Það verða ekki bara Íslendingar sem taka stórt stökk á styrkleikalista Evrópu fyrir dráttinn í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu 2018. Rúmenar og Walesbúar eru öruggir með sæti í 1.

Það verða ekki bara Íslendingar sem taka stórt stökk á styrkleikalista Evrópu fyrir dráttinn í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu 2018.

Rúmenar og Walesbúar eru öruggir með sæti í 1. styrkleikaflokki eftir góða frammistöðu í undankeppni EM og síðustu undankeppni HM. Wales var í 117. sæti á heimslista FIFA fyrir fjórum árum en gæti verið í 9. sæti næst þegar listinn verður gefinn út þann 9. júlí.

Rúmenar verða líkast til í 7. sæti listans en fyrir þremur árum voru þeir númer 57 á heimslistanum.

Ísland verður örugglega í 2. styrkleikaflokki, eins og fram kom í blaðinu í gær, og þá taka Færeyingar stökk úr sjötta og neðsta flokki og upp í 4. flokk. Þeir verða þar með fyrir ofan Finna og í sama flokki og Norðmenn og hafa aldrei áður verið í sambærilegri stöðu. Sigrarnir tveir gegn Grikkjum færa Færeyingum þessa stöðu. Þeir voru í 187. sæti í fyrra en eru nú á leiðinni í hóp 100 bestu þjóða heims í fyrsta skipti.

Dregið í Pétursborg 25. júlí

Dregið verður í riðla fyrir undankeppni HM 2018 þann 25. júlí, í Pétursborg í Rússlandi, og þar ræður staðan á heimslistanum hvernig styrkleikaflokkarnir verða skipaðir. Í dag virðist eina vafamálið vera hvort Króatar eða Ítalir verða í 1. eða 2. flokki.

Flokkarnir sex verða væntanlega þannig skipaðir, en eitt lið verður dregið í hvern riðil úr hverjum flokki:

Flokkur 1:

Þýskaland, Belgía, Holland, Rúmenía, England, Wales, Portúgal, Spánn, Króatía.

Flokkur 2:

Ítalía, Slóvakía, Austurríki, Sviss, Tékkland, Frakkland, Ísland, Danmörk, Bosnía.

Flokkur 3:

Pólland, Úkraína, Skotland, Ungverjaland, Svíþjóð, Albanía, Norður-Írland, Serbía, Grikkland.

Flokkur 4:

Tyrkland, Slóvenía, Ísrael, Írland, Noregur, Búlgaría, Færeyjar, Svartfjallaland, Eistland.

Flokkur 5:

Kýpur, Lettland, Armenía, Finnland, Hvíta-Rússland, Makedónía, Aserbaídsjan, Litháen, Moldóva.

Flokkur 6:

Kasakstan, Lúxemborg, Liechtenstein, Georgía, Malta, San Marínó, Andorra.

Ísland getur mætt öllum liðum nema þeim sem eru í 2. flokki.

vs@mbl.is