Starfsgreinasamband Íslands hefur undirritað nýjan kjarasamning vegna sumarstarfsfólks hjá Edduhótelum. Samningurinn verður lagður fyrir framkvæmdastjórn SGS til staðfestingar eftir að niðurstöður úr atkvæðagreiðslu vegna almenna samningsins liggja fyrir.
Nær til ófaglærðs starfsfólks
Samningurinn nær eingöngu til atriða er varða kaup og kjör ófaglærðs starfsfólks Edduhótelanna, þegar frá eru taldir hlutir hótelstjóra og matsveina í hlutskiptakerfi.Laun munu hækka þann 1. maí á hverju ári út samningstímann, sem er fram til 31. desember 2018. Grunnlaun í flokki fimm verða strax 234.500 krónur og 236.211 kr. í flokki sex en verða að lokum, þann 1. maí árið 2018, 268.550 kr. í flokki fimm og 270.390 kr. í flokki sex.
Skv. SGS er í samningnum sem fyrr ákvæði um launaauka sem er hluti af seldum veitingum og gistingu. Af heildartekjum veitingasölu án virðisaukaskatts er 28,57% ætlað til launa. Af seldri gistingu herbergja án baðs eru nettó 36,32% til launa en 34,48% af seldri gistingu á herbergjum með baði. Þá komi 26,10 prósent af vínsölu til hlutskipta starfsmanna.