Þegar ég var lítil ætlaði ég að eiga tvo menn, annan til að vinna og hinn til að passa börnin. Hugmyndir mínar um hjónaband voru þannig í hæsta máta vafasamar, þar sem ég virðist frekar hafa viljað eignast þræla en lífsförunaut.

Þegar ég var lítil ætlaði ég að eiga tvo menn, annan til að vinna og hinn til að passa börnin. Hugmyndir mínar um hjónaband voru þannig í hæsta máta vafasamar, þar sem ég virðist frekar hafa viljað eignast þræla en lífsförunaut. Hugmyndirnar voru þó allavega lítið litaðar af hefðbundnum kynjahlutverkum og raunar hef ég aldrei upplifað mig sem sérlega „kvenlega“ týpu. Ég hef alltaf verið femínisti en oftar en ekki togast á í mér viðleitnin til að taka fólki eins og það er og fordómar (plús snertur af öfundsýki) gagnvart þeim sem eru nær því að passa inn í viðmiðunarrammann fyrir staðalímynd kvenleikans.

Því kom mér það manna (og kvenna) mest á óvart þegar Facebook-hópur kenndur við fegurðarráð varð að mikilvægasta feminíska afli sem þetta land hefur séð áratugum saman. Meðlimir hópsins hafa ýmist staðið að baki hverri hugvekjubyltingunni á fætur annarri, veri það baráttan gegn #þöggun þolenda kynferðisofbeldis, frelsun geirvartnanna, einnig þekkt sem #freethenipple eða uppgjör við tvískinnung og áreitni #6dagsleikans. Myllumerkisbyltingar nútímans virðast eflaust lítilfjörlegar þegar litið er á stóra samhengið en þær eru droparnir sem hola steininn. Að fylgjast með þeim fara á flug glæðir hjartað rósrauðri birtu og eldmóði sem líklega er ekki ólíkur því sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir hefur fundið þegar barátta hennar fyrir kosningarétti kvenna fékk byr undir báða vængi

Á milli þess sem meðlimir Beauty tips róttækla feðraveldið ræða þeir reyndar m.a. sín á milli um líkamsrækt, uppáhalds MAC-varalitina sína og hvernig þeir eigi að klippa á sér hárið. Slík yfirborðskennd umræðuefni eru oft afar áberandi í hópnum og því væri auðvelt að afskrifa hann sem einhverskonar dægurflugu. Það væru augljóslega mistök. Með tilkomu Beauty tips hefur íslenskum konum tekist að verða hrynjandin í samfélagsumræðunni og kveikja aukinn áhuga á jafnréttismálum svo hverjum kemur það við þó þær lúkki fabjúlös á meðan?

Beauty tips hefur gefið yngri konum en áður rödd í umræðunni og það styrkir jafnréttisbaráttuna til muna. Á meðan örfáar óöruggar sálir segja af sér sem femínistar af ótta við að vera flokkaðar með Hildi Lilliendahl af fólki sem þekkir ekki jafnrétti frá eftirrétti, spretta femínistafélög skipuð stúlkum og drengjum, upp eins og gorkúlur í grunn- og framhaldsskólum landsins. Á því herrans ári 2015 gerir ungt fólk sér mun betur grein fyrir því en þeir sem eldri eru að femínismi er fyrir alla. Orðið vísar til hefðar sem við eigum öll að vera þakklát fyrir og halda á lofti fyrir okkur sjálf og fyrir komandi kynslóðir. Nú er einn helsti ávöxtur kvenfrelsisstefnunnar að verða 100 ára og #þvíberaðfagna. Til hamingju konur, og til hamingju Ísland. Höldum okkar striki. annamarsy@mbl.is

Anna Marsý

Höf.: Anna Marsý