[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FH-ingurinn ungi Hilmar Örn Jónsson vann tvöfaldan sigur í sleggjukasti á frjálsíþróttamóti sem fram fór í Eskilstuna í Svíþjóð á sunnudaginn.

FH-ingurinn ungi Hilmar Örn Jónsson vann tvöfaldan sigur í sleggjukasti á frjálsíþróttamóti sem fram fór í Eskilstuna í Svíþjóð á sunnudaginn. Hilmar sigraði í sleggjukasti karla, þar sem hann þeytti sleggjunni 66,75 metra, og vann líka í keppni með 6 kílóa sleggju, þar sem hann kastaði 74,57 metra. Stefán Velemir úr FH sigraði í kúluvarpi á mótinu og kastaði 17,55 metra. Það er hans besti árangur og átján metrarnir eru innan seilingar hjá þessum unga kastara.

Ljóst er að franski knattspyrnumaðurinn Franck Ribéry verður ekki tilbúinn í slaginn með Þýskalandsmeisturum Bayern München þegar keppni í þýsku 1. deildinni fer af stað á nýjan leik. Ribéry hefur átt í þrálátum meiðslum undanfarnar vikur og mánuði og nú hefur annar ökklinn verið settur í þrýstiumbúðir á nýjan leik. Þannig verður hann næsta mánuðinn en samkvæmt fréttum frá Bayern er reiknað með því að Ribéry geti byrjað að spila á ný eftir 8-10 vikur.

Serbneski handknattleiksmaðurinn Momir Ilic, sem hefur verið sterklega orðaður við Evrópumeistara Barcelona að undanförnu, ætlar ekki að fara til Katalóníu og hefur samið á ný við ungversku meistarana Veszprém til næstu tveggja ára. Þar með verða Ilic og Aron Pálmarsson samherjar á ný, en Aron er á leið til ungverska félagsins frá Kiel. Ilic fór sömu leið þegar hann gekk til liðs við Veszprém, en þá hafði hann leikið með Kiel frá árinu 2009, við hlið Arons og undir stjórn Alfreðs Gíslasonar .

Eins og fram kom fyrir landsleik Íslands og Tékklands í knattspyrnu braust út mikil óánægja meðal stuðningsmanna ítalska liðsins Pescara þar sem íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason leikur.

Stuðningsmennirnir létu svívirðingum rigna yfir Facebook-síðu KSÍ en hafa nú beðist afsökunar á athæfinu.

Á sama tíma og íslenska liðið lék við Tékka var umspilsleikur Pescara og Bologna um sæti í A-deildinni á Ítalíu, þar sem Bologna hafði betur. Birkir Bjarnason er algjör lykilleikmaður í liði Pescara og því voru stuðningsmenn liðsins ekkert allt of sáttir við KSÍ, sem kallaði hann heim enda um opinbera landsleikjaviku að ræða og sambandið í fullum rétti. Stuðningsmennirnir gerðu hreinlega árás á Facebook-síðu KSÍ og kölluðu þar Íslendinga öllum illum nöfnum.

Nú hefur höfuðpaur stuðningsmannasíðu félagsins á Facebook hins vegar beðist afsökunar á athæfinu og sendi hann Morgunblaðinu afsökunarbeiðni. Þar stendur meðal annars: „Mér þykir leitt að sjá allar þær svívirðingar sem þið Íslendingar fenguð. 90% af þeim voru sagðar í kaldhæðni og gríni en ég get skilið að það er alltaf frekar niðurdrepandi að lesa þær. Ég biðst afsökunar fyrir hönd síðunnar og annarra íbúa Pescara,“ segir í póstinum.