Þórgunnur Þorgrímsdóttir fæddist 16. apríl 1928. Hún andaðist 5. júní 2015.

Útför Þórgunnar fór fram 15. júní 2015.

Þórgunnur amma okkar er horfin á braut.

Við kölluðum hana þó alltaf ömmu í Giljalandi, sem seinna varð Seljaland.

Ótalmargar góðar samverustundir að baki. Það sem stendur eftir er að amma var alltaf svo jákvæð og glöð. Kvik í hreyfingum, greiðvikin og snögg til ef einhvern vanhagaði um eitthvað.

Minningarnar eru margar og góðar. Gaman var að koma í Giljalandið þegar við vorum litlir strákpattar. Alltaf var eitthvað gott á boðstólum, hvort sem það var bakkelsi eða matur. Í ófá skipti var boðið upp á nýbakað, hvítar hveitibollur voru í miklu uppáhaldi hjá barnabörnum en síðan tók við hollustan við þegar árunum fjölgaði. Amma pönnukaka var viðurnefnið hjá barnabarnabörnum. Einnig voru oft fjölskylduboð um helgar og ekki vantaði kræsingarnar þá.

Afi stóð þá oft á tíðum bak við grillið og galdraði fram bragðgóðar steikur þannig að mathákar fjölskyldunnar stóðu á blístri og amma sá um meðlætið. Enginn fór svangur úr Fossvoginum.

Þegar aldurinn færðist yfir tóku þau sig til og fluttu í Seljalandið. Þótt íbúðin væri minni aftraði það ekki þeim að bjóða heim sem fyrr.

Þau hjónin voru dugleg að hreyfa sig. Laugardalslaugin var stunduð af miklum móð, gönguferðir um næsta nágrenni og í berjamó á Þingvelli.

Þegar afi okkar dó hélt hún sínu striki, bakaði, fór í sund og göngutúra. Fór hún m.a. í frí til Flórída með fjölskyldunni. Þurftum við að taka smá sprett þegar millilent var í næstu flugvél áleiðis til Orlando en hún lét það ekkert á sig fá og hljóp eins og allir hinir.

Nokkrum dögum seinna skellti hún sér í rússíbana og hafði gaman af.

Hún lifði lífinu lifandi allt til enda og lét ekkert aftra sér í því sem hún vildi gera eða tók þátt í.

En nú er gullvagninn kominn til að ná í hana ömmu okkar og fara með hana á annan stað þar sem henni mun líða vel.

Því segjum við bless í bili, sjáumst aftur. Biðjum að heilsa afa og öðrum sem við þekkjum á þeim góða stað.

Góða ferð.

Guðmundur Freyr Geirsson og Gunnar Þór Geirsson.

Elsku langamma mín. Ég vonast til að ég og allir hinir í fjölskyldunni muni eftir hvað þú varst hress, góð, góður bakari og fyndin. Ég man þegar ég var yngri er ég heimsótti þig og afa, þá fórum við tvær oft og keyptum ís í sjoppunni fyrir ofan húsið þitt. Mér þótti það alltaf svo gaman. Ég man líka þegar þú last sögur fyrir mig, mig langar að lesa þær sögur fyrir yngri systkini mín. Amma, við eigum góðar minningar saman og ég mun sakna þín alveg svakalega. Ég elska þig mjög mikið, þín Iðunn Lilja.

Til ömmu:

Kveðjustund er hér og nú,

uppi á himnum bakar þú.

Hugsa munum við til þín,

alltaf verður þú amma mín.

Iðunn Lilja Friðriksdóttir.