Íraskur hermaður
Íraskur hermaður
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Stuðningsmenn vopnaðra sveita sjía-múslíma í Írak, sem berjast gegn hryðjuverkamönnum Ríkis íslams, IS, með íraska hernum, fögnuðu nýlega ákaft miklum sigri sem hefði verið unninn í borginni Shichwa.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Stuðningsmenn vopnaðra sveita sjía-múslíma í Írak, sem berjast gegn hryðjuverkamönnum Ríkis íslams, IS, með íraska hernum, fögnuðu nýlega ákaft miklum sigri sem hefði verið unninn í borginni Shichwa. En þessi orrusta var aldrei háð og borgin er ekki til, segir í frétt BBC.

Ahmad al-Mahmoud, Íraki sem búsettur er í London, kom sögunni um bardagann af stað með aragrúa tvíta og báðir deiluaðilar gripu „frétt“ hans á lofti. „Mikil fagnaðarlæti í Karbala eftir að Shichwa var frelsuð,“ sagði einn tvítarinn. Annar sagði að 10.000 manns hefðu notað tækifærið og flúið frá Shichwa til Karbala.

Al-Mahmoud segir að allir Írakar hefðu átt að tortryggja fréttina vegna þess að orðið shichwa merki „ostablaðra“ sem sé heitið á ákveðinni aðferð við gerð mjólkurvara. Hann er eindreginn andstæðingur IS en gagnrýnir einnig hart bæði ríkisstjórn Íraks og sjía-vopnasveitirnar. Tvítsíða hans flytur yfirleitt raunverulegar fréttir af átökunum í Írak og um 14.000 manns fylgjast með henni. En hann segir að sér hafi leiðst einn daginn, hafi þá búið til umrædda frétt um Shichwa og fótósjoppað myndir sem hann fullyrti að væru frá Shichwa.

Áður en hann vissi af var skriðan farin af stað. Sumir tvítuðu tilbúnar fréttir af atburðunum, einn birti meira að segja kort sem átti að sýna vígstöðvarnar. Liðsmenn sjía-sveitanna fóru að hreykja sér opinberlega af sigrinum, IS-menn hótuðu hefndum. Í Sádi-Arabíu urðu sumir hræddir um að átökin myndu flæða inn yfir landamærin. Tveim dögum eftir að hafa sent frá sér tvítið ákvað Al-Mahmoud að nóg væri komið og gekkst við svindlinu.