Sigríður Ingibjörg Sigurbergsdóttir, fæddist í Svínafelli í Nesjum 6. september 1947. Hún lést á heimili sínu Furulundi 9 Garðabæ 3. júní 2015.

Foreldrar hennar voru Sigurbergur Árnason, f. 9.12. 1899, d. 10.7. 1983, Svínafelli, og kona hans Þóra Guðmundsdóttir, f. 24.9. 1908, d. 21.11. 2002, frá Hoffelli í Nesjum. Sigríður Ingibjörg var yngsta barn þeirra hjóna, en þau eignuðust alls tíu börn. Systkinin eru: Sigurjón, f. 1931, d. 2004, Árni, f. 1932, Gísli, f. 1934, Arnbjörn, f. 1936, Guðmundur, f. 1937, d. 2015 Sigurbjörg, f. 1940, Valgerður, f. 1941, Jónas, f. 1943, d. 1991, Gróa, f. 1944. Sigríður Ingibjörg ólst upp í Svínafelli í Nesjum, hún gekk í barnaskóla í Nesjum og lauk síðar námi frá Húsmæðraskólanum á Varmalandi 1964.

31.12. 1965 giftist hún fyrri manni sínum, Sigurði Hreini Björnssyni kennara, f. 16.5. 1941. Þau bjuggu á Akureyri en 1967 fluttu þau til Hornafjarðar og bjuggu í Ási í Nesjum þar til þau skildu. Sigríður Ingibjörg flutti þá til Reykjavíkur og stundaði þar ýmis störf þar til hún stofnaði byggingafyrirtækið Spöng ásamt seinni manni sínum. Sigríður Ingibjörg og Sigurður áttu sex börn: 1) Þuríður Harpa, f. 1.4. 1967, börn hennar og fyrrv. sambýlismanns Árna Þ. Friðrikssonar eru Arnar Leó, Aron Friður og Hera Þöll. Sambýliskona Arnars er Edda Hauksdóttir, þau eiga soninn Val Darra, f. 2011. Aron á soninn Anton Frey, f. 2013. 2) Bergrún Gígja, f. 26.9. 1968, sambýlismaður hennar er Páll Stefánsson. Börn eru: Benjamín Pétur Gígjar, María Von, Sunneva Una, Díma Írena og Snæringur Hersir. 3) Birna Sóley, f. 7.10. 1969, eiginmaður hennar er Egill Marteinn Benediktsson. Börn þeirra eru Fannar Blær Austar, Júlían Bent Austar og Helga Nótt Austar. 4) Þórir Gísli, f. 24.1. 1973, sambýliskona hans er Anetta Másdóttir. Dætur hans og fyrri konu hans Margrétar Helgadóttur eru Helena Mary og Hekla Margrét. Börn Þóris og Anettu eru Victor Ás og Sædís Ósk. Drengir Anettu eru Christian Már, Eric Almar og Patrick Elvar. 5) Jón Ingimar, f. 21.2. 1974. 6) Þórunnbjörg, f. 6.8. 1975, eiginmaður hennar er Jón Bjarni Jónsson. Börn þeirra eru Þóra Sigríður, Erla Sólbjört og Perla Sólbrá.

Sigríður Ingibjörg hóf sambúð með seinni eiginmanni sínum, Sigurbirni Kristni Haraldssyni húsasmíðameistara, f. 29.10. 1953, árið 1991. Foreldrar hans voru Eufemía Kristinsdóttir og Haraldur Axel Einarsson. Sigurbjörn á synina Harald Kristin, f. 1975, sonur hans er Aron Kristinn, og Kristinn, f. 1986. Brúðkaup Sigríðar Ingibjargar og Sigurbjörns var 7. júlí 2007. Hinn 17. júní 1996 stofnuðu Ingibjörg og Sigurbjörn byggingafyrirtækið Spöng ehf. sem þau hafa rekið til dagsins í dag.

