[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Benedikt Bóas benedikt@mbl.

Sviðsljós

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

„Þarna er lið að koma sem er eins og skrattinn hafi skitið á staðinn og heimamenn drógu bara fyrir og voru heima hjá sér,“ segir Stefán Magnússon, forsprakki þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs, í lokaritgerð Önnu Hlífar Árnadóttur í þjóðfræði frá Háskóla Íslands.

Anna leitar svara við því hvernig samfélagsleg áhrif Eistnaflugs birtast, en hátíðin hefur verið haldin árlega frá 2005 í Neskaupstað og gestum hefur stöðugt fjölgað.

Eistnaflug 2014 var fjölmennasta hátíðin frá upphafi en ljóst er að hún verður fjölmennari í ár.

„Helstu niðurstöðurnar eru viðhorfsbreytingar bæjarbúa gagnvart gestum og hátíðinni. Í fyrstu voru undirtektirnar frekar dræmar og sá fólk fyrir sér að bærinn yrði lagður í rúst og kirkjan jafnvel brennd,“ sagði Anna við Morgunblaðið.

Bæjarbúar orðnir opnari

Nú eru bæjarbúar orðnir opnari fyrir hátíðinni, fullir tilhlökkunar og spennu. „Gestir hátíðarinnar hafa sannað að þeir eru komnir til að fylgja tónlistinni eftir en ekki til að leggja bæinn í rúst. Það er nefnilega bannað að vera fáviti á Eistnaflugi,“ segir hún, en ritgerðin heitir einmitt eftir einkunnarorðum Eistnaflugs: Ekki vera fáviti.

„Í stuttu máli er hegðun gesta mjög jákvæð og það skiptir máli. Þungarokkarar höfðu það orð á sér að vera skuggalegt fólk með sítt hár, tattú hér og þar og eyrnalokka á skrýtnum stöðum. Þungarokkarar eru ekki „venjulegt“ fólk hvað útlit varðar en þegar maður kynnist þessum gestum sést hvað samkenndin er mikil meðal þeirra og samhugur ríkur. Svo taka allir eftir því ef það er vesen – þá eru allir til í að hjálpa. Fólk er sammála um að koma alla þessa leið til að skemmta sér en ekki til að skemma,“ segir Anna, sem býr sjálf í Neskaupstað og hefur fengið hátíðina beint í æð.

Anna tók sex viðtöl við einstaklinga úr bæjarfélaginu auk Stefáns í ritgerðinni. Viðmælendurnir eru á mismunandi aldri og aðkoma þeirra að Eistnaflugi er ólík. Saga Eistnaflugs er rakin, umgjörð og andrúmslofti hátíðarinnar lýst, svo og ýmsum athöfnum sem eiga sér stað.

Þá er sjónum beint að drykkjunni sem fylgir, hegðun gesta og umfjöllun fjölmiðla á hátíðinni.

Hróðurinn berst til útlanda

Alcoa Fjarðaál veitti í síðustu viku skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar Eistnaflugs í Neskaupstað hæsta einstaka styrkinn við árlega vorúthlutun Samfélagssjóðs Alcoa Fjarðaáls. Alls var úthlutað átta milljónum króna til 32 verkefna á Austurlandi og rann ein milljón króna til Eistnaflugs.

Tónlistarhátíðin hefur á síðustu árum fest sig í sessi sem ein helsta tónlistarhátíð landsins og vex umfang hennar ár frá ári. Flyst hátíðin úr Egilsbúð yfir í íþróttahúsið í Neskaupstað í ár. Þá er Eistnaflug helsta innlenda uppskeruhátíð rokkara og hefur hróður hennar borist víða.

Stefán Magnússon, forsprakki hátíðarinnar, segir að fjölmargir erlendir blaðamenn muni koma í ár og umfjöllun um Austfirði og Neskaupstað verði mikil. „Það er gríðarlegur áhugi frá blaða- og fréttamönnum, ljósmyndurum og fjölmiðlum um allan heim á hátíðinni. Erlendir gestir hafa trúlega aldrei verið fleiri og tímaritið Terrorizer ætlar að fjalla um Ísland og Eistnaflug í heilan mánuð,“ segir Stefán, en tímaritið er eitt mest lesna tónlistartímarit Evrópu.