Rannsóknarnefnd samgönguslysa mun fjalla um árekstur rússneska skólaskipsins Kruzenshtern á varðskipin Tý og Þór. Þetta staðfestir Jón Arilíus, rannsóknarstjóri sjóslysa hjá nefndinni. Í umfjöllun mbl.is um málið kom fram að Landhelgisgæslan hefði krafist 100 milljóna króna bankaábyrgðar frá tryggingafélagi skipsins. Félagið hefði fallist á þá kröfu þó að ekki væri komið fyllilega í ljós hversu mikið tjónið hefði verið. Í framhaldi af því hefði rússneska skipinu verið leyft að halda úr höfn.
Jón Arilíus segir rannsóknina vera á frumstigi en að hún ætti ekki að þurfa að taka langan tíma. „Nefndin hittist aftur um mánaðarmótin ágúst-september og þá munum við taka fyrsta fund um málið.“ Þangað til er starfsfólk á vegum nefndarinnar að safna upplýsingum.
Í samtali við mbl.is sagði Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, að misskilningur ríkti um rússneska skipið. Það væri úr stáli en ekki timbri eins og margir virtust halda og sterkbyggðasti hluti þess hefði rekist á veikbyggða hluta varðskipanna.