Útför Sigríðar Ingibjargar fer fram frá Garðakirkju í dag, 16. júní 2015, kl. 11.

Mamma var mikil persóna og enga þekki ég sem geta fetað í hennar fótspor eða fyllt í það skarð sem hún skilur eftir.

Þegar eitthvað bjátaði á í fjölskyldunni og víðar þar var hún mætt með sinn stuðning 100 prósent og allt gert af fullum krafti sem hún tók sér fyrir hendur.

Það kom upp í huga minn eftir hvarf mömmu af þessari jörð að nú væri tekinn við nýr heimur og allt byrjað upp á nýtt í nýjum heimi þar sem enginn getur lesið til um framhaldið. Minningin lifir með mér og börnum mínum. Við munum reyna að standa okkur vel þannig hún geti verið stolt af því sem hún skilur eftir sig. Ég mun sakna samtala við hana um allskonar málefni sem oft voru mér hugleikin. Þegar ég spurði dætur mínar, Helenu og Heklu, hverju þær myndu helst eftir frá ömmu sinni, svöruðu þær báðar: Knúsin, og þær langaði alltaf að knúsa hana endalaust og gátu alltaf talað við hana. Blessuð sé minning þín.

Þórir Gísli Sigurðsson.

Mamma, þú ert best.

Á svona stundu er erfitt að vera til, að þurfa að kveðja þig er eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað. Þú ert ekki bara mamma mín heldur ertu besti vinur minn, kletturinn minn á raunastund, gleðigjafi á gleðistund, traustasta manneskja sem ég þekki. Að þurfa að horfast í augu við það að geta aldrei hringt í þig aftur, geta aldrei setið yfir kaffibolla með þér aftur og leyst málin, geta ekki þusað í þér aftur og glaðst með þér, finnst mér bara óþolandi. Þú er sú sem ég alltaf gat leitað til með hvað sem var, það voru engin leyndarmál sem þú vissir ekki um í mínu lífi. Þú studdir mig í öllu og án þín veit ég bara ekki hvernig ég á að halda áfram. Ég var svo heppin að hafa þig hjá mér þegar dætur mínar drógu sinn fyrsta andardrátt og upp frá því varstu ekki bara amma þeirra heldur einnig besti vinur þeirra. Allt sem þú gerðir var af kærleika. Vonandi mun lífið veita mér þá trú og staðfestu sem þú hafðir.

Ég sit og bíð eftir að sjá þig koma inn í eldhús að ná þér í kaffi og spjalla, hver styður mig í gegnum sorgina? Engin er eins hjartahlý, kærleiksrík og góð og þú.

En nú er komið að kveðjustund eftir langa og erfiða baráttu og ég gleðst fyrir þína hönd að hafa fengið að fara, ég gleðst yfir því að þú ert laus við líkamann.

Ég sakna þín óendanlega mikið og mun alltaf gera.

Við sjáumst aftur þegar minn tími kemur.

Móðir mín mér er svo kær,

minning hennar hugljúf og tær.

Með englum svífur og sefur vær,

nú stjarna er sem skín svo skær.

Takk fyrir allt mitt líf, elsku besta mamma mín.

Þín dóttir,

Þórunn Björg

Sigurðardóttir.

Ég man þig mamma mín, sterka, kjarkaða, skapandi, úrræðagóða og allt um vefjandi en líka breyska og umfram allt góða manneskju sem ekkert var ómögulegt.

Rokið og rigningin var þitt veður, á slíkum dögum mun ég minnast þín, sem hlóst upp í rokið og dásamaðir rigninguna.

Ég mun minnast þín þegar döggin glitrar á birkinu, þegar dagurinn verður í hámarki sínu og þegar nóttin leysir kvöldið af hólmi.

Á mínum gleðistundum sem og mínum döprustu stundum mun ég minnast þín með þakklæti fyrir allt sem var, allt sem er og allt sem verður.

