Heimilisofbeldi Tilkynningum til lögreglu hefur fjölgað mikið.
Heimilisofbeldi Tilkynningum til lögreglu hefur fjölgað mikið. — Morgunblaðið/Þórður
Ísak Rúnarsson isak@mbl.

Ísak Rúnarsson

isak@mbl.is

„Við höfum verið í þessu átaki frá áramótum, en það felst fyrst og fremst í því að grípa til aðgerða um leið og heimilisofbeldismál koma upp, í samstarfi við sveitarfélögin í umdæminu, í stað þess að stilla eingöngu til friðar og yfirgefa svæðið,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi. „Aðkoma sveitarfélaganna er með þeim hætti að þau útvega fulltrúa félagsþjónustunnar til að koma á vettvang strax þegar heimilisofbeldismál er tilkynnt,“ segir Oddur.

Tilkynningum fjölgað

Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað töluvert hjá Lögreglunni á Suðurlandi það sem af er af árinu 2015, en til að mynda voru þrjú tilvik tilkynnt í síðustu viku. Talið er að með nýju verklagi í kringum átakið, sem og opnari umræðu, séu brotaþolar orðnir óhræddari við að tilkynna heimilisofbeldi. Rannveig Þórisdóttir hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að þar hafi einnig staðið yfir átak gegn heimilisofbeldi síðan í desember og að tilkynningar hafi nánast tvöfaldast fyrstu tvo mánuðina frá því að það hófst. Óstaðfestar tölur bendi svo til þess að fjölgunin hafi haldið sér fram til þessa en að skekkjumörkin á þeim tölum geti þó verið um 10% til eða frá. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur einnig verið í sams konar átaki en þar tilkynningum ekki hafa fjölgað frá því árið 2014. Það segir þó ekki endilega alla söguna því það ár var metár með ríflega tvöföldun tilkynninga frá því árinu áður.

Í gögnum af vef lögreglu má sjá að heimilisofbeldistilkynningum hefur almennt fjölgað síðan 2007. Það ár voru 263 tilvik tilkynnt en árið 2014 voru 413 tilvik tilkynnt.

Fyrirmynd af Suðurnesjum

Átak gegn heimilisofbeldi er byggt á fyrirmynd frá Lögreglunni á Suðurnesjum sem bar upphaflega heitið Höldum glugganum opnum , en í það var ráðist snemma árs 2013. Það ár var jafnframt metár tilkynninga um heimilisofbeldi hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, en aukinheldur hefur dómum í heimilisofbeldismálum á Suðurnesjum fjölgað úr þremur árið 2011 í ellefu árið 2014. Átakið átti upphaflega að vera tilraunaverkefni til eins árs en gekk svo vel að ákveðið var að framlengja það.

Undir lok árs 2014 gaf Ríkislögreglustjóri svo út nýjar reglur um skráningu og verklag á heimilisofbeldismálum fyrir allt landið sem byggjast að verulegu leyti á því verklagi sem komið var á árið 2013 á Suðurnesjunum.

Oddur segir að átak þeirra á Suðurlandi sé í samræmi við það sem áður hafi þekkst á Suðurnesjum en þó með einni viðbót, sem varðar flokkun á heimilisofbeldi í þrjá flokka; ást, meiri háttar heimilisofbeldi og minni háttar heimilisofbeldi. Ást á við þegar ágreiningur er milli skyldra aðila eða tengdra en flokkun í minni og meiri háttar heimilisofbeldi er ný af nálinni. Spurður hvar línan sé dregin segir Oddur að allt líkamlegt ofbeldi sé flokkað sem meiri háttar heimilisofbeldi.