Selasetrið Unnur með vinnustaðinn, Selasetrið, í baksýn.
Selasetrið Unnur með vinnustaðinn, Selasetrið, í baksýn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Unnur Valborg Hilmarsdóttir er framkvæmdastjóri Selasetursins og oddviti í sveitarstjórn Húnaþings vestra.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir er framkvæmdastjóri Selasetursins og oddviti í sveitarstjórn Húnaþings vestra. Hún er uppalin á Hvammstanga, flutti til Reykjavíkur þegar hún var tíu ára en fluttist svo aftur á heimaslóðir þegar hún hóf störf sem framkvæmdastjóri Selasetursins árið 2013. En hvernig verður deginum varið? „Ég ætla að fara með fjölskyldunni suður í Reykjavík og skella mér á tónleika með sveitunga mínum, honum Ásgeiri Trausta, í Hörpu,“ segir Unnur.

Unnur hefur starfað sem oddviti í sveitarstjórn Húnaþings vestra undanfarið ár og segir starfið þar krefjandi en um leið lærdómsríkt og skemmtilegt. „Við erum í miklum framkvæmdum í tengslum við hitaveitu í dreifbýli,“ segir Unnur.

Unnur segir störf sín í Selasetrinu og sveitarstjórninni býsna tímafrek en þegar færi gefist ferðist hún með fjölskyldu sinni um landið. „Við reynum að fara eins mikið og við getum í útilegur með tjaldvagninn,“ segir Unnur og bætir við að fjölskyldan reyni að heimsækja Snæfellsnesið a.m.k. einu sinni á ári, en eiginmaður hennar á ættir sínar að rekja þangað. Hún tekur þó fram að síðustu helgina í júlí verði þau heima fyrir, en þá fer fram bæjarhátíðin Eldur í Húnaþingi.

Eiginmaður Unnar er Alfreð Alfreðsson, umsjónarmaður á Hlaðgerðarkoti, og börn þeirra eru Guðni Þór fjögurra ára og Birta Ögn tveggja ára. Fyrir átti Unnur Myrkva Þór Viggósson, 18 ára nema við Borgarholtsskóla.