Þuríður Harpa

Sigurðardóttir.

Það er þyngra en tárum taki að sætta mig við að amma mín er dáin. Ég hef alltaf átt tvær ömmur svo skemmtilega ólíkar. Amma í Reykjavík eins og ég kallaði hana var ekki þessi hefðbundna amma, hún var töff. Hjá henni var ég part úr sumri í nokkur skipti. Eftir eitt slíkt sumarfrí mætti ég í skólann, við bekkurinn vorum beðin um að lýsa sumarfríinu. Ég sagðist hafa farið til ömmu í Reykjavík, við hefðum farið í bíó og keyrt á rauða sportbílnum hennar, leigt spólur, málað tréplatta og margt fleira.

Þetta þótti hinum krökkunum merkilegt þar sem flestir áttu gamlar ömmur. Ég var stoltur af henni og fannst ég heppinn að eiga svona unga ömmu sem gat gert allt með mér.

Hún var ófeimin að lita út fyrir línurnar og fagnaði öllu sem var skrítið eða öðruvísi, hjá henni fékk maður að vera barn og hún sjálf var dugleg að viðhalda barninu í sér. Það var alltaf létt í kringum hana en henni leiddist grátur og væl og hún skammaði mig nánast aldrei, sendi mér bara svip, það var nóg.

Eitt skiptið var ég staddur með henni upp í bústað þar sem ég lá rænulaus af leiðindum, ég var gelgja og allt var glatað. Þá kom amma og bauð mér að fara út og brenna sinu. Ég hrifsaði kveikjarann og hljóp út, þar óð ég um og fíraði í sinunni, þar til ég sá að eldurinn var bara úti um allt, hljóp ég þá til ömmu og veinaði að ég hefði engin tök á eldinum. Þetta er í eina skiptið sem ég sá ömmu hlaupa. Hún skassaðist margar ferðir um með vatnsfötu ausandi yfir eldinn og ég gerði slíkt hið sama. Þegar öllu var lokið og ég sat þarna lyktandi eins og sviðinn fugl, í glænýjum en sviðnum Fubu-galla, og beið eftir að hún myndi láta mig heyra það, þá sagði hún ekki orð, þannig var hún.

Hún var stórmerkilegur karakter og tókst þeim, henni og Sigurbirni að hlaða saman glæsilega vörðu úr engu, þegar þau störtuðu Spöng. Þar voru verkin látin tala og eyddi amma ófáum nóttunum pikkandi inn bókhaldið með sitt hvorum vísifingrinum, sígarettu í munnvikinu og með kaffi innan seilingar. Hún kunni enga fingrasetningu og henni var alveg sama, hún gerði þetta bara eins og henni sýndist.

Ég vann eitt sumarið hjá henni við handlang, grindhoruð barbabrella borandi í báðar nasirnar í einu. Ég kunni ekki að vinna og fékk þarna smjörþefinn af því hvernig væri að vera fullorðinn. Mér leiddist þessi vinna eins og sennilega flestum á þessum aldri en ég lærði þó að peningarnir ganga ekki greiðfært í vasann, ég þurfti að vinna fyrir þeim og á bak við þá lágu tímarnir sem ég vann. Amma og Sigurbjörn tóku mig í vinnu af góðmennsku sinni og fyrir það er ég þakklátur, annars hefði ég verið einhvers staðar að rífa upp lúpínu.

Amma mín var hörkutól, skrítin og skemmtileg, ástrík og örlát, ákveðin og talaði umbúðalaust um það sem henni lá á hjarta, hún var ekki fædd með neitt tunguhaft, gerði líka óspart grín að sjálfri sér ef henni fannst hún hafa gert eitthvað fáránlegt

Hún skildi eftir sig hóp af börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum og hún gladdist í hvert sinn sem bættist í hópinn.

Ég sakna hennar og vona að það lifi smáamma í mér.

Arnar Leó.