur sambandið nú sett upp vettvang þar sem fólk getur selt miðann til annarra á sama verði og hann var keyptur á.