Álverið Umtalsverður hluti starfsmanna í Straumsvík tilheyrir Hlíf.
Álverið Umtalsverður hluti starfsmanna í Straumsvík tilheyrir Hlíf. — Morgunblaðið/Ómar
Síðast var fundað um síðustu mánaðamót í kjaraviðræðum milli verkalýðsfélagsins Hlífar og SA vegna starfsmanna Rio Tinto Alcan. „Ég reikna með að sáttasemjari kalli okkur á fund, það gæti orðið á fimmtudag og þá verður staðan tekin.

Síðast var fundað um síðustu mánaðamót í kjaraviðræðum milli verkalýðsfélagsins Hlífar og SA vegna starfsmanna Rio Tinto Alcan.

„Ég reikna með að sáttasemjari kalli okkur á fund, það gæti orðið á fimmtudag og þá verður staðan tekin.Við höfum haldið fundi með starfsmönnum á svæðinu eftir að það slitnaði upp úr viðræðunum,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar.

Nú fer fram atkvæðagreiðsla meðal starfsmanna um yfirvinnubann þann 1. ágúst og allsherjarverkfall 1. september. Niðurstöður úr henni liggja fyrir 18. júní. „Við vonum að menn fari að átta sig á stöðunni. Við vildum gera svokallaðan fleytisamning til áramóta um ákveðin mál og gera samning til lengri tíma eftir áramót,“ Segir Kolbeinn, en ekkert hafi orðið úr því. Á næstu dögum komi í ljós hvert framhaldið verði.

Hlíf er eitt svokallaðra Flóafélaga, sem gerðu nýlega kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eins og Starfsgreinasambandið, VR og fleiri félög. Verið er að greiða atkvæði um þá samninga í félögunum og lýkur atkvæðagreiðslunni 22. júní. Kolbeinn telur að hljómgrunnur sé fyrir þeim samningum.