Hallgrími Kristinssyni þykir ástandið ekki gott í heilbrigðismálum: Hann yrkir á laugardag: Eitthvað um fjörutíu fæðingar, fimmtíu og sex hjartaþræðingar og eitt þúsund bráðablæðingar bíða nú einkavæðingar.

Hallgrími Kristinssyni þykir ástandið ekki gott í heilbrigðismálum: Hann yrkir á laugardag:

Eitthvað um fjörutíu fæðingar,

fimmtíu og sex hjartaþræðingar

og eitt þúsund bráðablæðingar

bíða nú einkavæðingar.

Guðmundur Arnfinnsson sendi mér nokkrar línur á sunnudaginn: „Eiginlega á ég bara að senda þér gátur, en sendi til þín vísukorn í tilefni af lyktum verkfalls hjúkrunarstarfsfólks:

Vanda bráðum afstýrt er,

enginn veit þó, hvernig fer,

Kristján eins og Kristur ber

krossinn þunga´ á herðum sér.“

„Frelsun geirvörtunnar“ hefur eðlilega orðið hagyrðingum vinsælt yrkisefni á Leirnum. Gústi Mar byrjaði:

Alþingi er allt í hvelli,

ekki linnir róstunum.

En yndislegt á Austurvelli

er hjá meyjabrjóstunum.

Þá barst kveðja að norðan og Friðrik Steingrímsson lét í sér heyra:

„Löggan kölluð til vegna manns sem beraði á sér kynfærin í Austurstræti.

Óáreitt með brjóstin ber

brosleit sprangar gellan,

í varðhald körlum vísað er

sem viðra á sér sprellann.“

Og „úr Austurstræti“ orti Ármann Þorgrímsson:

Illar fréttir eru héðan

ekkert kynja jafnræði

einhver sem fór úr að neðan

óðar sætti harðræði.

Og enn bar það til tíðinda, að Ríkisútvarpið skýrði frá því á sunnudag, að „nakti maðurinn á Austurvelli í gær var á vegum Félags íslenskra bifreiðaeigenda og reyndist alls ekki nakinn. Hann var klæddur í húðlitan galla og hjólaði um á Austurvelli en verið var að taka upp auglýsingu á vegum FÍB.

MBL greinir frá þessu en í gær sendi lögregla frá sér tilkynningu um að maður hefði berað kynfæri sín á samkomu berbrystinga á Austurvelli. Þar fagnaði fólk frelsi geirvörtu kvenna.“

Af þessu tilefni orti Davíð Hjálmar Haraldsson:

Allir kvenmenn; grannir, svartir, sverir,

sýnast mega hlaupa um klæðum flettir

en karlar þeir sem þykjast vera berir

þegar eru í hand- og fótjárn settir.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is