Þórunn Gréta Sigurðardóttir
Þórunn Gréta Sigurðardóttir — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni, en ég tek við góðu búi,“ segir Þórunn Gréta Sigurðardóttir sem um nýliðna helgi var kjörin formaður Tónskáldafélags Íslands fyrst kvenna.

„Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni, en ég tek við góðu búi,“ segir Þórunn Gréta Sigurðardóttir sem um nýliðna helgi var kjörin formaður Tónskáldafélags Íslands fyrst kvenna. Þau tímamót urðu líka að í fyrsta sinn í 70 ára sögu félagsins er stjórnin skipuð konum að meirihluta, því auk Þórunnar voru kjörin í stjórn þau Þuríður Jónsdóttir og Páll Ragnar Pálsson. Alls eru um 80 tónskáld í félaginu. Fráfarandi formaður félagsins er Kjartan Ólafsson, sem gegnt hafði formennskunni sl. 17 ár.

Tónskáldafélag Íslands stendur árlega fyrir Myrkum músíkdögum, reglulega að Norrænum músíkdögum og á aðild að STEF og BÍL „Mér finnst mjög mikilvægt að aðildarfélög BÍL séu virk í menningarpólitískri umræðu. Við getum ekki verið í afneitun á það að menningarpólitík er pólitík og sýna þarf henni sama aðhald og annarri pólitík.“

Í tilefni 70 ára afmælis Tónskáldafélags Íslands var blásið til hátíðardagskrár í Hörpu sl. laugardag. Þar voru Megas og Guðný Guðmundsdóttur heiðruð með Gullna heiðursmerki STEFs. „Megas er einn öflugasti laga- og textasmiður sem við Íslendingar eigum. Hann lyftir textagerð á Íslandi á hærra plan þegar hann kemur inn á sjónarsviðið og er mikill áhrifavaldur margra. Hann er enn mjög virkur listamaður,“ segir Kjartan Ólafsson, formaður STEFs, um ástæðu þess að Megas var heiðraður sl. laugardag. „Guðný hefur verið mjög dugleg í gegnum tíðina að panta ný íslensk tónverk, flytja þau og kynna bæði hér- og erlendis. Tilgangurinn með verðlaununum er að heiðra einstaklinga sem sinnt hafa íslenskri tónlist bæði með nýsköpun, flutningi og kynningu.“

silja@mbl.is