Gunnar Þór Gíslason
Gunnar Þór Gíslason
Eftir Gunnar Þór Gíslason: "Stýrivaxtahækkun hækkar því fljótlega mánaðarlegar vaxtagreiðslur íbúðareigenda."

Nýgerðir kjarasamningar gera miklar kröfur til fyrirtækja að mæta hækkandi launakostnaði með því að finna nýjar leiðir í rekstri í stað þess að velta kostnaði kjarasamninganna beint út í verðlagið. Flestir geta skilið þær tilfinningar sem liggja að baki kröfunni um 300 þúsund króna lágmarkslaun en eins og fyrr skiptir krónutalan ekki öllu máli heldur kaupmátturinn sem hún veitir.

Þann 10. júní lýsti Seðlabanki Íslands skoðun sinni á því að lægstu mánaðarlaun hækki í 300 þúsund á næstu þremur árum með því að hækka stýrivexti um 0,50% og hóta frekari hækkunum vaxta út árið. Þessi fyrsta vaxtahækkun eykur vaxtakostnað fyrirtækja um 5-7% og setur stórt strik í rekstur margra fyrirtækja. Tilgangur vaxtahækkananna er göfugur því seðlabankamenn ætla hærri stýrivöxtum að halda aftur af einkaneyslu og draga úr verðbólguþrýstingi. Raunveruleikinn er annar því hærri stýrivextir hafa hverfandi áhrif á einkaneyslu en auka líkur á verðhækkunum hjá fyrirtækjum.

Hærri vextir hafa ýmis neikvæð áhrif í rekstri fyrirtækja. Þeir hækka kostnað fyrirtækja og auka þannig líkur á því að þau hækki verð á vöru og þjónustu. Þeir draga einnig úr getu og vilja fyrirtækja til að fjárfesta sem kemur í veg fyrir að þau geti mætt hækkandi launakostnaði með aukinni sjálfvirknivæðingu og/eða auknum umsvifum. Hærri vextir draga einnig úr hvatanum til að leggja í ný verkefni og það mun hamla hagvexti í náinni framtíð og hafa þannig neikvæð áhrif á aukningu kaupmáttar.

Hækkandi stýrivextir Seðlabankans hafa hins vegar miklu minni áhrif á einkaneyslu heldur en í flestum vestrænum löndum. Ástæða þess er mismunandi fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Í flestum þeim löndum þar sem hagfræðikenningar eru mótaðar er stærstur hluti íbúðarlána með breytilegum óverðtryggðum vöxtum. Stýrivaxtahækkun hækkar því fljótlega mánaðarlegar vaxtagreiðslur íbúðareigenda og dregur þannig úr ráðstöfunartekjum þeirra. Peningar sem fara í hækkandi vaxtagreiðslur fara ekki á sama tíma í að auka neyslu. Á Íslandi er stærstur hluti íbúðarlána verðtryggður með föstum vöxtum. Hækkandi stýrivextir hafa engin áhrif á afborganir þeirra lána og draga því ekki úr einkaneyslu á sama hátt og hjá þeim sem eru með húsnæðislán á breytilegum óverðtryggðum vöxtum. Íslenskur raunveruleiki er því ekki í samræmi við forsendur erlendra hagfræðilíkana.

Ef Seðlabankinn hefur áhyggjur af ofþenslu einkaneyslu þá eru betri aðferðir til að draga úr henni heldur en hærri stýrivextir. Bankinn getur lagt til að ríkið auki hvata til sparnaðar til dæmis með því að útvíkka skattaafslátt vegna húsnæðissparnaðar og koma aftur á skattaafslætti vegna fjárfestinga í hlutabréfum. Seðlabankinn getur einnig hvatt til breytinga á reglum um útreikning eiginfjárbindingar útlána lánastofnana þannig að lán til einstaklinga bindi meira eigið fé en nú.

Ef Seðlabankinn hefur áhyggjur af of miklu peningamagni í umferð þá er nærtækast að hraða sölu eigna úr Eignasafni Seðlabanka Íslands og/eða hækka bindiskyldu banka. Ríkisvaldið verður einnig að mæta skattalækkunum með því að draga úr ríkisútgjöldum eða, ef það er því ómögulegt, að selja einhverjar ríkiseignir.

Flestir geta verið sammála um að til þess að byggja heilbrigt samfélag er betra að halda ójöfnuði í skefjum. Nýgerðir kjarasamningar eru tilraun til að auka kaupmátt þeirra lægst launuðu. Til þess að sú tilraun geti gengið upp er ekki nóg að stjórnendur hugsi rekstur fyrirtækja sinna upp á nýtt. Seðlabanki og ríkisvald þurfa einnig að horfa í eigin barm, hafa kjark til að endurskoða forsendur ákvarðanaferla sinna og þor til að gera þær breytingar á hagstjórninni sem nauðsynlegar eru, þar á meðal að átta sig á því að á Íslandi eru vextir bitlaust vopn gegn aukinni einkaneyslu.

Höfundur er rekstrarhagfræðingur.

Höf.: Gunnar Þór Gíslason