Jökull I. Elísabetarson
Jökull I. Elísabetarson
Nágrannaslagur Knattspyrnufélags Vesturbæjar og Knattspyrnufélags Reykjavíkur í 16 liða úrslitum Borgunarbikars KSÍ mun fara fram á heimavelli KR, aðalvellinum í Frostaskjóli.

Nágrannaslagur Knattspyrnufélags Vesturbæjar og Knattspyrnufélags Reykjavíkur í 16 liða úrslitum Borgunarbikars KSÍ mun fara fram á heimavelli KR, aðalvellinum í Frostaskjóli. KV fékk heimaleik þegar dregið var á dögunum en samkomulag hefur náðst um að leika á Alvogen-vellinum eins og hann heitir nú. Heimavöllur KV er svo sem ekki langt undan og raunar á sömu landareign, en það er gervigrasvöllurinn á KR-svæðinu, sem hefur gengið undir nafninu „KV Park“.

KV leikur í 2. deild, en félagið er aðeins ellefu ára gamalt. Liðið hefur leikið heimaleiki sína á gervigrasinu ef frá er talið tímabilið í fyrra þegar liðið komst upp í 1. deild og þurfti sökum leyfiskerfis KSÍ að færa heimaleiki sína inn í Laugardal.

Mikil tengsl eru á milli KV og KR en þau eru að mestu óformleg. Stofnendur KV og flestir leikmenn liðsins í gegnum tíðina eru aldir upp í yngri flokkum KR. Þjálfari KV, Hjörvar Ólafsson, þjálfar til dæmis einnig fyrir KR og það gerir einnig Halldór Árnason, sem stýrði KV í fyrra ásamt Páli Kristjánssyni. Í liði KV er í það minnsta einn leikmaður sem unnið hefur titil með meistaraflokki KR, en þar er um að ræða Jökul Elísabetarson sem skipti úr ÍBV í KV í vetur. Þrír í viðbót hafa komið við sögu með KR í efstu deild.

Leikur KV og KR fer fram á fimmtudaginn og hefst kl. 19.15. kris@mbl.is