Viðskipti Krakkarnir selja ferðamönnum ýmsan varning, m.a. bræðurnir Arnar Bjarki og Tómas Atli Björvinssynir.
Viðskipti Krakkarnir selja ferðamönnum ýmsan varning, m.a. bræðurnir Arnar Bjarki og Tómas Atli Björvinssynir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Farþegar skemmtiferðaskipa vilja nýja áfangastaði og áskoranir. Aldrei hafa fleiri slík skip komið til Austurlands eins og stefnir í sumarið 2015.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Alls níu skemmtiferðaskip koma í hafnir Fjarðabyggðar á þessu sumri, þar af nokkur í Eskifjarðarhöfn sem hefur verið markaðssett sérstaklega sem skemmtiskipahöfnin á svæðinu.

Sea Explorer, sem tekur liðlega 100 farþega, hefur komið í tvígang það sem af er sumri. Það kom í höfn á Norðfirði en svo var tekin útsýnisferð inn á Mjóafjörð. Skipið Fram, sem gert er út frá Tromsö í Noregi og siglir um norðurslóðir, var á Eskifirði í lok maí og fleiri skip sem sækja á sömu mið eru væntanleg síðar í sumar.

Margra ára undirbúningsstarf

„Skipakomur þessar eru hluti af undirbúningsstarfi sem tekið hefur mörg ár,“ segir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri atvinnu- og þróunarmála hjá Fjarðabyggð.

Hún segir fyrsta skemmtiskipið hafa komið til Norðfjarðar árið 2012 en eiginleg vinna og ákvörðun um að skoða þennan möguleika í hafnastarfsemi fór af stað fjórum árum fyrr.

Árið 2008 gerðist Fjarðabyggðahöfn aðilar að Cruise Iceland og í kjölfarið hófst þátttaka í sameiginlegri markaðssetningu á vegum samtakanna auk annars markaðsstarfs.

„Austurland var með mjög lítinn hluta af heildarkomum skemmtiferðaskipa á Íslandi eða um 6%. Markmið okkar var að fá fleiri skip til hafnar hér. Það hefur svo sannarlega skilað sér því aldrei hafa fleiri skip komið til Austurlands eins og stefnir í sumarið 2015,“ segir Ásta Kristin.

Port of Eskifjordur

Áætlanir og siglingar skemmtiskipa eru undirbúnar með löngum fyrirvara og það skýrir hve langur tími líður gjarnan frá því markaðsstarf hefst uns skip er í höfn.

En nú eru þau farin að koma, eitt af öðru, til Port of Eskifjordur, eins og vörumerkið heitir. Flestöll skemmtiskipin sem til Íslands koma fara til Reykjavíkur, Ísafjarðar og Akureyrar en minni hafnir, sem gjarnan eru viðkomustaðir, eru til dæmis Grundarfjörður, Stykkishólmur, Siglufjörður, Seyðisfjörður, Höfn, Djúpivogur, Vestmannaeyjar og svo Eskifjörður.

„Mörg skipa koma hingað tvisvar til fimm sinnum yfir sumarið og skipta þá gjarnan minni stöðunum milli ferða. Hafa þarf í huga að stór hluti farþega er fólk sem fer reglulega með skipunum. Það fólk vill sífellt nýja áfangastaði og áskoranir. Það að geta boðið upp á þrjá góða áfangastaði fyrir skemmtiferðaskip í einum landsfjórðungi er auðvitað einstakt og verkefni sem við þurfum að vanda okkur virkilega með,“ segir Ásta Kristín ennfremur.

1.800 er mest

Minnstu skipin sem koma í höfn fyrir austan taka 115 farþega en hin stærstu allt að 1.800 farþega. Algeng stærð er annars 550 til 750 farþegar – og þumalputtareglan um skemmtiskip er sú að í áhöfn sé einn maður á hverja tvo farþega.

Eftirtekjan er umtalsverð

„Að við fáum kannski 800 til 1.500 farþega með hverju skipi er þægilegur fjöldi miðað við þá aðstöðu í ferðaþjónustu sem hér er til staðar. Héðan er oft til dæmis farið í skoðunarferðir í söfnin í Fjarðabyggð, stuttar gönguferðir og fleira,“ segir Ásta Kristín og víkur að því að oft hafi heyrst t.d. frá kaupmönnum að miður sé hve lítið farþegar skemmtiskipa skilja eftir sig. Viðskipti þeirra í verslunum og á þjónustustöðum séu óveruleg.

Hver raunin að þessu leyti sé í Fjarðabyggð hefur ekki verið mælt en fólk þar segir þó engan vafa leika á því að eftirtekjan sé umtalsverð. Hafnasjóður fái tekjur, rútufyrirtæki og fleiri. Á landsvísu séu skip þessi og farþegar að skila minnst fjórum milljörðum króna inn í hagkerfið.

Líklegt til að koma aftur

„Sannarlega er misjafnt hve miklu farþegar eyða í landi, en þetta er þó almennt talað fólk sem gjarnan kemur aftur til landsins – með öðrum ferðamáta – og þá eru þeir líklegir til að skilja meira eftir sig með viðskiptum af ýmsum toga,“ segir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir.