[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Förðun er ekki lögvernduð iðngrein á Íslandi og því hafa förðunarfræðingar oft átt á brattann að sækja að hasla sér völl erlendis.

Förðun er ekki lögvernduð iðngrein á Íslandi og því hafa förðunarfræðingar oft átt á brattann að sækja að hasla sér völl erlendis. Þótt það hafi ekki verið Kristínu Stefánsdóttur til trafala á löngum ferli í bransanum, bar hún hag kolleganna fyrir brjósti og krækti sér í umboð til að reka alþjóðlegan förðunarskóla.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Kristín Stefánsdóttir, snyrti- og förðunarmeistari, jafnan kennd við No Name-snyrtivörurnar, hefur fengið umboð til að reka alþjóðlega förðunarskólann MUD á Íslandi. Nafnið stendur fyrir Make-Up Designory og hefur skólinn að sögn Kristínar notið mikilla vinsælda og virðingar frá því hann var stofnaður í Los Angeles 1997. „Hann er einn af stærstu förðunarskólum Bandaríkjanna og starfræktur þar í 18 fylkjum og sjö löndum í Evrópu, en Ísland verður það áttunda. Höfuðstöðvarnar eru í Los Angeles og New York,“ segir Kristín, sem í fyrra gekk frá samningum um útibú á Íslandi.

Þrátt fyrir að hér hafi verið og séu starfandi förðunarskólar, m.a. tveir sem Kristín stofnaði og rak í mörg ár, fannst henni vanta tilfinnanlega skóla sem útskrifaði nemendur með alþjóðlega viðurkennt diplómanám. „Vandinn er sá að á Íslandi er förðunarnám ekki lögvernduð iðngrein. Förðunarskólarnir eru góðir og með fín námskeið en geta hvorki boðið nemendum upp á sérhæfingu né prófgráðu sem er viðurkennd á alþjóðavettvangi. Þess vegna hefur verið mjög erfitt fyrir íslenska förðunarfræðinga, sem lært hafa hérna heima, að fá vinnu og hasla sér völl erlendis.“

Samkvæmt formúlunni

Með diplómagráðu frá MUD upp á vasann er Kristín þess hins vegar fullviss að þeim opnist margar dyr. Fyrst og fremst að stúdíóum og skólum MUD út um allan heim þar sem samböndin við tískuheiminn og kvikmyndabransann verða oft til, en fyrirtækið er útskrifuðum nemendum innan handar við að sækja um vinnu við fagið.

Þótt Kristín sé eigandi fyrirtækisins á Íslandi, kveðst hún engu ráða. „Mér er bara stjórnað að utan og er undir ströngu eftirliti,“ segir hún. Henni er þó ekki eins leitt og hún lætur, enda hæstánægð með samninginn sem hún skrifaði undir við MUD sem kvað á um að skólinn hér yrði starfræktur nákvæmlega eftir MUD-formúlunni.

„Stefnan er að bjóða upp á hágæða förðunarnám sem uppfyllir ströngustu kröfur nútímans. Kennarnir eru í stífri þjálfun hjá fyrirtækinu áður en þeir fara að kenna og námskráin er alls staðar sú sama. Árlega stunda mörg hundruð nemendur nám við MUD-skólana víðs vegar um heim þar sem þeir geta sérhæft sig í förðun af öllu tagi; til dæmis hefðbundinni förðun, „air-brush“-förðun og förðun fyrir leikhús og kvikmyndir, svokallaðri „special effect“-förðun,“ segir Kristín.

Enskan er málið

Fyrst í stað verður aðeins erlendur kennari frá höfuðstöðvum MUD starfandi við skólann og þar af leiðandi verður kennt á ensku. Það finnst Kristínu alveg ljómandi gott enda sé enskan fagmálið og nemendur hafi gott af að æfa sig í málinu og læra ýmis alþjóðleg faghugtök. Grunnnámið er 210 kennslustundir, kennt verður 5 daga vikunnar frá kl. 9 til 17 í sex vikur auk þess sem boðið verður upp á fjölmörg námskeið í förðun fyrir sérstök tilefni eins og Kristín nefndi áður. Síðan bætast við tvær vikur í „special effects“-förðun og í lokin verða haldnir ljósmyndadagar þar sem útskriftarverkefni nemenda verða mynduð.

Þegar hafa sex manns skráð sig í skólann. Kristín segir marga hafa sýnt náminu áhuga, bæði snyrti- og förðunarfræðingar sem vilji bæta við sig þekkingu og byrjendur sem langar til að eiga starfsmöguleika víðar en á Íslandi. „Ég hafði lengi haft augastað á MUD, enda hafði verið draumur minn í mörg ár að bjóða upp á alþjóðlegan förðunarskóla. Mér var strax mjög vel tekið í höfuðstöðvunum, þar á bæ voru menn spenntir fyrir Íslandi og töldu næsta víst að hingað sæki erlendir nemendur í nánustu framtíð til að fullnuma sig í förðun að hætti MUD,“ segir Kristín, sem nýverið lét annan draum sinn rætast og stofnaði No Name búðina í Glæsibæ með samnefndar snyrtivörur, íslenska hönnun og gjafavörur.

Nánari upplýsingar um námið: iceland@mudeurope.com Vefsíða: mudeurope.com