Þó að klassískar línur Audi TT séu ekki mikið breyttar milli kynslóða er undirvagninn og mestallt innra byrði bílsins gjörbreytt, og það finnst vel í akstri.
Þó að klassískar línur Audi TT séu ekki mikið breyttar milli kynslóða er undirvagninn og mestallt innra byrði bílsins gjörbreytt, og það finnst vel í akstri. — Morgunblaðið/Kristrún Tryggvadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir þá sem ekki hafa tekið eftir því er komin ný kynslóð Audi TT á markað og fyrsta eintakið er meira að segja komið til Íslands.

Fyrir þá sem ekki hafa tekið eftir því er komin ný kynslóð Audi TT á markað og fyrsta eintakið er meira að segja komið til Íslands. Það fyrirgefst svo sem að hafa ekki tekið eftir því þar sem útlitsmunur milli kynslóða myndi ekki teljast mjög mikill á alla venjulega bílamælikvarða. Hins vegar liggur munurinn í því sem augað ekki sér og fyrir undirritaðan sem prófað hefur allar gerðir Audi TT er munurinn verulegur í akstri.

Stinnur á fjöðrun

Bíllinn sem hingað er kominn er tveggja lítra TFSI í quattro-útgáfa en með fjórhjóladrifinu eru þeir aðeins fáanlegir sjálfskiptir með sjö þrepa S-tronic-kassa. Hægt er að velja um tvær gerðir, Sport eða S-line eins og prófunarbíllinn var útbúinn. Í S-line kemur bíllinn á stórum, 19 tommu álfelgum, með formaðri stuðara og díóðuljósum allann hringinn.

Auk þess er bíllinn 10 mm lægri og með mun stífari fjöðrun sem ekki er stillanleg. Það finnst líka í akstri hversu stífur bíllinn er þegar hann heggur fram og til baka þegar ekið er yfir öldótt gatnamót höfuðborgarsvæðisins. Eins valda stórar álfelgurnar og lakkrísreimadekkin því að veghljóð er einnig töluvert, en það var kannski viðbúið í sportbíl.

Eins og límdur við malbikið

Í fyrsta skipti síðan fyrsti hluti hringakstursbrautar í Kapelluhrauni var opnaður gafst tækifæri til að prófa bíl þar í akstri. Þar fékk TT-bíllinn líka að sýna hvað í honum býr á glænýju malbikinu. Ekki þurfti mikla hreyfingu í stýri til að skella honum í beygjurnar þar sem hann hélt góðu gripi með smávegis votti af undirstýringu. Fjórhjóladrifið gerði sitt til að halda honum stöðugum, jafnvel í langri beygju sem leyfði þriðja gír. Þurfti að beita brögðum til að losa bílinn frá malbikinu en spræk bensínvélin var alltaf fljót að finna grip fyrir hann aftur.

Eftir tíu hringi eða svo var brosið hjá ökumanninum orðið að jibbíkæjei og greinilegt að þessi skemmtilega braut lofar góðu. Það er líka gaman að gefa þessum bíl inn því að við hverja skiptingu kemur smá bensínsprenging eins og í alvöru rallíbíl. Skiptingarnar sjálfar eru eldsnöggar og um leið átakalausar, hvort sem er í gegnum gírstöngina eða flipana í stýrinu.

Vel útfært háskerpumælaborð

Þegar farið er að skoða innanrými er útlitsmunurinn meiri svo ekki sé talað um búnaðinn. Það er viss upplifun að sjá mælaborðið lifna við í fyrsta skipti en það er einn háskerpuskjár og getur ökumaðurinn valið það viðmót sem hentar hverju sinni.

Í leiðsöguham fyllir landakort út í allan skjáinn og hraða- og snúningshraðamælir verða aðeins litlir hringir hvor sínum megin. Einnig er hægt að skoða ýmis snjallsímasamskipti og með snertihnappnum í miðjustokki má skrifa fyrstu stafina í nafni tengiliðar til að flýta fyrir leit að honum í símaskrá, skemmtilegur fídus sem virkar vel.

Annað í mælaborði bílsins er vel útfært, eins og til dæmis stórar, hringlaga lofttúður sem innihalda lítinn díóðuskjá sem sýnir til dæmis miðstöðvarhita og þess háttar. Það eina sem hefði mátt staðsetja betur er hljóðstyrkstakki sem er falinn bak við gírstöngina.

Framsætin eru stór og rúmgóð með góðum hliðarstuðningi en kannski aðeins í stífara lagi, eins og bíllinn sjálfur. Öryggisbeltin koma upp úr axlarhæð við gluggakarm svo að þau nuddast aðeins of mikið við ökumann í akstri. Þótt plássið í aftursætunum tveimur sé aðeins miðað við börn eða fólk í barnastærð er farangursrýmið með besta móti fyrir bíl í þessum flokki. Það tekur rúma 300 lítra og rúmar tvær flugtöskur af stærri gerðinni. Auk þess opnast afturhlerinn mjög vel en hann er sambyggður langri afturrúðunni.

Audi TT á sér þónokkra keppinauta, einnig hér á landi, enda sportbíll sem hægt er að segja að sé á viðráðanlegu verði fyrir suma. Öflugasta útgáfa hans, TTS, keppir við Porsche Boxster og Jagúar F-Type en þessi sem hér var reyndur er sambærilegur við bíla eins og Mercedes-Benz SLK og BMW Z4. Þótt það stefni í Jagúar-umboð hér á landi og stutt sé í komu nýs Boxster er ekki rétt að bera saman þann flokk að sinni, en vel þess virði að velta fyrir sér samkeppninni í ódýrari gerðinni.

Því miður er ekki að finna upplýsingar um verð á SLK á heimasíðu Öskju frekar en upplýsingar um Z4 á heimasíðu BL. Hvort tilkoma Audi TT hér á landi mun breyta einhverju þar um þarf bara að koma í ljós í sumar, skulum við vona allavega.

njall@mbl.is

Njáll Gunnlaugsson

Höf.: Njáll Gunnlaugsson